Hoppa yfir valmynd

Frétt

15. apríl 2021 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Frumvarp til innleiðingar á hringrásarhagkerfi lagt fram á Alþingi

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra hefur mælt fyrir frumvarpi sem felur í sér innleiðingu Evróputilskipana sem er ætlað að skapa skilyrði fyrir myndun hringrásarhagkerfis. Tilgangurinn er að ýta undir bætta endurvinnslu úrgangs, draga úr myndun hans og draga stórlega úr urðun. Frumvarpið felur í sér breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, lögum um meðhöndlun úrgangs og lögum um úrvinnslugjald.

Markmiðið með hringrásarhagkerfi er að draga úr auðlindanotkun, auka líftíma auðlinda jarðar og koma í veg fyrir að efni og hlutir hverfi úr hagkerfinu sem úrgangur. Þannig eru fullnægjandi úrgangsforvarnir og úrgangsstjórnun mikilvægur hluti þess sem til staðar þarf að vera í virku hringrásarhagkerfi. Ljóst er að tækifæri eru til bættrar úrgangsstjórnunar hér á landi. Endurvinnsla heimilisúrgangs var einungis 28% árið 2018 en markmiðið var 50% árið 2020 samkvæmt gildandi löggjöf. Á komandi árum verður markmiðið hækkað í 65% og því ljóst að bregðast þarf strax við með bættri úrgangsstjórnun hér á landi. Með frumvarpinu er ætlunin að stíga mikilvæg skref í átt að hringrásarhagkerfi.

Með frumvarpinu er komið á skyldu til flokkunar og söfnunar fleiri úrgangstegunda en í núgildandi lögum og samræmdum flokkunarmerkingum á landsvísu. Jafnframt að skylt verði að flokka byggingar- og niðurrifsúrgang.

Skerpt er á þeirri skyldu í lögunum að sveitarfélög og fyrirtæki sem safna flokkuðum úrgangi komi honum sannanlega til endurvinnslu. Þá eru lagðar til breytingar sem varða heimildir sveitarfélaga til innheimtu gjalds fyrir meðhöndlun úrgangs.

Í frumvarpinu er lögð til framlengd framleiðendaábyrgð fyrir allar umbúðir, sem felur í sér að framleiðendur og innflytjendur bera ábyrgð á vöru þegar hún er orðin að úrgangi. Úrvinnslugjald er lagt á vöruna til þess að standa undir þeim kostnaði sem hlýst af meðhöndlun viðkomandi úrgangs og Úrvinnslusjóður sér um framkvæmdina. Þá er lagt til að framleiðendaábyrgð gildi einnig um plastvörur og veiðarfæri úr plasti.  

„Innleiðing hringrásarhagkerfisins er eitt af stóru áherslumálunum mínum. Við höfum þegar gripið til ákveðinna aðgerða varðandi plastmengun, mótun nýrrar stefnu um meðhöndlun úrgangs er á lokametrunum og sama gildir um aðgerðaáætlun um að draga úr matarsóun. Í þessu frumvarpi eru stjórntæki úrgangsmála styrkt til muna, þjónusta við almenning aukin og frekari kröfur gerðar til flokkunar úrgangs og meðhöndlunar hans, ekki síst að draga stórlega úr urðun sem er stórt loftslagsmál. Þá er kveðið á um að samræma flokkunarmerkingar á öllu landinu. Ég bind miklar vonir við að þetta frumvarp verði að lögum í vor og að það muni leiða til þess að við náum markmiðum okkar í úrgangsmálum sem fyrst,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, lögum
um meðhöndlun úrgangs og lögum um úrvinnslugjald (EES-reglur, hringrásarhagkerfi).

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum