Hoppa yfir valmynd

Frétt

20. apríl 2021 Innviðaráðuneytið

Mælt fyrir frumvarpi um ný heildarlög um áhafnir skipa

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, mælti í liðinni viku fyrir frumvarpi um ný heildarlög um áhafnir skipa. Markmið lagafrumvarpsins er að tryggja öryggi áhafna, farþega og skipa og efla varnir gegn mengun sjávar með tilteknum kröfum og útgáfu skírteina. Því er einnig ætlað að stuðla að jöfnu aðgengi kynjanna að menntun, þjálfun og störfum um borð í íslenskum skipum.

Frumvarpið felur í sér talsverða einföldun á regluverki en verði það að lögum munu þau sameina ákvæði fernra laga sem í gildi eru. Það eru lög um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa, lög um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa, lög um lögskráningu sjómanna og loks lög um bryta og matreiðslumenn í farskipum og fiskiskipum. Verði frumvarpið í lögum verður ráðist í einföldun reglugerða á grunni laganna en ætla má að þeim fækki úr 15 í að minnsta kosti fjórar.

Víðtækt alþjóðlegt regluverk er í gildi um áhafnir skipa sem byggir á samningum Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar og Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, sem og ákvæðum gerða sem teknar hafa verið upp í EES-samninginn. Frumvarpið tekur tillit til allra þessara alþjóðlegu skuldbindingar.

Helstu breytingar frá gildandi lögum

Ekki eru lagðar til umfangsmiklar efnislegar breytingar á ákvæðum gildandi laga í frumvarpinu. Helstu breytingar eru eftirtaldar:

Í fyrsta lagi er kveðið á um að tiltekin erlend skip geti fallið undir gildissvið laganna. Þar er átt við erlend skip sem notuð eru í atvinnuskyni á íslensku innsævi í 30 daga samfleytt eða samtals 90 daga á ársgrundvelli. Eðlilegt er talið að öryggiskröfur um íslensk skip eigi við um þessi skip. Þetta gæti t.d. átt við um áhafnir erlendra þjónustuskipa laxeldis, dýpkunarskipa, dráttarskipa, farþegabáta og farþegaskipa í útsýnis- og skoðunarferðum. 

Í öðru lagi er lagt til að undanþágunefnd og mönnunarnefnd skipa verði lagðar niður og verkefni þeirra fengin Samgöngustofu. Samgöngustofa hefur haft þessi verkefni með höndum hvað varðar farþegaskip, farþegabáta og flutningaskip frá því lög um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa tóku gildi árið 2001.

Í þriðja lagi er lagt til að kveðið verði skýrar á um lágmarksmönnun réttindamanna á smáskipum að teknu tilliti til útivistar þeirra, þ.e. skipa sem eru 15 metrar og styttri að skráningarlengd. Markmiðið er að fylgt verði svokallaðri 14 klst. reglu á grundvelli 64. gr. sjómannalaga. Það þýðir að þegar útivist þeirra fer yfir 14 klst. skuli ávallt vera tveir skipstjórnarmenn um borð með tilskilin réttindi. Ekki er um nýmæli að ræða en mikilvægt talið að kveðið væri skýrt á um þetta í lögum. 

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra sagði framsöguræðu sinni á Alþingi að mikilvægt væri að hvíldartímareglur séu virtar þannig að þeir sem standa útvörð og sigla séu ekki of þreyttir til að sinna starfi sínu. Samkvæmt upplýsingum rannsóknarnefndar samgönguslysa mætti rekja allt að 50 strönd smábáta frá árinu 2000 til þess að sá sem var við stjórn skipsins sofnaði vegna þreytu og vinnuálags og hafi nefndin margoft komið með tillögur til úrbóta í þessu efni. 

Ráðherra bætti við í ræðu sinni að ekki væru allir á eitt sáttir með þessa reglu og að sú gagnrýni hafi komið fram að með þessu sé verið að útrýma einyrkjum. Til að mæta því væri lagt til sérstakt undanþáguákvæði frá reglum, þegar eigandi skipsins er lögskráður sem skipstjóri og væri einn um borð. Jafnan væri um að ræða einstaklinga sem stundi ekki daglegar strandveiðar. Í þessum efnum hafi verið horft til sambærilegrar reglu í Noregi.

Í fjórða lagi er lagt til að krafa um að matsveinn eða bryti væri um borð í skipi verði miðuð við útivist skips en ekki stærð þess eins og gildir samkvæmt lögum um bryta og matreiðslumenn á farskipum og fiskiskipum.

Loks er í fimmta lagi lagt til að sett verði ákvæði um stjórnvaldssektir sem Landhelgisgæsla Íslands eða Samgöngustofa geti lagt á vegna brota á tilteknum ákvæðum laganna og reglum samkvæmt þeim.

Brýnt að jafna kynjahlutföllin

Við smíði frumvarpsins var horft til áhrifa þess á jafnrétti. Ráðherra sagði í framsöguræðu sinni að sjósókn væri karllægur atvinnuvegur og mikill kynjamunur í allri vinnu tengdri greininni. „Það er brýnt að jafna kynjahlutföllin á þessu sviði og er hægt að færa margvísleg rök fyrir því. Innan samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins er nú unnið að verkefninu: „Konur í siglingum“ sem er ætlað að draga úr þessum mun á þátttöku kynjanna í siglingum. Þá er rétt að benda á að orðfæri innan þessarar atvinnugreinar sem og laga og reglna sem um það gilda er afar karllægt og er horft til þess að draga úr því eins og kostur er í frumvarpinu,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, í framsöguræðu sinni á Alþingi um frumvarpið.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum