Hoppa yfir valmynd

Frétt

27. apríl 2021 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Þurfum að ná 85% nýskráningarhlutfalli fyrir nýorkubíla

Sigurður Ingi Friðleifsson, framkvæmdarstjóri Orkuseturs, flutti ávarp. Á myndinni eru að auki Edda Sif Aradóttir, framkvæmdastýra Carbfix,  Agnes Freyja Björnsdóttir frá Studio allsber og  Brynja Þorgeirsdóttir fundarstýra. Stefán Gíslason hjá Environice tók þátt í pallborðsumræðunum í gegnum Zoom. - myndGolli

Íslendingar þurfa að taka sig verulega á ætli þeir að standast skuldbindingar Parísarsamkomulagsins. Þetta sagði Sigurður Ingi Friðleifsson, framkvæmdastjóri Orkuseturs, í erindi sínu Orkuskipti í samgöngum – á ferð til framtíðar á Umhverfisþingi í dag.

Hægt er að fylgjast með streymi af þinginu á vef Stjórnarráðsins.

Sigurður Ingi, sem flutti erindi sitt í málstofu um loftslagsmál og hringrásarhagkerfið,  benti á að samgöngur séu einn stærsti einstaki losunarþátturinn. „Orkuskiptin hafa náð meirihluta. Það eru góðar fréttir og við getum verið bjartsýn,“ sagði hann.

Þó nýskráningarhlutfall nýorkubíla sé nú komið yfir 50% hér á landi dugi það hins vegar ekki til. Í Noregi sé hlutfallið 85% og það sé það nýskráningarhlutfall sem Íslendingar þurfi að ná til að standast skuldbindingar Parísarsamkomulagsins.

Samkvæmt útreikningum Orkuseturs þurfa nýorkufólksbílar að vera orðnir 130.000 árið 2030 eigi þetta að takast, en í dag eru þeir um 14.000. „Þarna þurfum við að stíga miklu fastar inn í, enda eru lausnirnar komnar og allt saman tilbúið,“ sagði Sigurður Ingi. 

Nýorkusendibílum þarf sömuleiðis að fjölga verulega. Þeir eru í dag um 500, en þurfa árið 2030 að vera orðnir um 10.000. Hópferðabílum í þessum flokki þarf einnig að fjölga, sem og vörubílum, en tæknilausnir fyrir síðastnefnda flokkinn hafa nýlega bæst við.

Á málstofunni fluttu einnig erindi þau Edda Sif Aradóttir, framkvæmdastýra Carbfix, Stefán Gíslason, umhverfisstjórnunarfræðingur hjá Environice og vöruhönnuðirnir Agnes Freyja Björnsdóttir og Silvía Sif Ólafsdóttir hjá Studio allsber. 

 

  • Ragna Benedikta Garðarsdóttir, dósent í félagssálfræði við Háskóla Íslands, Bjarni Bjarni Herrera, forstöðumaður sjálfbærniráðgjafar KPMG og Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar, í pallborðsumræðum  á Umhverfisþingi. Einnig tóku þátt í pallborðsumræðum þau Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs, og Þóra Margrét Þorgeirsdóttir, sérfræðingur hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum