Hoppa yfir valmynd

Frétt

29. apríl 2021 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Frumvarp sem stuðlar að endurvinnslu glers samþykkt á Alþingi

Pixabay /Marius Steinke   - mynd

Alþingi samþykkti í vikunni frumvarp Guðmundar Inga Guðbrandssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra, um breytingar á lögum um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota drykkjarvöruumbúða. Samþykkt frumvarpsins hefur í för með sér að hægt verður að hefja markvissa vinnu við endurvinnslu á einnota glerumbúðum á þessu ári.

Markmið laganna er að skapa skilyrði fyrir myndun hringrásarhagkerfis með því að stuðla að aukinni söfnun og endurvinnslu allra einnota drykkjarvöruumbúða og minnka notkun þeirra. Í lögunum felast því breytingar sem auka eiga skil og endurvinnslu á einnota drykkjarvöruumbúðum, m.a. með hækkun skilagjalds, sem skilar sér aftur til neytenda við skil þeirra á umbúðunum til endurvinnslu. Skilagjaldið hækkar úr 16 kr. í 18 kr.

Í lögunum er skilgreindur nýr flokkur drykkjarvöruumbúða, þ.e. umbúðir úr endurunnu, ólituðu plastefni, sem mun bera lægra gjald en aðrar plastumbúðir og felur þannig í sér hvata til notkunar á endurunnu plasti til framleiðslu nýrra drykkjarvöruumbúða.

Sú breyting verður einnig með lögunum að þeim sem selja farþegum og áhöfnum millilandafara óáfengar drykkjarvörur og bjór úr tollfrjálsri verslun við brottför frá landinu verður gert að greiða skilagjald og umsýsluþóknun, rétt eins og gilt hefur um sölu á drykkjarvörum við komu til landsins. Athuganir benda til að drykkjarvöruumbúðir í brottfararsal verði að stórum hluta eftir í landinu og skili sér til Endurvinnslunnar til meðhöndlunar.

„Samþykkt þessara laga stuðlar að enn frekari eflingu endurvinnslu á Íslandi í anda hringrásarhagkerfisins. Úrgangur er sannarlega hráefni sem mikilvægt er að halda í hringrás og nota aftur og aftur – skapa ný verðmæti úr því sem við áður töldum vera úrgang. Við stöndum okkur vel á sumum sviðum úrgangsmála en hvað varðar endurvinnslu glers þá þurfum við að gera margfalt betur. Þessi lög gera okkur kleift að tryggja það og munu leiða til þess að við náum markmiðum okkar um endurvinnslu glers. Upp á það hefur mikið vantað,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.

Lög um breytingu á lögum um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, nr. 52/1989 (endurvinnsla og skilagjald)

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum