Hoppa yfir valmynd

Frétt

5. maí 2021 Utanríkisráðuneytið

Sjötíu ár frá undirritun varnarsamningsins við Bandaríkin

Sjötíu ár eru í dag liðin frá undirritun varnarsamningsins milli Íslands og Bandaríkjanna. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra segir varnarsamstarfið við Bandaríkin hafa reynst þjóðinni heilladrjúgt.

Bjarni Benediktsson, þáverandi utanríkisráðherra, undirritaði samninginn fyrir Íslands hönd í Reykjavík þann 5. maí 1951 ásamt Edward B. Lawson, þáverandi sendiherra Bandaríkjanna.

„Varnarsamstarfið við Bandaríkin er ásamt aðildinni að Atlantshafsbandalaginu meginstoð í öryggi og vörnum Íslands. Það byggir á þeim trausta grunni sem lagður var með varnarsamningnum fyrir sjötíu árum og hefur reynst okkur Íslendingum einkar farsælt,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra.

Upphafsákvæði varnarsamningsins vísa til þess að Bandaríkin taki að sér fyrir hönd Atlantshafsbandalagsins að verja Ísland komi til ófriðar. Viðbætur hafa verið gerðar við samninginn í gegnum tíðina og samstarf þróað áfram. Framkvæmd varnarsamningsins á friðartímum felur aðallega í sér vel skilgreind samstarfsverkefni, þar með talið loftrýmisgæslu, kafbátaeftirlit og sameiginlegar varnaræfingar.

Varðberg, samtök um vestræna samvinnu og alþjóðamál, efndi fyrr í dag til vefstefnu um varnarsamninginn í tilefni afmælisins. Á meðal þátttakenda í viðburðinum voru Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, sem flutti opnunarávarp, og Bryndís Kjartansdóttir, skrifstofustjóri öryggis- og varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum