Hoppa yfir valmynd

Frétt

10. maí 2021 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Vísindin geyma lausnirnar: Vísindamálaráðherrar funda um málefni norðurslóða

„Það eru samvinnan og vísindin sem munu leiða okkur að lausnum við þeim flóknu áskorunum sem mæta okkur vegna loftslagsbreytinga og hlýnunar jarðar,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra í opnunarávarpi sínu á alþjóðlegum fundi 28 vísindamálaráðherra stóð yfir um helgina.

Þetta er þriðji fundurinn af þessu tagi (e. Arctic Science Ministerial) en Ísland og Japan voru sameiginlegir gestgjafar hans. Fyrsti ráðherrafundurinn var haldinn að frumkvæði Bandaríkjanna árið 2016 í Washington.

Auk ráðherranna 28 tóku fulltrúar sex frumbyggjasamtaka þátt í fundinum um helgina en í mannlíf á norðurslóðum er eitt leiðarstefja í formennskuáætlun Íslendinga í Norðurheimskautsráðinu sem lýkur síðar á árinu. Á norðurslóðum búa nú um 4 milljónir manna í 8 ríkjum, en um 10% þeirra eru skilgreindir sem frumbyggjar.

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra:
„Hvatinn að baki þessum fundum er að efla samstarf og sameiginlega forgangsröðun vísindamálaráðherra heimsins þegar kemur að málefnum norðurslóða. Ávinningur af fundum hefur þegar skilað sér í auknu rannsóknasamstarfi, deildri þekkingu og nánara samtali milli ríkjanna. Við gegnum öll okkar hlutverki í að skapa umgjörð og rými fyrir vísindi og rannsóknir og áherslan á norðurslóðir er í mikilvægum forgunni nú á vettvangi alþjóðastjórnmálanna og margt í deiglunni. Sum ríkjanna búa að mikilvægum innviðum eða búnaði, önnur geta boðið fram þekkingu og skilning á sögunni eða sínum staðbundnu vistkerfum. Ég trúi því að samvinna á vísindasviðinu styrki okkur öll í því sameiginlega verkefni að vernda náttúru og mannlíf á norðurslóðum.“

Embla Eir Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Norðurslóðanets Íslands tók þátt í undirbúningi fundarins sem fulltrúi Íslands í vísindaráðgjafaráði ASM3. Þá stýrði Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra Íslands í Japan síðari fundardeginum.

Aðalræðumaður fyrir hönd Íslands á fundinum var hagfræðingurinn dr. Joan Nymand Larsen vísindamaður við Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og prófessor við félagsvísinda- og lagadeild Háskólans á Akureyri. Hennar sérsvið eru efnahagsleg og sjálfbær þróun á norðurslóðum; nýting og stjórnun náttúruauðlinda og félagsleg og efnahagsleg áhrifum loftslagsbreytinga.

Dr. Joan Nymand Larsen hagfræðingur:
„Framtíð norðurslóða ræðst að miklu leyti af ákvörðunum unga fólksins í dag, hvernig þau bregðast við þeim tækifærum og áskorunum sem þau mæta. Þess vegna er mikilvægt að við hlustum eftir sjónarmiðum þeirra, heyrum raddir þeirra – svo við höfum betri skilning á þeirri framtíð. Ljóst er að margt ungt fólk hefur miklar áhyggjur af loftslagsmálum. Þau upplifa sig oft of áhrifalaus til þess að breyta hlutum – og að stjórnmálamenn hlusta ekki á þau.“

Undirbúningur fundarins hefur staðið yfir frá árinu 2018 og hafa Ísland og Japan unnið náið saman að því að móta áherslur hans sem bæði taka mið af fyrri ráðherrafundum á vettvangi ASM1 og ASM2, áherslumálum Íslands og Japan og þeirri þróun sem orðið hefur vegna COVID-19. Afrakstur undirbúnings af Íslands hálfu eru m.a. skýrslan Kortlagning norðurslóðarannsókna á Íslandi, AM3 gagnagrunnur um norðurslóðaverkefni og umfangsmikil samantektarskýrsla fundarins, Knowledge for a sustainable Arctic, þar sem finna má yfirlit og upplýsingar frá öllum þátttökuríkjanna og samtakanna um þeirra framlag til alþjóðlegrar vísindasamvinnu og áherslumál.

Fréttin á ensku / In english.

  • Vísindin geyma lausnirnar: Vísindamálaráðherrar funda um málefni norðurslóða - mynd úr myndasafni númer 1
  • Vísindin geyma lausnirnar: Vísindamálaráðherrar funda um málefni norðurslóða - mynd úr myndasafni númer 2
  • Vísindin geyma lausnirnar: Vísindamálaráðherrar funda um málefni norðurslóða - mynd úr myndasafni númer 3
  • Vísindin geyma lausnirnar: Vísindamálaráðherrar funda um málefni norðurslóða - mynd úr myndasafni númer 4

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum