Hoppa yfir valmynd

Frétt

11. maí 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

2.500 sumarstörfum fyrir námsmenn úthlutað

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.  - mynd

Alls hefur 2.500 tímabundnum sumarstörfum fyrir námsmenn verið úthlutað hjá Vinnumálastofnun, en störfin eru hluti af Hefjum störf átakinu sem Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, setti af stað 12. mars síðastliðinn. Markmiðið með átakinu er að auðvelda fyrirtækjum, stofnunum, sveitarfélögum og frjálsum félagasamtökum að ráða fólk og búa sig undir bjartari framtíð, og var stefnt að því að allt að 7.000 tímabundin störf yrðu til. Nú þegar hafa um 8.700 störf verið skráð í átakinu og hafa aldrei jafn mörg störf borist til vinnumiðlunar áður.

Ráðist var í svipað átak í fyrra sem náði til sveitarfélaga og opinbera stofnana en átakið í ár hefur verið víkkað út og nær til félagasamtaka og iðngreina ásamt sveitarfélögum og opinberum stofnunum. Hverjum námsmanni, 18 ára og eldri, sem ráðinn er inn með úrræðinu fylgir styrkur sem nemur fullum dagvinnulaunum samkvæmt gildandi kjarasamningum, en mest að hámarki tekjutengdra atvinnuleysisbóta, allt að 472 þúsund krónur á mánuði auk 11,5% framlags í lífeyrissjóð. Ráðningartímabilið er allt að tveir og hálfur mánuður. Vinnumálastofnun auglýsir störf frá stofnunum ríkisins og sveitarfélögum á vef sínum en félagasamtök og iðngreinar auglýsa sín störf sjálf. Hefur Vinnumálastofnun þegar opnað fyrir umsóknir á þeim störfum sem stofnunin auglýsir.

Fylgst verður náið með framvindu þessa verkefnis á næstu vikum til þess að tryggja að námsmenn verði ekki án atvinnu og framfærslu í sumar.

Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra: „Það er algjört forgangsatriði að skapa hér störf, bæði fyrir þá sem hafa verið atvinnulausir og námsmenn á milli anna. Vegna þess ástands sem hefur skapast vegna Covid-19 faraldursins munu námsmenn standa frammi fyrir erfiðleikum við að fá vinnu í sumar. Það er mikið gleðiefni að tekist hafi að búa til sumarstörf fyrir 2.500 námsmenn nú þegar og munum fylgjast vandlega með stöðunni til þess að tryggja að námsmenn verði ekki án starfs í sumar.”

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum