Hoppa yfir valmynd

Frétt

11. maí 2021 Heilbrigðisráðuneytið

Greining á legutíma sjúklinga eftir kyni og sjúkdómum

  - myndStjórnarráðið

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að ráðast í greiningu á mun á legutíma eftir kyni vegna tiltekinna sjúkdóma. Þetta er í samræmi við framkvæmdaáætlun um leiðir til að vinna að úrbótum innan heilbrigðisþjónustunnar með hliðsjón af ólíkri stöðu kynjanna. Áætlunin byggist á nýlegri skýrslu Finnborgar Salome Steinþórsdóttur þar sem heilsufar kynjanna var kortlagt út frá kynja- og jafnréttissjónarmiðum til að leggja mat á hvort heilbrigðisþjónustan mæti ólíkum þörfum kynjanna.

Finnborg vann skýrsluna að beiðni heilbrigðisráðherra og skilaði niðurstöðum sínum í janúar síðastliðnum. Í skýrslunni kemur fram að þrátt fyrir að margt hafi áunnist í kynja- og jafnréttismálum síðustu ár, þá sé staða kynjanna enn ólík og ójöfn hér á landi. Ójafnrétti og viðtekin viðmið um kyn, þ.e. menningarlega mótaðar hugmyndir um karlmennsku og kvenleika og hvernig konur, karlar og kyn sem eru í minnihluta eigi að vera og eigi að hegða sér, hafi áhrif á heilsu, heilsuhegðun og aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Kynjaslagsíða í heilbrigðisrannsóknum og innan heilbrigðiskerfa viðhaldi og stuðli að kynjamisrétti sem hafi alvarlegar afleiðingar fyrir heilsu og velferð fólks.

Í skýrslu Finnborgar er fjallað um mun á legutíma eftir kyni vegna ýmissa sjúkdóma, s.s. hjarta- og æðasjúkdóma, öndunarfærasjúkdóma og taugasjúkdóma. Lagt er til að metið verði hvort sá munur eigi sér eðlilegar skýringar eða hvort endurskoða þurfi verklag til að koma í veg fyrir að kyn sjúklinga hafi áhrif á þá heilbrigðisþjónustu sem þeim er veittur innan stofnana heilbrigðisþjónustunnar.

Til að framkvæma þessa úttekt hefur ráðuneytið óskað eftir gögnum frá heilbrigðisstofnunum um legutíma sjúklinga eftir sjúkdómum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum