Hoppa yfir valmynd

Frétt

12. maí 2021 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Ísland ljóstengt hefur bylt forsendum búsetu og atvinnu í sveitum landsins

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, á kynningarfundi um samfélagslegan ávinning af landsátakinu Ísland ljóstengt. - mynd

Landsátakinu Ísland ljóstengt lýkur á þessu ári, en síðustu styrktarsamningar Fjarskiptasjóðs við sveitarfélög um ljósleiðarauppbyggingu í dreifbýli utan markaðssvæða voru undirritaðir í lok síðasta mánaðar. Alls hafa 57 sveitarfélög hlotið styrki til að tengja um 6.200 styrkhæfa staði með ljósleiðara frá því að verkefnið hófst árið 2016 en á þeim tíma hefur ríkið hefur lagt 3.350 milljónir kr. til verkefnisins. Verkefnið hefur staðist áætlanir um kostnað og tíma þrátt fyrir um 60% aukningu á umfangi.

skýrsla um Ísland ljóstengt leiðir í ljós ótvíræðan árangur og samfélagslegan ávinning af verkefninu. Í niðurstöðum skýrslunnar segir að betri fjarskiptatengingar hafi bætt lífsgæði íbúa á landsbyggðinni og aukið byggðafestu og atvinnuöryggi. 

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, kynnti árangur og samfélagslegan ávinning af landsátakinu á kynningarfundi í ráðuneytinu í dag. Auk hans flutti formaður fjarskiptasjóðs ávarp, sveitarstjórnarfólk fjallaði um reynslu af Íslandi ljóstengt og loks kynnti höfundur skýrslunnar efni henni nánar.

„Ljósleiðaravæðingin er eitt mesta byggðaverkefni seinni ára í samstarfi við sveitarfélögin. Stórbættar fjarskiptatengingar hafa bylt forsendum búsetu og atvinnurekstrar í sveitum landsins. Landsátakið Ísland ljóstengt er framúrskarandi dæmi um samvinnu um sérstaka fjármögnun á vegum ríkis og sveitarfélaga til að jafna aðstöðumun milli dreifbýlis og þéttbýlis. Það er afskaplega ánægjulegt að hafa gert síðustu samningana á grundvelli Ísland ljóstengt. Þau tímamót eru í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og mikilvægur áfangi á þeirri vegferð að lögheimili og fyrirtæki óháð búsetu eigi almennt kost á tengingu sem getur borið gígabita netsamband.“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

6.200 staðir styrktir í dreifbýli

Unnið hefur verið sleitulaust að því að efla ljósleiðaravæðingu dreifbýlis frá árinu 2016. Með lokaúthlutun fjarskiptasjóðs í lok síðasta mánaðar hefur ríkið styrkt með beinum hætti tengingu um 6.200 lögheimila og annarra styrkhæfra staða í dreifbýli landsins og stuðlað óbeint að tengingu þúsunda sumarhúsa og annarra bygginga, þótt ríkið hafi ekki lagt til þess beina fjármuni. 

Framlag ríkisins til verkefnisins nam alls 3.350 m.kr. Fjarskiptasjóður úthlutaði 2.950 m.kr. í styrki á árunum 2016-2021 en ráðuneytið lagði til 400 m.kr. á grunni byggðaáætlunar. Sveitarfélög og íbúar hafa jafnframt lagt til sambærilega fjármuni. Framkvæmdir eru á ábyrgð sveitarfélaganna sem hafa ýmist kosið að eiga og reka kerfin, leigja út reksturinn eða selja til fjarskiptafyrirtækja. Samið var við 17 sveitarfélög í þessum síðasta áfanga Ísland ljóstengd en alls hafa 57 sveitarfélög kosið að fara þessa samvinnuleið með ríkinu.

Mun fleiri staðir tengdir fyrir sambærilegan kostnað

Verkefnið fór fram úr væntingum hvað varðar umfang og kostnað, þ.e. 60% fleiri tengingar munu líklega fást fyrir sambærilegan eða jafnvel minni kostnað og upphaflega var áætlað. Verklokum sveitarfélaganna seinkar þó til ársloka 2022, sem skýrist einkum af verulega auknu umfangi. Í aðdraganda landsátaksins árið 2015 var umfangið talið vera um 3.800 staðir, heildarstofnkostnaður áætlaður allt að 8.000 m.kr. og því átti að ljúka fyrir árslok 2021. Ekki er þó tímabært að fullyrða um heildarstofnkostnað þar sem að uppbyggingu er ekki lokið.

Kveikjan að Ísland ljóstengt var framtíðarsýn og markmið stjórnvalda um að ljósleiðaravæða dreifbýlið en hornsteinn var lagður að með blaðagrein Sigurðar Inga árið 2013 undir yfirskriftinni „Ljós í fjós“.

Skýrsla: Lífsgæði og atvinnuöryggi aukist

Í skýrslunni um samfélagsleg áhrif af verkefninu Ísland ljóstengt eru kynntar fjölmargar áhugaverðar niðurstöður en höfundur hennar er Vífill Karlsson, hagfræðingur. Ljóst er að verkefnið hefur bætt aðgengi og gæði nettenginga á þeim svæðum sem hlotið hafa styrk til uppbyggingar sem hefur haft mikil áhrif fyrir íbúa í dreifbýli.

Helstu niðurstöður skýrslunnar

  • Verkefnið hefur aukið byggðafestu á styrktum svæðum.
  • Vísbendingar eru um að lífsgæði hafi aukist í kjölfar úrbóta á nettengingum á grundvelli verkefnisins.
  • Ísland ljóstengt virðist hafa leitt til betri stöðu íbúa á vinnumarkaði: Meira atvinnuöryggi, hærri launatekjur, meira atvinnuúrval og meiri möguleikar til eigin atvinnureksturs.
  • Betri nettengingar geta stuðlað að hagfelldara vistspori samfélagsins. Gögn benda til þess að íbúar sem fengið hafa betra netsamband ferðist minna vegna vinnu. Áhrifin reynast sterkari í dreifbýli en þéttbýli. 
  • Vísbendingar komu fram um að betri nettengingar hafi stuðlað að því að lækka vöruverð, framfærslukostnað og bæta vöruúrval.
  • Aðgengi að menningu og menntun er betra hjá þeim sem hafa góðar nettengingar.
  • Fyrirtæki á landsbyggðinni telja nettengingar mikilvægasta þáttinn í sínum rekstri af þeim 17 þáttum sem spurt var um. Fyrirtækin voru mjög sammála um þetta og ekki mikill munur á milli atvinnugreina. Það er því ljóst að atvinnulífið hefur notið mjög góðs af aðkomu Ísland ljóstengt í uppbyggingu ljósleiðara í dreifbýli. Meiri netnotkun barna virðist auka færni þeirra og þroska. Betra aðgengi að neti hefur þó ekki bara kosti í för með sér. Það stuðlar að lengri skjátíma með tilheyrandi neikvæðum áhrifum. 
  • Efnahagssamdráttur og heilsutjón hefði orðið meira hérlendis vegna Covid ef góðra nettenginga hefði ekki notið við. 
  • Covid-19 virðist síðan ætla að hafa varanlegar breytingar á vinnumarkaði sem grundvallast á góðum nettengingum, svo sem aukinn sveigjanleika fyrir fólk sem getur unnið störf án staðsetningar og auknir atvinnumöguleikar fatlaðs fólks. 

Byggðakjarnar á landsbyggðinni næstir á dagskrá

Á fundinum í dag kynnti Sigurður Ingi áform sín um næstu skref í ljósleiðaravæðingu á landsbyggðinni. „Ég hyggst svara ákalli um ljósleiðaravæðingu byggðakjarna og leggja grunn að nýju samvinnuverkefni, Ísland fulltengt, í samræmi við markmið fjarskiptaáætlunar um að ljúka ljósleiðaravæðingu landsins alls fyrir árslok 2025. Fjarskiptaráði og byggðamálaráði hefur verið falið að greina stöðuna á landsvísu í samvinnu við Póst- og fjarskiptastofnun, í því skyni að undirbyggja valkosti og ákvörðunartöku um aðkomu stjórnvalda ef á þarf að halda að einu brýnasta byggðamáli samtímans,“ sagði hann.

Ráðherra sagði að margt megi læra af skipulagi og framkvæmd Ísland ljóstengt. Það veganesti megi horfa til við undirbúning áframhaldandi uppbyggingu fjarskiptainnviða á landsvísu. Hann sagði að vonir hafi staðið til þess að ljósleiðaravæðing byggðakjarna færi fram samhliða Ísland ljóstengt verkefninu á markaðslegum forsendum en sú uppbygging hefur því miður ekki gengið eftir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum