Hoppa yfir valmynd

Frétt

14. maí 2021 Utanríkisráðuneytið

Norðurljós: Skýrsla um efnahagstækifæri á norðurslóðum komin út

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra ásamt Árna Sigfússyni formanni starfshópsins, Sigþrúði Ármann, fulltrúa í starfshópnum (t.h.), og Nínu Björk Jónsdóttur, starfsmanni hópsins (t.v.) - myndUtanríkisráðuneytið

Starfshópur um efnahagstækifæri á norðurslóðum hefur afhent utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra skýrsluna Norðurljós, sem hefur að geyma tillögur um hvernig Ísland geti sem best staðið að því að vernda og efla efnahagslega hagsmuni Íslands á norðurslóðum til framtíðar.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra skipaði starfshópinn í október 2019. Árni Sigfússon er formaður starfshópsins en auk hans eiga Ísak Einar Rúnarsson og Sigþrúður Ármann sæti í hópnum. Verkefni hópsins var að greina heildstætt þann efnahagsuppgang sem fyrirséð er að verði á norðurslóðum og meta á þeim grundvelli hvernig best verði staðið að vörslu og eflingu íslenskra hagsmuna á svæðinu. Starfshópurinn afhenti ráðherra eintak af skýrslunni í utanríkisráðuneytinu í dag.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra segir að áhugi umheimsins á norðurslóðum sé sífellt að aukast og ljóst sé að miklar breytingar muni eiga sér stað á svæðinu á næstu árum og áratugum. Mikilvægt sé að huga að því hvernig best megi búa í haginn svo að Ísland geti nýtt þau tækifæri sem muni felast á svæðinu í framtíðinni. 

„Ísland er að mörgu leyti í sérstöðu sem norðurslóðaríki og það þurfum við að nýta okkur vel. Landið allt er innan þess svæðis sem skilgreint er sem norðurslóðir – höfuðborgin einnig. Þá býr Ísland við góða innviði, íslausar hafnir árið um kring, hér er gott og vel menntað starfsfólk, samheldið og öflugt samfélag og við erum vel staðsett í miðju Atlantshafi. Ísland er því í lykilaðstöðu til að laða til sín ýmis verkefni og tækifæri og er mikilvægt að við hugum vel að því hvernig við getum nýtt sérstöðu okkar og styrkleika sem best,“ segir Guðlaugur Þór.

Skýrslan ber heitið Norðurljós og hefur að geyma 57 tillögur, eða leiðarljós, sem settar eru fram í tíu köflum. Ítarleg greiningarvinna liggur að baki skýrslunni. Starfshópurinn átti alls fundi með á fjórða tug sérfræðinga frá ólíkum stofnunum, ráðuneytum, fyrirtækjum og öðrum sem tengjast norðurslóðum, auk þess að eiga stærri samráðsfundi. Alls átti starfshópurinn fundi með um 80 manns. Þá var óskað eftir greinargerðum frá tæplega 50 hagsmunaaðilum, þar á meðal sveitarfélögum, menntastofnunum, fyrirtækjum, samtökum, stofnunum og fleiri. 

  • Guðlaugur Þór og Árni Sigfússon á blaðamannafundinum í dag - mynd
  • Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra ásamt Árna Sigfússyni formanni starfshópsins, Sigþrúði Ármann, fulltrúa í starfshópnum (t.h.), og Nínu Björk Jónsdóttur, starfsmanni hópsins (t.v.) - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum