Hoppa yfir valmynd

Frétt

18. maí 2021 Fjármála- og efnahagsráðuneytið, Dómsmálaráðuneytið

Nýr vefur sýslumanna á Ísland.is

Kristín Þórðardóttir, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Andri Heiðar Kristinsson við opnun nýs vefsvæðis sýslumanna á Ísland.is - mynd

Dómsmálaráðherra opnaði í dag nýjan vef sýslumanna á Ísland.is ásamt Kristínu Þórðardóttur formanns Sýslumannaráðs og Andra Heiðari Kristinssyni framkvæmdastjóra Stafræns Íslands.

Nýr vefur markar nýtt upphaf fyrir sýslumenn í rafrænni þjónustu og verður þar í boði ýmis ný þjónusta sem miðar að því að auðvelda aðgengi almennings að upplýsingum frá sýslumönnum. Þar verður netspjall, spjallmenni sem svarar spurningum og síðar í mánuðinum verður þjónustuvefur settur upp þar sem hægt er að finna svör við algengustu spurningum í helstu málaflokkum sýslumanna.

Á síðustu mánuðum hefur orðið gríðarleg aukning í stafrænni þjónustu og sjálfsafgreiðslulausnum. Sem dæmi sóttu um 80% sér sakavottorð í gegnum stafræna sjálfsafgreiðslu í stað þess að mæta á skrifstofu sýslumanna, en þannig hafa um 4.000 manns sparað sér sporin það sem af er ári.

Umsóknir um meistarabréf eru nú rafrænar ásamt vottorði um vinnutíma til sveinsprófs. Umsóknir um rekstrarleyfi, tækifærisleyfi og gististaðaleyfi eru einnig rafrænar. Sérstök áhersla er lögð á að gera allt ferlið varðandi leyfisveitingar stafrænt og að þjónustan sæki nauðsynleg gögn með stafrænum hætti. Þannig er búið að lágmarka aðkomu starfsmanna og umsækjendur þurfa ekki að flakka á milli stofnana til að verða sér úti um gögn.

Ýmis þjónusta rafræn áður en langt um líður 

Sýslumenn eru hvergi nærri hættir og eru ýmsir þjónustuþættir í kortunum sem verða að veruleika áður en langt um líður. Veðbókarvottorð verða fljótlega rafræn, umsókn um fullnaðarskírteini, ný ökuskírteini og endurnýjun ökuskírteinis verður rafræn, umsókn um breytingu á lögheimili og/eða forsjá barns verður stafræn og að auki munu foreldrar geta undirritað samninga sín á milli rafrænt.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra:

„Embætti sýslumanna taka nú stórt skref í stafrænni þjónustu ríkisins. Þessi vefur mun auðvelda aðgang almennings að upplýsingum og þjónustu sýslumanna og það verður ánægjulegt að fylgjast með þegar fleiri og fleiri þjónustuþættir færast yfir í stafrænt form.“

Kristín Þórðardóttir, formaður Sýslumannaráðs:

„Sýslumenn vilja verða leiðandi þegar kemur að stafrænni opinberri þjónustu og er það okkur sérstaklega ánægjulegt að vera komin fyrst stofnana hins opinbera inn á vef Ísland.is til að geta boðið upp á rafræna þjónustu hvar og hvenær sem er.“

Andri Heiðar Kristinsson, framvkæmdastjóri Stafræns Íslands: 

„Sýslumenn hafa tekið risastökk á stuttum tíma í því að bæta stafræna þjónustu og því hefur verið mjög vel tekið af almenningi. Þetta sýnir að þörfin var fyrir hendi hjá og hefur gert sýslumenn að leiðandi stofnunum þegar kemur að stafrænni þjónustu.“

Vefsvæði sýslumanna á Ísland.is

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum