Hoppa yfir valmynd

Frétt

21. maí 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Frumvörp um sorgarleyfi og umönnunargreiðslur í samráðsgátt stjórnvalda

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hefur sett drög að tveimur frumvörpum í samráðsgátt stjórnvalda þar sem almenningur getur komið á framfæri ábendingum og tillögum.  Annars vegar er um að ræða frumvarp um sorgarleyfi en með frumvarpinu verður foreldrum á vinnumarkaði tryggt leyfi frá störfum auk þess sem þeir fá greiðslur til að koma til móts við tekjutap á tilteknu tímabili í tengslum við fjarveru frá vinnumarkaði í kjölfar barnsmissis. Hins vegar er um að ræða frumvarp um umönnunargreiðslur þar sem lagt er til að sett verði sérstök lög um greiðslur til umönnunaraðila langveikra og fatlaðra barna sem komi í stað gildandi laga með það að markmiði að styðja betur við umönnunaraðila langveikra og fatlaðra barna, meðal annars með því að auka skilvirkni stuðningskerfisins og draga úr félagslegri einangrun umönnunaraðila.

Meginefni frumvarps um sorgarleyfi er að tryggja foreldrum á vinnumarkaði, sem verða fyrir barnsmissi, rétt til sorgarleyfis í sex mánuði sem og greiðslur til að koma til móts við tekjutap á umræddu tímabili. Hámarksgreiðslur í sorgarleyfi vegna barnsmissis verða samkvæmt frumvarpinu 600.000 kr. á mánuði. Einnig er gert ráð fyrir að foreldrar geti nýtt rétt sinn til sorgarleyfis samhliða minnkuðu starfshlutfalli og þá jafnvel yfir lengra tímabil enda sýna niðurstöður rannsókna fram á mikilvægi þess að einstaklingar sem verða fyrir áföllum í lífinu haldi sambandi við vinnumarkaðinn eins og þeir treysta sér til hverju sinni. Markmiðið með frumvarpinu er að viðurkenna áhrif sorgarinnar vegna barnsmissis á fjölskylduna í heild, ásamt því að auka líkur á að foreldrar eigi farsæla endurkomu á vinnumarkað og taki frekar virkan þátt í samfélaginu í kjölfar barnsmissis. Þá verður réttur foreldra til sorgarleyfis jafn, óháð því á hvaða aldursbili þeir verða fyrir barnsmissi.

Frumvarp um umönnunargreiðslur er byggt á skýrslu starfshóps um umönnunargreiðslur og greiðslur til foreldra langveikra eða fatlaðra barna, en hópurinn skilaði skýrslu til ráðherra í ársbyrjun 2020 með tillögum um breytingar á stuðningskerfinu. Meginefni frumvarpsins er  að umönnunar- og foreldragreiðslur í núverandi kerfi verði sameinaðar og kallaðar umönnunargreiðslur. Lagt er til að þær skiptist í tvo flokka, tekjutengdar greiðslur sem byggjast á fyrri atvinnuþátttöku og almennar greiðslur. Til viðbótar umönnunargreiðslum komi kostnaðargreiðslur sem ætlað er að koma til móts við þann kostnað sem stafar af fötlun eða veikindum barns og er umfram það sem almennt falli til hjá börnum á sama aldursskeiði. Gert er ráð fyrir að sveigjanleiki stuðningskerfisins verði aukinn og áherslum breytt á þann hátt að dregið verði úr vægi læknisfræðilegra greininga og innlagna á sjúkrahús en stuðningur við umönnunaraðila langveikra og fatlaðra barna verði í auknum mæli miðaður við raunverulega umönnunarþörf barnanna umfram það sem á við um börn á sama aldursskeið. Mun fjárhæð almennra umönnunargreiðslna ráðast af þrepinu sem sérstök umönnunarþörf barnsins raðast í, óháð stöðu eða aðstæðum umönnunaraðila.

Hér má finna skýrslu starfshóps um umönnunargreiðslur og greiðslur til foreldra langveikra eða fatlaðra barna.

Aðrar tillögur sem lagðar eru fram í frumvörpunum tveimur er að finna í drögum þeirra í samráðsgátt. Fumvarp um sorgarleyfi. Frumvarp um umönnunargreiðslur.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra: „Það er mjög gleðilegt að frumvörpin um sorgarleyfi og umönnunargreiðslur séu nú komin í samráðsgáttina og ég hvet almenning til að koma á framfæri ábendingum og tillögum. Það er gríðarlegt áfall að missa barn og með frumvarpi um sorgarleyfi erum við að grípa betur utan um foreldra sem verða fyrir því áfalli, þannig að foreldrarnir geti tekist á við sorgina án þess að hafa áhyggjur af innkomu eða vinnuskyldu. Þá er frumvarp um umönnunargreiðslur mikið framfaraskref, en það fylgir því oft gríðarlegt álag að eiga fatlað eða langveikt barn sem krefst mikillar umönnunar. Markmiðið með frumvarpinu er að létta byrðarnar á foreldrum þessara barna þannig að þeirra kraftur geti farið í að sinna barninu.“

Frumvörpin verða í samráðsgátt stjórnvalda til og með 4. júní nk.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum