Hoppa yfir valmynd

Frétt

25. maí 2021 Heilbrigðisráðuneytið

Samið um byggingu hjúkrunarheimilis í Reykjavík fyrir allt að 144 íbúa

Svandís Svavarsdóttir og Dagur B. Eggertsson - myndMynd: Heilbrigðisráðuneyti

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri undirrituðu í dag samning um byggingu hjúkrunarheimilis við Mosaveg í Reykjavík fyrir allt að 144 íbúa. Áætlaður heildarkostnaður við framkvæmdina nemur tæpum 7,7 milljörðum króna og fjármagnar ríkið 85% kostnaðarins á móti 15% borgarinnar. Stefnt er að því að hefja undirbúning að framkvæmdum um mitt þetta ár og að heimilið verði tilbúið til notkunar seinni hluta árs 2026.

Heilbrigðisráðuneytið og Reykjavíkurborg munu vinna sameiginlega að undirbúningi og stjórnun verkefnisins og verður skipaður sameiginlegur starfshópur í því skyni. Fyrsta verkefni hópsins mun felast í vinnu við gerð kröfu- og tæknilýsingar í samráði við Framkvæmdasýslu ríkisins. Ákveðið hefur verið að ráðast í framkvæmdina á grundvelli alútboðs þar sem reynslan sýnir að sú leið getur stytt framkvæmdatíma og leitt til meiri hagkvæmni, eða allt að 10% lægri stofnkostnað en ef farin væri hefðbundin leið opinberra framkvæmda.

Viljayfirlýsing um byggingu hjúkrunarheimilis á Ártúnshöfða

Samhliða undirritun samnings um hjúkrunarheimili við Mosaveg staðfestu ráðherra og borgarstjóri sameiginlega viljayfirlýsingu um byggingu hjúkrunarheimilis fyrir allt að 200 íbúa á svæði við Ártúnshöfða í Reykjavík. Unnið er að vinnu við skipulagningu svæðisins og er stefnt að því að hægt verði að hefja verklegar framkvæmdir við nýtt hjúkrunarheimili árið 2023.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum