Hoppa yfir valmynd

Frétt

31. maí 2021 Innviðaráðuneytið

Leiðbeiningar gefnar út vegna ákvörðunar vatnsgjalds

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hóf frumkvæðisathugun á gjaldskrám vatnsveitna sveitarfélaga árið 2019 og hefur nú gefið út leiðbeiningar þar að lútandi og álitaefnum þeim tengdum.

Með bréfi til allra sveitarfélaga í lok árs 2019 fór ráðuneytið fram á að gjaldskrár vatnsveitna sveitarfélaga væru yfirfarnar þannig að þær taki mið af þeim sjónarmiðum að vatnsgjald sé þjónustugjald og að óheimilt væri að ákvarða sveitarfélagi arð af fjármagni sem bundið er í rekstri vatnsveitu. Þá óskaði ráðuneytið eftir stuttri samantekt um ákvörðun vatnsgjalds og gögnum sem byggt væri á í því sambandi.

Yfirferð ráðuneytisins leiddi í ljós að ekki væri nægilega ljóst á hvaða kostnaðarliðum sveitarfélög og vatnsveitur í þeirra eigu byggðu ákvarðanir sínar um álagningu vatnsgjalds, eins og þeim bæri að gera á grundvelli meginreglna stjórnskipunar- og stjórnsýsluréttar sem gilda um töku þjónustugjalda.

Ráðuneytið hefur óskað eftir því við öll sveitarfélög að gjaldskrár vatnsveitna verði yfirfarnar að nýju með hliðsjón af leiðbeiningum ráðuneytisins og þau upplýsi ráðuneytið um forsendur fyrir þeim útreikningum sem gjaldskrár vatnsveitna um álagningu vatnsgjalds eru byggðar á. Jafnframt verði ráðuneytið upplýst um langtímaáætlanir vatnsveitnanna.

Leiðbeiningar um ákvörðun vatnsgjalds

Ráðuneytið hefur gefið út leiðbeiningar þar sem m.a. er fjallað um hvort vatnsveitu sé heimilt að miða upphæð vatnsgjalds við arðsemiskröfu og hvað beri að gera við tekjuafgang af rekstri vatnsveitna. Þá er fjallað um þá kostnaðarliði sem hægt er að leggja til grundvallar við álagningu vatnsgjalds. Helstu niðurstöður í leiðbeiningunum eru eftirfarandi:

  • Sveitarfélögum ber að ákvarða vatnsgjald á grundvelli útreiknings á tilteknum kostnaðarliðum sem kveðið er á um í 10. gr. laga um vatnsveitur. 
  • Hugtakið fjármagnskostnaður uppfyllir ekki skýrleikakröfur stjórnskipunar- og stjórnsýsluréttar til að vera viðhlítandi stoð fyrir sveitarfélög til að ákvarða sér arð af bundnu fé í rekstri vatnsveitna. Sveitarfélögum er af þeim sökum ekki heimilt að reikna sér arð úr rekstri vatnsveitna.
  • Almenna reglan er sú að hafi verið tekin hærri gjöld en sem nemur kostnaði við að veita þjónustu í eitt gjaldaár eða ákveðið gjaldatímabil, vegna atvika sem ekki urðu séð fyrir við útreikning gjaldsins, er almennt óheimilt að nota mismuninn á annan hátt en til lækkunar á fjárhæð þess gjalds sem tekið verður árið eftir eða næsta gjaldatímabil fyrir umrædda þjónustu. Ekki er heimilt að láta tekjuafgang vatnsveitna renna í sveitarsjóð eða verja honum til annarra og óskyldra verkefna. Hins vegar kæmi til greina að varðveita tekjuafgang sem handbært fé og það verði með þeim hætti hluti af reikniverki um þjónustugjaldið, t.d. til seinni tíma stofnkostnaðar- og viðhaldsverkefna vatnsveitu í samræmi við reikniverkið.
  • Lánveitingar vatnsveitna til A-hluta sveitarfélags, vegna fjármagns sem fyrirhugað er að nýta til framkvæmda seinna meir skv. framkvæmdaáætlun vatnsveitunnar, eru heimilar. Þær eru þó takmörkunum háðar og t.a.m. þarf að liggja skýrt fyrir í reikningsskilum sveitarfélags að um lán sé að ræða sem sveitarfélagið þarf að greiða til baka á tilteknum tíma og á sambærilegum vöxtum og eru á innlánsreikningum fjármálastofnana eða á ríkistryggðum verðbréfum. Þá má lántakan ekki verða til þess hækka þurfi gjaldskrá vatnsveitna. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum