Hoppa yfir valmynd

Frétt

4. júní 2021 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Reynsla Íslands gagnleg fyrir endurheimt vistkerfa á heimsvísu

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, tók þátt í pallborðsumræðum UNESCO um áratug vistheimtar.  - mynd

Ísland hefur langa reynslu í baráttu gegn eyðingu gróðurs og jarðvegs og sú reynsla getur gagnast öðrum. Þetta kom fram í máli Guðmundar Inga Guðbrandssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra, í pallborðsumræðum á vegum UNESCO, Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, sem haldnar voru í tilefni þess að Áratug vistheimtar er hleypt af stokkunum á heimsvísu.

Áratugur vistheimtar er samstarfsverkefni fjölmargra stofnana á vegum Sameinuðu þjóðanna og annarra. Tilgangurinn er að styðja við endurheimt vistkerfa á áratugnum 2021-2030 í því skyni að efla líffræðilega fjölbreytni, sporna gegn skaðlegum loftslagsbreytingum og styrkja náttúrulegar undirstöður mannlegra samfélaga, s.s. varðandi fæðuframleiðslu og vatnsbúskap.

UNESCO er ein þeirra  stofnana sem stendur að Áratug vistheimtar og var af því tilefni efnt til pallborðsumræðna um hlutverk menntunar, vísinda og menningar í því að endurheimta heilbrigt samband milli náttúru og manna. Guðmundur Ingi var þar einn framsögumanna, ásamt menntamálaráðherra Bútan,Jai Bir Rai og Hindou Oumarou Ibrahim, baráttukonu frá Chad

Ráðherra rakti yfir 100 ára sögu baráttu gegn jarðvegseyðingu á Íslandi og hvernig tekist hefði að snúa vörn í sókn þannig að nú færi fram umtalsverð landgræðsla og skógrækt á löskuðu og eyddu landi. Íslandi hefði orðið fyrir mestu jarðvegseyðingu í Evrópu og búi nú að dýrmætri reynslu eftir langa baráttu. Sú reynsla geti nýst víða, þótt aðstæður á öðrum stöðum séu ólíkar því sem gerist á Íslandi.

Meðal þess sem læra megi af reynslu Íslendinga sé að byggja endurheimt vistkerfa á vísindalegri þekkingu og að reyna að virkja samfélagið til góðra verka í þessu sviði. „Kannski er mikilvægasti lærdómurinn sá að við sjáum hér á Íslandi að endurheimt vistkerfa er möguleg. Það eru skilaboðin sem við getum gefið út í umheiminn og þeim skilaboðum fylgir von“ sagði Guðmundur Ingi.

Áratugur vistheimtar

UNESCO Áratug vistheimtar hleypt af stokkunum


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum