Hoppa yfir valmynd

Frétt

10. júní 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mesta lækkun atvinnuleysis milli mánaða í 27 ár

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.  - mynd

Atvinnulausum fækkaði um tæplega 2,400 milli mánaða á landsvísu og hefur ekki fækkað meira frá aldamótum, en fjöldatölur Vinnumálastofnunar ná ekki lengra. Atvinnuleysi mældist 9,1% í maí og lækkaði úr 10,4% í apríl. Nemur lækkunin milli mánaða 1,3% og hefur atvinnuleysi ekki lækkað um jafn mörg prósentustig milli mánaða síðan í janúar og febrúar 1994. Þetta kemur fram í mánaðarlegri skýrslu Vinnumálastofnunar um stöðu og horfur á íslenskum vinnumarkaði. 

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, setti af stað sérstakt atvinnuátak undir yfirskriftinni „Hefjum störf“ í mars, og var markmiðið með átakinu að til yrðu allt að 7.000 tímabundin störf í samvinnu við atvinnulífið, opinberar stofnanir, sveitarfélög og félagasamtök, en þessir aðilar fá ríflegan stuðning frá hinu opinbera með hverjum nýjum starfsmanni. Átakið hefur farið mjög vel af stað og nú eru alls um 10,400 störf í boði hjá Vinnumálastofnun í tengslum við átakið og vel hefur gengið að ráða einstaklinga sem hafa verið lengi á atvinnuleysisskrá.

Vinnumálastofnun spáir áframhaldandi lækkun atvinnuleysis og að atvinnuleysi í júní verði á bilinu 7,3% - 7,7% og að fjöldi atvinnulausra verði mögulega í kringum 14.000 í lok mánaðar ef fram fer sem horfir. Ef sú þróun raungerist, mun fjöldi atvinnuleitenda hafa fækkað úr 20.000 frá því í lok apríl í 14.000 í lok júní.

Atvinnulausum fækkaði í öllum atvinnugreinum í maí, mest í ferðaþjónustutengdum greinum þar sem fækkunin er á bilinu 18% til 21%.Almennt atvinnuleysi var hæst á Suðurnesjum, 18,7% en þar hefur almennt atvinnuleysi verið yfir 20% frá því í október 2020 þar til nú í maí. Spáir Vinnumálastofnun enn frekari lækkun atvinnuleysis á svæðinu í júní.  

Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra: „Það er mikið gleðiefni að sjá atvinnuleysi minnka hraðar en spár gerðu ráð fyrir og þessar tölur sýna að þær aðgerðir sem við fórum í með Hefjum störf átakinu eru að virka. Ég er virkilega ánægður að sjá hvernig atvinnulífið hefur komið af krafti með okkur í þessar aðgerðir og nú er bara að bæta í, sækja fram af krafti og skapa enn fleiri störf á næstu mánuðum.”

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum