Hoppa yfir valmynd

Frétt

15. júní 2021 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Markmið um kolefnishlutleysi lögfest á Alþingi

Alþingi hefur samþykkt frumvarp Guðmundar Inga Guðbrandssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra sem festir í lög markmið um að Ísland nái kolefnishlutleysi eigi síðar en árið 2040.

Kolefnishlutleysi telst vera náð þegar losun kolefnis er ekki meiri en sem nemur bindingu þess. Lögin, sem Alþingi samþykkti fela í sér breytingu á lögum um loftslagsmál og eru í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar frá árinu 2017 og uppfærða aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagmálum.

Kolefnishlutleysi er lykilþáttur í Parísarsamningnum sem hefur það að markmiði að halda hnattrænni hlýnun innan við 2 °C og eins nálægt 1,5 °C og hægt er. Hnattrænt markmið um kolefnishlutleysi er grundvallaratriði í baráttunni við loftslagsbreytingar og afleiðingar þeirra og hefur Ísland verið í hópi fjölmargra ríkja sem hafa sett fram markmið um kolefnishlutleysi og nú er Ísland komið í hóp þeirra framsæknu ríkja sem hafa sett slíkt markmið í löggjöf sína.

„Stefnubreyting varð þegar ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur tók við í lok árs 2017 og Ísland komst í hóp fjölmargra ríkja sem sett hafa fram markmið um kolefnishlutleysi í stefnu sína. Með lögfestingu markmiðsins erum við nú komin í hóp framsæknari ríkja sem sett hafa slíkt markmið í löggjöf sína. Þetta er afar mikilvægt skref í loftslagsmálum á Íslandi og sýnir að okkur er alvara. Lagasetningin eykur aðhald við stjórnvöld og festir markmiðið í sessi óháð því hver eru við völd. Hafin er umfangsmikil stefnumótunarvinna þar sem leiðin að markinu verður vörðuð í samtali, samráði og samvinnu við almenning og hagaðila. Verkefnið framundan er að teikna upp og ná samstöðu um leiðir að þessu marki.“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.

Loftslagsmál – markmið um kolefnishlutleysi

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum