Hoppa yfir valmynd

Frétt

16. júní 2021 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið, Innviðaráðuneytið, Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Þórdís Kolbrún skipar starfshóp sem skoðar orkumál og tækifæri til nýrrar atvinnusköpunar á Vestfjörðum

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra - mynd

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hefur skipað starfshóp sem falið er að skoða stöðu orkumála á Vestfjörðum og tengsl þeirra við nýsköpun og atvinnutækifæri á svæðinu. Starfshópurinn skal skoða orkumál á Vestfjörðum heildstætt, jafnt út frá stöðu mála í flutningskerfi raforku, dreifikerfi raforku, möguleikum til orkuvinnslu á svæðinu og áherslum úr orkustefnu um orkuskipti og afhendingaröryggi raforku á landsvísu.

Markmið vinnunnar er að rýna samspil framangreindra þátta og finna leiðir til að efla stöðu orkumála í þessum landshluta með hliðsjón af vaxandi tækifærum til nýrrar atvinnusköpunar, jöfnun búsetuskilyrða og styðja við orkuskipti á svæðinu.

Starfshópinn skipa fulltrúar frá Vestfjarðastofu og Fjórðungssambandi Vestfirðinga, Orkubúi Vestfjarða, Landsneti, Orkustofnun og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, auk formanns.

„Orkumál á Vestfjörðum njóta ákveðinnar sérstöðu, sem viðurkennt er t.á.m. í þingsályktun um uppbyggingu meginflutningskerfis raforku og í kerfisáætlun Landsnets. Orkumálin á Vestfjörðum hafa um nokkurt skeið verið í umræðunni meðal annars út frá tækifærum til nýrrar atvinnusköpunar á svæðinu,“ segir Þórdís Kolbrún.

„Ég tel brýnt að við leitum leiða til að þoka stöðu orkumála á Vestfjörðum í rétta átt, á öllum sviðum orkumála, með samstilltu átaki í samræmi við áherslur stjórnvalda úr orkustefnu, nýsköpunarstefnu, byggðastefnu og stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Viljinn er til staðar, verkfærin eru til, nú þurfum við að stilla saman strengi til að taka frekari skref að markmiðunum.“

Meðal þess sem starfshópnum er falið að skoða eru nýsköpun í orkumálum á Vestfjörðum, orkuskipti og hvort leggja skuli áherslu á bættar tengingar frá meginflutningskerfi raforku inn á svæðið, eða aukna sjálfbærni og sjálfstæði í raforkumálum innan svæðisins, sem og samspil þessara þátta.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin
7. Sjálfbær orka

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum