Hoppa yfir valmynd

Frétt

24. júní 2021 Heilbrigðisráðuneytið

Svar við ákalli: Að hlusta á þúsund lækna

Forsvarsmenn fésbókarsamtaka lækna afhentu í gær heilbrigðisráðherra undirskriftalista um þúsund lækna sem lýsa áhyggjum af stöðu heilbrigðismála á Íslandi. Þeir telja að rödd lækna nái ekki eyrum heilbrigðisyfirvalda og lýsa erfiðum starfsskilyrðum sem þeir óttast að auki líkur á mistökum og valdi hræðslu og streitu hjá starfsfólki. Þetta eru grafalvarleg skilaboð, bæði vegna þeirrar aðstöðu starfsfólks sem þeir lýsa en ekki síður vegna þess að þetta ástand veldur stöðnun og jafnvel afturför á mikilvægum sviðum heilbrigðisþjónustunnar. Hræðsla við að gera mistök eykur hættuna á því að þau raungerist og grefur undan allri viðleitni til að skapa öryggismenningu. Forsenda þess að heilbrigðisstefnan til ársins 2030 nái fram að ganga er að kunnátta og færni starfsfólks fái notið sín í öllu breytingastarfi.

Íslenskt heilbrigðiskerfi býr að miklum mannauði með vel menntuðum fagstéttum þar sem fjöldi fólks hefur sótt sér menntun og starfsreynslu bæði innanlands og erlendis. Viðbrögð heilbrigðisþjónustunnar við heimsfaraldri hafa sýnt með afgerandi hætti að kerfið okkar er vel mannað, sveigjanlegt og býr yfir miklum þrótti og frumkvæði. Þessa þekkingu þarf að nýta, til að þróa og bæta heilbrigðisþjónustuna. Til þess þarf skýran farveg og skipulagðan vettvang. Umræðan síðustu mánuði ber þess skýr merki að slíkan vettvang skorti og úr því þarf að bæta. Það þarf að finna farveg fyrir þá þekkingu sem býr í starfsfólki heilbrigðiskerfisins, jafnt innan heilbrigðisstofnananna sjálfra, en einnig í víðara samhengi. Þetta er verkefni sem ráðuneytið mun beita sér fyrir að leysa sem allra fyrst.

Heilbrigðisráðuneytið tekur skilaboðum lækna mjög alvarlega en bendir jafnframt á að þessi staða sem læknarnir lýsa á engan veginn við um alla þætti heilbrigðiskerfisins.

Útgjöld til heilbrigðismála sem hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu hafa verið aukin úr 7,4% árið 2017 í 9,3% samkvæmt fjárlögum 2021. Á sama tíma hafa fjárframlög til Landspítala aukist um 14% á föstu verðlagi. Það er þó ljóst að áfram þarf að auka fjármuni til heilbrigðiskerfisins á næstu árum. Það er hins vegar ekki sama hvernig þeim fjármunum verður varið. Þjóðin eldist og álagið á heilbrigðiskerfið eykst samhliða. Við getum ekki haldið áfram að byggja á óbreyttu skipulagi við veitingu heilbrigðisþjónustu. Það þarf að leita nýrra leiða og lausna þannig að þeir fjármunir sem varið er til heilbrigðisþjónustunnar komi að sem bestum notum fyrir þau sem á þjónustu þurfa að halda.

Markvisst hefur verið unnið að því að efla heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað í heilbrigðiskerfinu, efla geðheilbrigðisþjónustu og bæta aðgengi að henni, fjármunir til heimahjúkrunar hafa verið auknir umtalsvert og þjónusta við aldraða í heimahúsum styrkt. Dagdvalarrýmum hefur verið fjölgað til muna og unnið er að bættri líknarþjónustu á landsvísu á grundvelli nýlegrar aðgerðaáætlunar. Fjármunir til uppbyggingar hjúkrunarrýma hafa verið stórauknir og unnið er eftir fyrirliggjandi áætlun um stórátak í þeim efnum.

Heilbrigðisþing eru nú haldin árlega, heilbrigðisstefnan er afurð slíks þings og stofnun ráðgefandi landsráðs um mönnun og menntun í heilbrigðiskerfinu sömuleiðis. Heilbrigðisþjónusta við aldraða og stefnumótun á því sviði verður þema næsta þings í ágúst. Öldrunarþjónusta er stórt og vaxandi verkefni sem kallar á fjölbreyttar lausnir.

Erlendir sérfræðingar hafa verið fengnir til að aðstoða við að greina rekstur og þjónustu Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri og hvað betur megi gera, varðandi skipulag, mönnun, þjónustu og nýtingu fjármuna. Það er mikilvægt að greiningar sem þessar séu teknar alvarlega og með opnum huga til þess að koma á breytingum þar sem þeirra er þörf. Þau sem fara með yfirstjórn heilbrigðismála í landinu verða að vera opin fyrir gagnrýni og tillögum til úrbóta og þeim er skylt að nýta slíkt efni til gagns. Þetta á ekki aðeins við um æðstu stjórnvöld, þetta á einnig við þau sem eru stjórnendur stærstu heilbrigðisstofnana landsins.

Heilbrigðisráðherra hefur síðustu ár haldið reglubundna samráðsfundi með stjórnendum heilbrigðisstofnana til að fara yfir helstu verkefni og áskoranir hverju sinni, ræða mögulega samstarfsfleti og stilla saman strengi. Þarna fer fram mikilvægt samtal stjórnenda heilbrigðisstofnana og heilbrigðisyfirvalda.

Beinu samtali heilbrigðisráðuneytisins við þann fjölda heilbrigðisstarfsfólks eða fulltrúa heilbrigðisstétta sem starfa í heilbrigðisþjónustu eru takmörk sett. Gera verður ráð fyrir því að stjórnendur heilbrigðisstofnana axli ábyrgð á því að hlusta á starfsfólk sitt og ástunda það samtal og samráð sem nauðsynlegt er á öllum vinnustöðum til að skipuleggja vinnuna, bæta verkferla og takast á við þær áskoranir sem að steðja hverju sinni.

Heilbrigðisráðuneytið mun beita sér fyrir því að skilaboð lækna verði tekin alvarlega, ekki einungis í ráðuneytinu heldur innan heilbrigðisstofnana landsins. Markmiðið þarf að vera að finna leiðir og lausnir sem eru til þess fallnar að gera heilbrigðisþjónustuna að eftirsóknarverðum starfsvettvangi þar sem veitt er góð og markviss heilbrigðisþjónusta og fjármunir nýttir á sem allra bestan hátt. Þetta gerum við með því að leggja aukna áherslu á menntun og mönnun heilbrigðisstétta, vísindi, nýsköpun og þróun, að halda áfram uppbyggingu nýs Landspítala og takast með markvissum hætti á við áskoranir nýrra tíma.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum