Hoppa yfir valmynd

Frétt

9. júlí 2021 Utanríkisráðuneytið

Áhyggjum lýst yfir ástandi mannréttinda á átakasvæðum Úkraínu

Áhyggjum lýst yfir ástandi mannréttinda á átakasvæðum Úkraínu - myndUtanríkisráðuneytið
Mannréttindaástandið á átakasvæðum í austanverðri Úkraínu var umfjöllunarefnið í sameiginlegri yfirlýsingu NB8-ríkjanna sem Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra flutti fyrir þeirra hönd í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna í dag. 

Skýrsla mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna um stöðu mannréttinda á átakasvæðum í austanverðri Úkraínu dregur upp dökka mynd af ástandinu þar. Í ræðu sem utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra fyrir hönd Norðurlanda og Eystrasaltsríkja í mannréttindaráðinu í dag var sérstaklega fjallað um frelsissviptingar án dóms og laga, en þeir sem teknir eru höndum sæta slæmri og niðurlægjandi meðferð. 

“Skortur á virðingu fyrir réttarríkinu, mannúðarlögum og mannréttindum á þeim svæðum sem ríkisstjórnin ræður ekki yfir er óásættanleg. Mannréttindabrot verður að stöðva og draga þá brotlegu til ábyrgðar.” sagði Guðlaugur Þór meðal annars í ræðu sinni. Ráðherra kallaði einnig eftir því að Rússland axlaði ábyrgð sína samkvæmt alþjóðalögum og virti að fullu Minsk-samkomulagið og alþjóðlega samþykkt landamæri Úkraínu.

Ísland tekur sem fyrr virkan þátt í starfi mannréttindaráðsins með NB-ríkjunum.  Fluttu ríkin sameiginlega nærri þrjátíu ræður í 47. lotu ráðsins sem fer fram frá 21. júní til 13. júlí í höfuðstöðvum ráðsins í Genf.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

16. Friður og réttlæti

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum