Hoppa yfir valmynd

Frétt

12. ágúst 2021 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Lykiltölur um rekstur hins opinbera á opinberumsvif.is

Hvaðan koma peningarnir í sameiginlega sjóði og hvernig er þeim varið. Á nýjum vef, opinberumsvif.is, er hægt að skoða lykiltölur um hvernig ríkið og sveitarfélög, sem saman mynda hið opinbera, eru rekin.

Á vefnum er m.a. finna upplýsingar um heildargjöld og heildartekjur hins opinbera, eignir og skuldir. Hægt er að skoða hvað hver íbúi greiðir til hins opinbera eftir málaflokkum.
Farið er yfir fjármögnun hins opinbera sem er mest í gegnum skatta, en stærstur hluti þeirra er innheimtur af vinnu og neyslu einstaklinga. Einnig er hægt að sjá hvernig einstakir tekjustofnar hins opinbera hafa þróast.

Þá eru á síðunni upplýsingar um eignir og skuldir hins opinbera. Meirihluti eignanna eru hlutir í félögum, samgöngumannvirkjum og fasteignum. Stærstur hluti skulda hins opinbera eru skuldir ríkissjóðs.

Ennfremur er hægt að kynna sér á vefnum hvert er hlutfall launakostnðar hins opinbera af heildarútgjöldum.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra:

„Mér finnst það skylda okkar allra sem störfum í stjórnkerfinu að leita leiða til að fara betur með skattfé. Það er ekki síður mikilvægt að fólk fái skýrar upplýsingar um hvert peningarnir þeirra renna. Þannig höfum við t.d. breytt álagningarseðlum, þannig að fólk getur nú séð hvernig greiðslur skiptast í skatt og útsvar, sem og hvernig þær renna til ólíkra málaflokka. Vefurinn opinberumsvif.is er nýjasti liðurinn í þessari vegferð, þar sem sjá má svart á hvítu hvernig okkur gengur að ná endum saman.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum