Hoppa yfir valmynd

Frétt

16. ágúst 2021 Heilbrigðisráðuneytið

Forval vegna hönnunar nýbyggingar við endurhæfingardeild Grensáss

Aðstæður til endurhæfingar munu gjörbreytast og endurhæfingarrýmum fjölga með nýbyggingu við endurhæfingardeild Landspítala við Grensás sem er í undirbúningi. Ríkiskaup auglýsa nú eftir umsóknum um þátttökurétt í lokuðu útboði vegna hönnunar húsnæðisins. Áætlaður heildarkostnaður við nýbygginguna sem verður allt að 3.800 fermetrar er um 2,9 milljarðar króna.

Á undanförnum tveimur áratugum hafa orðið miklar breytingar á endurhæfingarstarfsemi í ljósi framfara í meðferð alvarlegra sjúkdóma og áverka. Þannig hefur þeim fjölgað mikið sem nú lifa með fötlun af völdum sjúkdóma og slysa og þörf fyrir öfluga og góða endurhæfingu fer vaxandi.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kynnti á liðnu ári ákvörðun sína um að setja stækkun endurhæfingardeildarinnar í forgang og var ráðstafað um 200 milljónum króna af sérstöku fjárfestingarátaki stjórnvalda til undirbúnings. Húsnæðið á Grensási er nær 50 ára gamalt og stenst ekki nútímakröfur varðandi sjúkrahúsþjónustu.  Mikill undirbúningur hefur þegar farið fram við frumhönnun viðbyggingar og hefur deiliskipulag verið samþykkt. Gert er ráð fyrir að meðferðarstofur sjúklinga verði ekki færri en 32 á tveimur deildum, 13 í núverandi húsnæði legudeildar og 19 í nýbyggingu. Öll þjálfunaraðstaða og meðferðarrými verða til fyrirmyndar og mun uppbyggingin gjörbylta aðstöðu til endurhæfingar á Grensási og þar með til endurhæfingarþjónustu í íslensku heilbrigðiskerfi.

Ríkiskaup auglýsa forvalið fyrir hönd NLSH ohf. Forvalið er opið öllum umsækjendum og er auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu. Að loknu forvali mun verkkaupi velja fimm fyrirtæki úr hópi hæfra umsækjenda til þátttöku í lokuðu útboði. Tilboðum ber að skila Ríkiskaupum rafrænt í gegnum útboðskerfi stofnunarinnar fyrir kl. 10.00 þann 14. september næstkomandi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum