Hoppa yfir valmynd

Frétt

17. ágúst 2021 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Nýsköpunar- og þróunarsetur í samstarfi háskólanna á Vesturlandi verður að veruleika

Með Nýsköpunar- og þróunarsetrinu er markmiðum stjórnvalda mætt um að efla opinberan stuðning við nýsköpun á landinu í sterkum tengslum við háskólasamfélag, atvinnulíf, hagaðila og áherslu á nýsköpun á landsbyggðinni. - mynd

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Ragnheiður I. Þórarinsdóttir rektor Landbúnaðarháskóla Íslands og Margrét Jónsdóttir Njarðvík rektor Háskólans á Bifröst undirrituðu á Hvanneyri í dag viljayfirlýsingu um að hjá háskólunum tveimur á Vesturlandi byggist upp nýsköpunar- og þróunarsetur þar sem áhersla verður lögð á nýsköpun, rannsóknir, fræðslu og frumkvöðlastarf á sviði landbúnaðar, matvælaframleiðslu, sjálfbærni og loftslagsmála, sem og frumkvöðlastarf á landsbyggðinni almennt svo sem í ferðaþjónustu, nýtingu náttúrugæða og menningartengdri starfsemi. Aðrir sem undirrituðu viljayfirlýsinguna verkefninu til stuðnings eru Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands, Páll Sævar Brynjarsson framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi, Þórdís Sif Sigurðardóttir sveitarstjóri Borgarbyggðar, Valdís Fjölnisdóttir framkvæmdastjóri Breiðar þróunarfélags, Inga Dóra Halldórsdóttir framkvæmdastjóri Símenntunarmiðstöðvar Vesturlands, Ólafur Sveinsson stjórnarformaður Hugheima nýsköpunar- og frumkvöðlaseturs og Karvel L. Karvelsson framkvæmdastjóri Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins.

Markmiðið er að skapa umhverfi fyrir samvinnu, þróun og miðlun ólíkrar þekkingar á sviði rannsókna, nýsköpunar og sjálfbærni. Sérstaklega verður horft til landbúnaðar, matvælaframleiðslu, ferðamála og loftslagsmála með það að markmiði að styrkja samkeppnisstöðu íslensks samfélags, efla atvinnu- og byggðaþróun og auka lífsgæði í landinu. Í þessu felst að styðja við tækniþróun, rannsóknir, alþjóðlegt samstarf og greiningar á þessu sviði auk þess sem horft er til þess að miðla þekkingu og veita stuðningsþjónustu fyrir þróun viðskiptahugmynda og nýsköpunarverkefna.

Landbúnaður er ein af grunnstoðum íslensks atvinnulífs og mikil sóknarfæri í greininni, meðal annars vegna:

  • framþróunar í tækni og þekkingar á sviði hefðbundins landbúnaðar, jarðræktar og nýrra greina;
  • tengingar við umhverfisáhrif og loftslagsbreytingar;
  • auðlinda landsins á sviði þekkingar, hreinnar orku og annarra náttúruauðlinda; og
  • fólksfjölgunar á heimsvísu og breyttra neysluvenja.

Með Nýsköpunar- og þróunarsetrinu er markmiðum stjórnvalda mætt um að efla opinberan stuðning við nýsköpun á landinu í sterkum tengslum við háskólasamfélag, atvinnulíf, hagaðila og áherslu á nýsköpun á landsbyggðinni.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:

„Það eru mikil tækifæri til nýsköpunar og frumkvöðlastarfs á landsbyggðinni og með dýnamísku samstarfi ólíkra aðila getum við byggt upp öflugt atvinnulíf um land allt, í takt við þarfir samfélags hverju sinni. Það nýsköpunar- og þróunarsetur sem hér er stefnt að, er til vitnis um stórhug og samstarfsvilja til nýsköpunar og frumkvöðlastarfs á landsbyggðinni – okkur öllum til heilla.“

Ragnheiður I. Þórarinsdóttir rektor Landbúnaðarháskóla Íslands:

„Landbúnaðarháskóli Íslands leggur áherslu á nýsköpun, rannsóknir og fræðslu á sviði landbúnaðar, matvælaframleiðslu, loftslagsmála, umhverfis og skipulagsmála. Góðir innviðir eru þar undirstaðan að árangri ásamt sterku samstarfi við stjórnvöld, atvinnulífið, sveitarfélög, aðrar menntastofnanir og stuðningsaðila nýsköpunar. Það er einstaklega ánægjulegt að undirrita viljayfirlýsingu um stofnun Nýsköpunar- og þróunarseturs sem styður við samstarf háskólanna á Vesturlandi og hvetur skólana til að blása til frekari sóknar á þessum lykilsviðum sem skipta okkur öll svo miklu máli.“

Margrét Jónsdóttir Njarðvík rektor Háskólans á Bifröst:

„Háskólinn á Bifröst ætlar sér að vera virkur þátttakandi í því að takast á við margvíslegar áskoranir sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir á komandi árum. Nýsköpun, þróun tækifæra og auknar atvinnulífstengingar eru mikilvægir þættir í þeirri vegferð bæði í gegnum fræðslu og rannsóknarstarf. Það er von okkar að áform um uppbyggingu og rekstur nýsköpunar- og þekkingarseturs á landsbyggðinni í samstarfi við LBHÍ og fleiri aðila verði öflugur vettvangur til að byggja á þar sem samvinna þessara aðila auki bæði slagkraftinn og sóknarfærin sem við viljum styðja við fyrir eflingu atvinnulífs og búsetu víðsvegar um landið.“

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin
9. Nýsköpun og uppbygging
4. Menntun fyrir öll

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum