Hoppa yfir valmynd

Frétt

27. ágúst 2021 Innviðaráðuneytið

Ráðherra opnaði nýtt húsnæði Vegagerðarinnar

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, og Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, klippa á borða fyrir utan ný húsakynni. - mynd

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, tók í gær þátt í formlegri opnun á nýju húsnæði Vegagerðarinnar við Suðurhraun í Garðabæ. Við þetta tækifæri klipptu ráðherra og Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, á borða við inngang nýja hússins. Þá afhjúpaði Sigurður Ingi vörðu, sem staðið hafði við höfuðstöðvar Vegagerðarinnar í Borgartúni, en var flutt og endurhlaðin fyrir utan nýju húsakynnin.

Með þessu hefur starfsemi Vegagerðarinnar á höfuðborgarsvæðinu nú verið sameinuð á einn stað en Vegagerðin var áður á þremur stöðum, í Borgartúni, Vesturvör í Kópavogi og Hringhellu í Hafnarfirði.

„Hlutverk Vegagerðarinnar í samfélaginu er þýðingarmikið. Verkefni stofnunarinnar eru fjölbreytt og fjölmörg á starfsstöðvum um land allt. Með þessu nýju húsnæði er mikilvægt skref stigið að sameina alla starfsemi á höfuðborgarsvæðinu á einn stað. Ég óska starfsfólki Vegagerðarinnar innilega til hamingju með nýja húsnæðið og góðs gengis á nýjum stað,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Varða Vegagerðarinnar flutt með 

Á vef Vegagerðarinnar er fjallað um vörðuna sem flutt var úr Borgartúni í Suðurhraun. Varðan hafði staðið í Borgartúni í 20 ár og var hluti af breytingum á húsnæðinu þegar byggt var við eldra húsnæði. Rétt þótt að þetta einkennismerki flytti með Vegagerðinni á nýjan stað að Suðurhrauni 3 í Garðabæ og nú með nýju myndmerki Vegagerðarinnar.

Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, flutti ávarp við þetta tækifæri og sagði reynslu starfsmanna af hinu nýja húsnæði mjög góða og hafa farið fram úr væntingum. Þá bauð Björg Fenger, forseti bæjarstjórnar Garðabæjar, Vegagerðina velkomna í bæjarfélagið og færði forstjóra Vegagerðarinnar veglega bókargjöf, Sögu Garðabæjar, eftir Steinar J. Lúðvíksson. 

Nýja húsið skiptist í 6.000 fermetra skrifstofu- og geymsluhúsnæði og 9.000 fermetra útisvæði. Í húsinu eru um 170 starfsstöðvar, 21 fundarherbergi af ýmsum stærðum og 10 minni næðisrými. Flutningur starfseminnar hefur staðið yfir í allt sumar. 

Löng saga í Borgartúni

Stofnunin hefur allt frá upphafi haft bækistöðvar fyrir miðlægt starf í Borgartúni í Reykjavík. Þar hefur Vegagerðin verið með starfsemi í tæp 80 ár eða allt frá árinu 1942, fyrst í Borgartúni 5 og verkstæðisbyggingu en síðar einnig í Borgartúni 7  ásamt viðbyggingum þar. 

Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar og Helgi S. Gunnarsson forstjóri Regins hf. skrifuðu undir samkomulag um byggingu höfuðstöðvanna í mars 2020, að undangengnu útboði. Reginn byggði húsnæðið og á það en Vegagerðin leigir til langs tíma.

  • Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, afhjúpar vörðu sem flutt var úr Borgartúni og endurhlaðin við Suðurhraun. - mynd
  • Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, afhjúpar vörðu sem flutt var úr Borgartúni og endurhlaðin við Suðurhraun. - mynd
  • Vaktstöð Vegagerðarinnar er glæsileg og búin nýjum tækjabúnaði til að sinna fjölbreyttum verkefnum. - mynd
  • Sigurður Ingi Jóhannsson ásamt Ólafi Ólafssyni og Jóhanni Axel Vignissyni, vélamönnum á þjónustustöðinni í Garðabæ. - mynd
  • F.v.: Ólafur Kr. Hjörleifsson, skrifstofustjóri í ráðuneytinu, Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, og Sólveig Gísladóttir, sérfræðingur í samskiptadeild Vegagerðarinnar. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum