Hoppa yfir valmynd

Frétt

9. september 2021 Forsætisráðuneytið, Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs 2021

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, ásamt handhöfum verðlaunanna á Rannsóknarþingi í dag.  - mynd

Dr. Martin Ingi Sigurðsson, prófessor í svæfinga- og gjörgæslulækningum við Háskóla Íslands, og dr. Erna Sif Arnardóttir, lektor við verkfræði- og tölvunarfræðideildir Háskólans í Reykjavík og forstöðumaður Svefnseturs HR, fengu í dag hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, afhenti þeim verðlaunin á Rannsóknarþingi á Grand Hótel í dag. 

Martin Ingi hefur verið mjög virkur í rannsóknum hérlendis og erlendis undanfarin 15 ár. Hann hefur starfað með mörgum rannsóknahópum, innan Háskóla Íslands, Landspítala og Íslenskrar erfðagreiningar, auk þátttöku í rannsóknarsamstarfi með vísindamönnum frá Harvard og Duke. Hann hefur leiðbeint meistara-og doktorsnemum auk þess að sitja í fjölda doktorsnefnda.

Frá því að Erna Sif varði doktorsverkefni sitt hefur hún verið leiðandi vísindamaður á sviði svefnrannsókna hér á landi, m.a. sem nýdoktor og aðjúnkt við læknadeild Háskóla Íslands, sem forstöðunáttúrufræðingur við Svefndeild við Landspítala, sem klínískur ráðgjafi hjá fyrirtækinu Nox Medical og sem rannsóknasérfræðingur við verkfræðideild Háskólans í Reykjavík.

Þau eru hvort um sig meðhöfundar tuga vísindagreina sem safnað hafa þúsundum tilvitnana. Það var mat dómnefndar Vísinda- og tækniráðs að Erna Sif og Martin Ingi væru framúrskarandi ungir vísindamenn og brautryðjendur sem bæði hafa unnið ötullega að miðlun sinna vísinda, jafnt innan fræðasamfélagsins sem utan. Þau eru því verðugir handhafar hvatningarverðlauna Vísinda- og tækniráðs fyrir árin 2020 og 2021.

https://www.rannis.is/frettir/erna-sif-arnardottir-og-martin-ingi-sigurdsson-hljota-hvatningarverdlaun-visinda-og-taeknirads-2021

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum