Hoppa yfir valmynd

Frétt

9. september 2021 Utanríkisráðuneytið

Ný skýrsla um samskipti Íslands og Færeyja

Guðlaugur Þór Þórðarson kynnti Höllu Nolsøe Poulsen, sendimanni Færeyja á Íslandi, skýrsluna. - myndUtanríkisráðuneytið

Aukið samstarf á sviði viðskipta, heilbrigðismála og menntamála eru á meðal tillagna starfshóps utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra um hvernig efla megi tengsl Íslands og Færeyja. Ráðherra væntir þess að tillögur hópsins skapi forsendur fyrir nýjum og spennandi tækifærum í samskiptum þessara vinaþjóða. 

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis og þróunarsamvinnuráðherra skipaði í mars á þessu ári starfshóp til að kortleggja tvíhliða samskipti Íslands og Færeyja og gera tillögur um áþreifanlegar aðgerðir eða verkefni til efla enn frekar tengsl þjóðanna. Afraksturinn er kynntur í skýrslunni Samskipti Íslands og Færeyja – Tillögur til framtíðar sem út kom í dag.

„Íslendingar og Færeyingar eru nánir grannar, við eigum sameiginlegan uppruna og um margt samþætta sögu. Hagsmunir okkar sem fámennra eyþjóða fara oft saman og samvinna í hagsmunagæslu er báðum til hagsbóta,“ segir Guðlaugur Þór í aðfaraorðum sínum í skýrslunni.

Margvíslegt samstarf er á milli Íslands og Færeyja, bæði formlegt og óformlegt og líka á norrænum eða vestnorrænum vettvangi. Hins vegar er óumdeilt að fjölmörg sóknarfæri eru í að efla enn frekar tvíhliða tengsl og samstarf á milli þessara grannþjóða, ekki síst á vettvangi efnahags-, menningar- og stjórnmála. Hópurinn lagði því áherslu á þau svið þar sem lítið er um núverandi tvíhliða samstarf að ræða en einnig þar sem aðgerða er þörf til að efla samvinnu. Tillögurnar lúta m.a. að eftirfarandi þáttum:

  • Að samstarf Færeysk – íslenska verslunarráðsins verði formfest með reglulegum fundum og aðkomu viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins.
  • Að stjórnvöld stuðli að samtali á milli flutningsaðila og fyrirtækja í útflutningi á milli ríkjanna með það að markmiði að samtengja með skilvirkari hætti flutningsleiðir fyrir ferskvöru.
  • Að stjórnvöld leitist eftir því að gera rammasamning við Færeyjar um eflingu bláa hagkerfisins í löndunum báðum.
  • Að tvíhliða markaðssamstarf verði aukið til þess að kynna löndin sem ákjósanlegan áfangastað fyrir íbúum landanna tveggja.
  • Að heilbrigðisyfirvöld í löndunum geri úttekt á því á hvaða sviðum og með hvaða hætti megi auka nýtingu Færeyinga á heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa á Íslandi.
  • Að settur verði á fót vísinda- og menntasjóður til að styrkja námsmenn, rannsakendur og kennara til vistaskipta, samstarfs og sameiginlegra verkefna.
  • Að útbúið verði nútímalegt námsefni fyrir íslenska grunnskóla þar sem fjallað yrði um Færeyjar fyrr og nú með heildstæðum hætti og lögð áhersla á tengsl Íslands og Færeyja.
  • Að komið verði á fót samstarfi miðstöðva skapandi greina með það að markmiði að auka samstarf íslenskra og færeyskra listamanna.

„Markmið okkar er að hrinda þessum tillögum í framkvæmd á næstu árum og renna þannig sterkari stoðum undir samband þjóðanna og á sama tíma skapa forsendur fyrir nýjum og spennandi tækifærum,“ segir Guðlaugur Þór.

Starfshóp utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra skipuðu Júlíus Hafstein, sem jafnframt var formaður hans, Elin Svarrer Wang, Gísli Gíslason og Sif Gunnarsdóttir. Starfsmaður hópsins var Andri Júlíusson.

Skýrsluna Samskipti Íslands og Færeyja – Tillögur til framtíðar má lesa í heild sinni hér á vef Stjórnarráðsins.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum