Hoppa yfir valmynd

Frétt

17. september 2021 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Tilkynnt um úthlutanir styrkja til doktorsrannsókna á samspili landnýtingar og loftslags

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, ásamt Amir Hamedpour, Ian Klupar og Tobias Linke. Á myndina vantar Rakel Jakobínu Jónsdóttur. - mynd

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, tilkynnti á degi íslenskrar náttúru í gær, um úthlutanir úr doktorsnemasjóði umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.

Markmið sjóðsins er að styrkja rannsóknir á samspili landnýtingar og loftslags og styrkir sjóðurinn nemendur í doktorsnámi á sviði náttúruvísinda.

Landnýting, s.s. beit, friðun, skógrækt og landgræðsla, hefur áhrif á vistfræðilega ferla náttúrunnar. Þessir ferlar eru m.a. tegundasamsetning og lífmassi plantna og dýra, vatnshringrás og næringarhringrás. Þeir bæði stýra bindingu og losun kolefnis í vistkerfinu og ráða hraða bindingar og losunar með samspili sínu.

„Það er mjög brýnt að efla þekkingu á þessu sviði.“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. „Losun gróðurhúsalofttegunda frá landi er stór hluti af heildarlosun Íslands. Með aukinni þekkingu getum við sett okkur skýrari markmið og forgangsraðað betur aðgerðum okkar í þágu sjálfbærrar landnýtingar og loftslagsmála.“

Veittir voru þrír styrkir til þriggja ára og einn til eins árs, alls að upphæð um 90 m.kr. Þau sem fengu úthlutað að þessu sinni eru:

Amir Hamedpour, Landbúnaðarháskóla Íslands, með verkefnið „Mat á lífmassa og framleiðni íslenskra graslenda með háupplausnargervihnattagögnum og gervigreind“. Styrkur til þriggja ára

Ian Klupar, Háskóli Íslands, með verkefnið „Hnignun beitilanda: næst nýtt stöðugt ástand vistkerfa í hlýnandi loftslagi?“. Styrkur til þriggja ára

Rakel Jakobína Jónsdóttir, Landbúnaðarháskóli Íslands og Norwegian University of Life Sciences, með verkefnið „Verkferlar í skógarplöntuframleiðslu og nýskógrækt - áhrif á gæði skógarplantna og vaxtarþrótt á fyrstu stigum eftir gróðursetningu“. Styrkur til þriggja ára.

Tobias Linke, Háskóli Íslands, með verkefnið „Steinrenning koltvíoxíðs í mýrarjarðvegi á Íslandi“. Styrkur til eins árs.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum