Hoppa yfir valmynd

Frétt

4. október 2021 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Aðgerðir til álagsstýringar á ferðamannastöðum: Bætt stýring stuðlar að jákvæðri upplifun gesta og heimamanna

VSÓ ráðgjöf hefur skilað atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu skýrslu um álagsstýringu á ferðamannastöðum sem unnin var að beiðni ráðuneytisins. Skýrslunni var ætlað að koma með tillögur að aðgerðum í verkfærakistu til álagsstýringar fyrir ferðamannastaði.

Tilefni er til að skoða leiðir til að stýra umferð ferðamanna með markvissari hætti og draga úr álagstoppum á fjölsóttustu áfangastöðunum, sérstaklega í ljósi þess að ferðaþjónustan er mikilvægur hlekkur í endurreisn íslensks efnahagslífs eftir höggið af völdum COVID-19 faraldursins. Kannanir sýna að ferðaáhugi erlendis frá er mikill og vísbendingar eru um að ferðamönnum geti fjölgað hratt á næstu árum. Bætt stýring stuðlar að umhverfislegri sjálfbærni og jákvæðri upplifun gesta og heimamanna og styður þannig við Framtíðarsýn og leiðarljós íslenskrar ferðaþjónustu til 2030.

Í skýrslunni er aðgerðum sem nýst geta til álagsstýringar lýst og jafnframt líklegum áhrifum þeirra. Skýrslan er mikilvægt innlegg inn í frekari umræðu, uppbyggingu og stefnumótun ferðaþjónustunnar til framtíðar.

 

Aðgerðirnar eru eftirtaldar:

  • Skipulag og uppbygging ferðamannastaða: hér er átt við skipulag innra flæðis og uppbyggingu nýrra áfangastaða
  • Íslandsvegir: tillaga um leiðir sem sérstaklega yrðu valdar, merktar, hannaðar og markaðssettar með ferðamennsku í huga, byggðar á núverandi vegakerfi. Hugmyndafræðin gengur út á að dreifa álagi á helstu ferðamannastaði með því að skapa möguleika á að ferðamenn velji ekki allir sömu leið á sama tíma, og ekki endilega alla sömu áfangastaðina.
  • Hringborðið: tillaga sem felur í sér að ferðamálayfirvöld, sveitarfélög eða áfangastaðastofur hafi frumkvæði eða ákveðin svæði taki sig saman um að stofna reglulegan samráðsvettvang sem yrði jafnframt félagslegur og faglegur vettvangur ferðaþjónustunnar á viðkomandi svæði.
  • Bókunarkerfi og gjaldtaka: hér er átt við kerfi þar sem koma á ferðamannastað er bókuð fyrirfram, hvort sem greitt er fyrir heimsóknina eða ekki. Með markvissri gjaldtöku væri hægt að stýra álagi á umhverfi viðkvæmra staða um leið og sanngirnissjónarmiða væri gætt.
  • Miðlun upplýsinga: hér er átt við upplýsingamiðlun með það að markmiði að dreifa álagi, s.s. upplýsingar um fjölda gesta eða fjölbreytta áningarstaði innan svæðis. Slík miðlun nýtir m.a. snjalltækni.
  • Markaðssetning: hægt er að nýta til markaðssetningu til álagsstýringar með því að hafa áhrif á ferðahegðun og leitast við að dreifa umferð yfir árið og á aðra staði en þá fjölsóttustu. Hún gæti t.d. nýst til að vekja athygli á Íslandsvegum.
  • Leyfi: hér er átt við leyfi sem verkfæri til álagsstýringar samhliða því sem þau veita aðgang á grundvelli ákveðinnar hæfni eða á grundvelli samnings, s.s. sérleyfi.
  • Innviðauppbygging: umfjöllun um hvort hægt sé að nýta Framkvæmdasjóð ferðamannastaða og landsáætlun um uppbyggingu innviða til annarra aðgerða en innviðauppbyggingar til að álagsstýra á ferðamannastöðum.
  • Stafrænt bókunar-, upplýsinga- og gjaldtökukerfi: hér er átt við þróun hugbúnaðar þar sem á einum stað væri hægt að nálgast upplýsingar og þjónustu á tiltekinni leið eða smáforrit sem hægt væri að tengja við t.d. vefsíðuna Visit Iceland.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin
11. Sjálfbærar borgir og samfélög
9. Nýsköpun og uppbygging
13. Aðgerðir í loftslagsmálum

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum