Hoppa yfir valmynd

Frétt

9. nóvember 2021 Utanríkisráðuneytið

Guðlaugur Þór á opnunarviðburði Heimsþings kvenleiðtoga

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra ávarpar fundargesti. Honum við hlið er Willum Þór Þórsson, forseti Alþingis. Á myndinni eru einnig Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands, Hanna Birna Kristjánsdóttir, stjórnarformaður Women Political Leaders og Silvana Koch-Mehrin, forseti Women Political Leaders. - myndUtanríkisráðuneytið

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra tók í dag þátt í formlegri opnun Heimsþings kvenleiðtoga sem nú fer fram í Hörpu. Staða og hlutverk Íslands í jafnréttismálum á alþjóðavísu var efst á baugi á þessum opnunarviðburði ráðstefnunnar sem lýkur á morgun.

Í máli sínu lagði Guðlaugur Þór áherslu á mikilvægi þess að minnast þeirra sem ruddu brautina fyrir auknu kynjajafnrétti. Vísaði hann þar sérstaklega til framlags mæðra hans eigin kynslóðar sem með atvinnuþátttöku sáðu mikilvægum fræjum hugarfarsbreytinga hér á landi.

„Við eigum að vinna að jafnréttismálum ekki eingöngu vegna þess að jafnrétti er grundvöllur lýðræðis og mannréttinda heldur einnig vegna þess að við þurfum að fjárfesta í mannauði karla og kvenna sem best við getum,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson.

Auk utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, tóku Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands, og Willum Þór Þórsson, forseti Alþingis, þátt í formlegri opnun þingsins.

Heimsþingið er haldið í fjórða sinn í ár í samstarfi Alþingis, ríkisstjórnar Íslands og samtakanna Women Political Leaders (WPL), dagana 8.–10. nóvember. Um 600 kvenleiðtogar úr stjórnmálum, viðskiptum, fjölmiðlum, vísindum og víðar frá 90 löndum taka þátt, þar af um 200 í Hörpu og 400 með rafrænum hætti. Markmið Heimsþingsins er að hvetja leiðtoga um heim allan til að láta sig jafnrétti kynjanna og valdeflingu kvenna varða.

  • Willum Þór Þórsson forseti Alþingis, Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Silvana Koch-Mehrin, forseti Women Political Leaders, og Hanna Birna Kristjánsdóttir, stjórnarformaður Women Political Leaders. - mynd
  • Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra og Ulrik Vestergaard Knudsen, aðstoðarframkvæmdastjóri OECD, sem var á meðal gestgjafa heimsþingsins í ár. - mynd

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

5. Jafnrétti kynjanna

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum