Hoppa yfir valmynd

Frétt

7. desember 2021 Utanríkisráðuneytið, Forsætisráðuneytið

María Rún kjörin til setu í GREVIO

María Rún Bjarnadóttir. - mynd

María Rún Bjarnadóttir, lögfræðingur hjá Ríkislögreglustjóra og aðjúnkt við Háskólann á Akureyri, hefur fyrst Íslendinga verið kjörin til setu í GREVIO, eftirlitsnefnd Evrópuráðsins með Istanbúl-samningnum um aðgerðir gegn ofbeldi gagnvart konum og heimilisofbeldi. Nefndin er skipuð 15 sjálfstæðum og óvilhöllum sérfræðingum frá 34 aðildarríkjum samningsins. 

María Rún tekur þar sæti sérfræðings Tyrkja eftir að Tyrkland sagði sig frá Istanbúl-samningnum fyrr á þessu ári, en alls voru tíu framboð fyrir aðeins eitt sæti. Niðurstaðan er mikilvæg fyrir Ísland sem tekur við formennsku í Evrópuráðinu í nóvember 2022. 

GREVIO hefur meðal annars það hlutverk að sækja heim aðildarríki Istanbúl-samningsins, vinna greiningar og skýrslur um framkvæmd samningsins í hverju landi og koma með tillögur að úrbótum varðandi stefnu, löggjöf og aðgerðir til þess að sporna gegn ofbeldi gagnvart konum og heimilisofbeldi. Vinna nefndarinnar hefur síðustu misseri meðal annars snúið að því að ræða og leggja til aðgerðir gegn stafrænu ofbeldi sem er vaxandi vandamál í Evrópu og í heiminum öllum.

Menntun og bakgrunnur Maríu Rúnar á sviði stafræns ofbeldis og reynsla hennar við innleiðingu nýrrar löggjafar um kynferðislega friðhelgi, mun því vera mikilvægt framlag til starfs GREVIO á næstu misserum og er í samræmi við áherslur Íslands um frekari aðgerðir gegn ofbeldi gagnvart konum. 

„Ég hef sjálf séð jákvæð áhrif Istanbúl-samningsins á þróun umræðu og aðgerða gegn kynbundnu ofbeldi og heimilisofbeldi á Íslandi og víðar,“ sagði María eftir kjörið. „Það er því mikill heiður að hljóta stuðning ríkja Evrópuráðsins til að halda áfram því mikilvæga starfi sem fram fer innan GREVIO í þeim tilgangi að vinna gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi í álfunni. Er það ekki síst ánægjulegt að geta byggt á þeirri mikilvægu vinnu sem unnin hefur verið hér á landi til að koma í veg fyrir stafrænt ofbeldi og að geta deilt þeirri reynslu með öðrum aðildarríkjum samningsins.“

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

16. Friður og réttlæti
5. Jafnrétti kynjanna
17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum