Hoppa yfir valmynd

Frétt

10. febrúar 2022 Dómsmálaráðuneytið

Stafræn sakavottorð fyrir alla

Allir landsmenn geta nú sótt sér stafrænt sakavottorð á vef sýslumanna á island.is/syslumenn. Með rafrænum skilríkjum geta landsmenn sótt stafrænt sakavottorð óháð stöðu í sakaskrá. Áður var þessi þjónusta einungis í boði ef sækja þurfti einfalt eða hreint sakavottorð.  Umsóknarferlið er tengt nýju greiðslukerfi Ísland.is og er vottorðið afhent jafnharðan í lokaskrefi umsóknarinnar. Vottorðið verður jafnframt aðgengilegt í stafrænu pósthólfi einstaklinga á Mínum síðum á Ísland.is.

Stafrænt sakavottorð er með sjálfvirkri enskri þýðingu og því ekki þörf á að sækja sérstaklega um slíkt. Umsóknarferlið er hluti af þjónustukerfum sýslumanna og geta starfsmenn sýslumanna því veitt frekari þjónustu vegna umsóknarinnar ef á þarf að halda.

Dómsmálaráðuneytið og stofnanir á vegum ráðuneytisins hafa unnið mikið starf við að efla stafræna valkosti með það að markmiði að bæta og hraða þjónustu hins opinbera. Flest þau verkefni eru unnin í þéttu og góðu samstarfi við Stafrænt Ísland sem stýrir tæknilegu hliðinni á stafrænni vegferð hins opinbera. Embætti ríkislögreglustjóra, ríkissaksóknara og sýslumanna þurftu sem dæmi öll að koma að því að endurbæta fjölmörg kerfi og ferla til þess að afhenda megi öll sakavottorð með stafrænum hætti. Einstaklingum mun þó áfram standa til boða að sækja sakavottorð gegn framvísun persónuskilríkja í afgreiðslu sýslumannsembættanna.

Mikil aukning hefur verið á útgáfu sakavottorða undanfarin ár en árið 2021 voru 13.500 sakavottorð gefin út sem er 37% aukning milli ára. Undir lok ársins voru sjö af hverjum tíu vottorðum sótt stafrænt sem hefur í för með sér gríðarlegan tímasparnað fyrir almenning. Með einföldum útreikningi um vegalengdir má ætla að stafræn útgáfa sakavottorða spari umsækjendum árlega um 190 þúsund kílómetra í akstur og um 11.000 vinnustundir hjá sýslumönnum og umsækjendum.  Sparnaður samfélagsins af þessum stafrænu umbreytingum er því beinn og áþreifanlegur og hleypur á tugum ef ekki hundruðum milljóna, að ógleymdum jákvæðum umhverfisáhrifum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum