Hoppa yfir valmynd

Frétt

28. febrúar 2022 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra áréttaði stuðning við Úkraínu í ávarpi í mannréttindaráðinu

Mikilvægi þess að standa vörð um mannréttindi og alþjóðalög bar hæst í ávarpi utanríkisráðherra við upphaf 49. lotu mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna í Genf í dag.

Í ávarpi sínu lagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra áherslu á að mannréttindi væru algild, að þau eigi við um alla íbúa jarðar, hvar svo sem þeir búa. Þá fordæmdi hún harðlega innrás Rússlands í Úkraínu, áréttaði stuðning íslenskra stjórnvalda við úkraínsku þjóðina og mikilvægi þess að alþjóðalög væru virt. Jafnframt ítrekaði ráðherra að staða saklausra borgara væri gríðarlegt áhyggjuefni sem nú þegar væru að þjást og láta lífið í átökunum.

„Stríðsrekstur Rússa er ekki aðeins stríð gegn Úkraínu heldur einnig gegn grunngildum lýðræðis, réttarríkisins og mannréttinda um heim allan. Við verðum að berjast fyrir því að þessi gildi séu alls staðar virt,” sagði Þórdís Kolbrún í ávarpi sínu. 

Þá varaði utanríkisráðherra við því að heimsfaraldurinn væri notaður sem átylla til að skerða frelsi og borgaraleg réttindi einstaklinga til langframa. Hún lýsti einnig áhyggjum yfir skorti á umræðu um skerðingar mannréttinda í tengslum við faraldurinn. Þórdís Kolbrún sagði að róa yrði að því öllum árum að tryggja virðingu fyrir þeim gildum sem alþjóðakerfið hefur unnið að síðustu áratugi: frið og öryggi, réttarríkið, tjáningarfrelsi, og mannréttindi, þar á meðal kvenna og hinsegin fólks. 

Þórdís Kolbrún átti einnig fundi með framkvæmdastjóra Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna, framkvæmdastjóra Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og framkvæmdastjóra Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. 

Viðbrögð Sameinuðu þjóðanna við stöðu mála í Úkraínu var í brennidepli á öllum fundum og lagði utanríkisráðherra áherslu á að Ísland hefði strax tilkynnt um 150 milljón króna framlag til alþjóðlegs mannúðarsamstarfs vegna Úkraínu, sem skiptist jafnt á milli Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, svæðasjóð vegna Úkraínu á vegum samhæfingarskrifstofu aðgerða Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum (OCHA) og Alþjóðaráðs Rauða krossins (ICRC). Þá lagði utanríkisráðherra áherslu á Ísland væri reiðbúið að leggja enn frekar á lóðarskálarnar enda væri þörfin mikil.

Ræðu utanríkisráðherra í mannréttindaráðinu má lesa í heild sinni hér

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

16. Friður og réttlæti

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum