Hoppa yfir valmynd

Frétt

8. mars 2022 Utanríkisráðuneytið

Kvenkyns utanríkisráðherrar funduðu um stöðu kvenna í Afganistan

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra - mynd

Staða kvenna og stúlkna í Afganistan var rædd á fjarfundi kvenkyns utanríkisráðherra í gær en fundurinn var haldinn að frumkvæði Marise Payne, utanríkis- og kvennamálaráðherra Ástralíu. Á fundinum hlýddu ráðherrarnir á erindi frá afgönskum mannréttindafrömuðum sem sögðu frá reynslu sinni og þeirri stöðu sem blasir við konum og stúlkum í Afganistan frá yfirtöku Talibana í ágúst á síðasta ári. 

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra segir afar mikilvægt að raddir afganskra mannréttindafrömuða fái að heyrast. „Ég er þakklát fyrir að fá að hlusta á þær segja frá reynslu sinni. Þær hafa sýnt mikið hugrekki á erfiðum tímum og eru að takast á við áskoranir á degi hverjum sem erfitt er að ímynda sér. Það er mikilvægt að alþjóðasamfélagið leggi sitt af mörkum til að sporna við því að konum sé refsað fyrir að taka virkan þátt í samfélaginu, verja réttindi sín eða tjá skoðanir sínar,“ sagði Þórdís Kolbrún.

Alls tóku 19 utanríkisráðherrar þátt á fundinum hvaðanæva að úr heiminum, allt frá Andorra til Tonga.

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

5. Jafnrétti kynjanna
16. Friður og réttlæti
17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum