Hoppa yfir valmynd

Frétt

15. mars 2022 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra flytur ávarp á fundi kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna

Frá fundi kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna - mynd

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flutti ávarp í aðalumræðum á 66. fundi kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna í New York í kvöld að íslenskum tíma. Þema fundarins er jafnrétti og valdefling kvenna og stúlkna í tengslum við afleiðingar loftslagsbreytinga.

Í ávarpinu, sem var flutt með rafrænum hætti, fór forsætisráðherra yfir það hvernig loftslagbreytingar hafa oft og tíðum alvarlegar afleiðingar fyrir konur og stúlkur, mikilvægi þess að konur sitji við borðið þegar ákvarðanir eru teknar sem varða stærstu málefni ríkja heims og einnig mikilvægi þess að þjóðarleiðtogar hlusti á raddir ungs fólks.

Fundur kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna fer fram í New York dagana 14. til 25. mars. Íslensk stjórnvöld hafa á undanförnum árum tekið virkan þátt í fundinum auk þess sem ráðherra hefur farið fyrir sendinefnd frjálsra félagasamtaka og fulltrúa ýmissa stofnana. Í ár er fjöldi þátttakenda í sendinefndum ríkja takmarkaður vegna sóttvarna en íslensk sendinefnd frjálsra félagasamtaka og stofnana mun taka þátt með rafrænum hætti.

Auk forsætisráðherra mun Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, taka þátt í pallborði norrænna ráðherra þann 16.mars um þema fundarins. Þá mun félags- og vinnumarkaðsráðherra sem jafnframt er samstarfsráðherra Norðurlanda sækja lokaðan fund norrænna jafnréttisráðherra með framkvæmdastjóra UN Women.

Ávarp forsætisráðherra

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum