Hoppa yfir valmynd

Frétt

17. mars 2022 Innviðaráðuneytið, Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

95 milljónir í styrki til nýsköpunar og rannsókna á sviði mannvirkjagerðar

Styrkþegar í fyrstu úthlutun úr Aski - mannvirkjarannsóknasjóði ásamt Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og Sigurði Inga Jóhannssyni, innviðaráðherra. - mynd

Styrkir voru í fyrsta sinn veittir úr Aski – mannvirkjarannsóknasjóði við athöfn í dag í Veröld – húsi Vigdísar. Alls var 95 milljónum króna veitt til 23 nýsköpunar- eða rannsóknarverkefna á sviði mannvirkjagerðar. Styrkirnir eru veittir til að auka þekkingu, efla nýsköpun og mæta samfélagslegum áskorunum á sviði mannvirkjagerðar.

Mannvirkjarannsóknasjóðurinn Askur er fjármagnaður af innviðaráðuneytinu og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu en umsýsla hans er í höndum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS). Sjóðurinn var stofnaður í fyrra en umsóknarfrestur fyrir fyrstu úthlutun rann út 9. desember sl. Fjörutíu umsóknir bárust, samtals að upphæð 452 milljónir kr. Sérstakt fagráð var skipað til að meta umsóknir og gera tillögu að úthlutun til innviðaráðherra sem veitir styrkina samkvæmt reglum sjóðsins.

„Það er í allra þágu og þjóðhagslega hagkvæmt að efla rannsóknir og nýsköpun á sviði mannvirkjagerðar. Við viljum efla íslenskt hugvit á þessu sviði og fá fram hugmyndir um notkun íslenskra hráefna í byggingariðnaði, en þar má nefna sandinn okkar, hampinn og skógana. Jafn mikilvægt er að leita leiða til að draga úr kolefnisspori mannvirkja og draga úr notkun óumhverfisvænna byggingarefna,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra.

„Þau fjölbreyttu verkefni sem fá styrk úr sjóðnum eru til vitnis um mikla grósku í rannsóknum og nýsköpun á sviði mannvirkjagerðar hér á landi um þessar mundir. Framfarir á þessu sviði kalla á öflugt samstarf mismunandi aðila, ekki aðeins innan stjórnsýslunnar heldur ekki síður milli háskólasamfélags og atvinnulífs. Það er von okkar að Askur verði til að efla slíkt samstarf,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

„Fjölbreyttar umsóknir í Askinn bera vitni um mikla grósku og hugmyndaauðgi í íslenskum byggingariðnaði. Jafnframt staðfesta þær hina miklu þörf fyrir auknum stuðningi fyrir byggingarrannsóknir. Við hjá HMS hlökkum til að taka þátt í að efla nýsköpunar- og rannsóknarumhverfi mannvirkjageirans enn frekar,“ segir Hermann Jónasson, forstjóri HMS.

Loftslagsmál áberandi

Styrkir eru veittir í fimm flokkum. Áherslur sjóðsins í úthlutuninni sneru einkum að samfélagslegum áskorunum í byggingariðnaði, s.s. rakaskemmdum í mannvirkjum og aðgerðum til lækkunar kolefnisspors. 

Loftslagsmál eru áberandi í öllum flokkum úthlutunar og verkefnin eiga það nánast öll sammerkt að hafa ávinning sem snýr að umhverfismálum á einn eða annan hátt.

Byggingariðnaðurinn er talinn bera ábyrgð á um 40% af allri losun á heimsvísu og getur hann spilað stórt hlutverk einn og sér í að taka á framtíðaráskorunum tengdum loftslagsmálum. Þetta kvíslast niður í allar greinar byggingariðnaðarins eins og umsóknir verkefni sem hljóta styrk úr Aski - mannvirkjarannsóknarsjóði bera með sér.  

Styrkþegar - yfirlit

Eftirfarandi verkefni hlutu styrki í flokknum byggingarefni:

Umsækjandi Heiti verkefnis Styrkfjárhæð
Gerosion ehf. Nýir íslenskir sementsíaukar 6.000.000
Háskólinn í Reykjavík Bætt vistvæn steinsteypa með minna sementi 6.000.000
Íslensk einingarhús Icelandic Modular - Sjálfbær og hagnýt íslensk einingarhús 6.000.000
Rósa Dögg Þorsteinsdóttir Vistbók - gagnabanki vistvænna byggingarefna á Íslandi 5.000.000
Paul Lukas Smelt Fyrsta hampsteypuhús á Íslandi 4.000.000
Háskólinn í Reykjavík Hámörkun steinefna til að lækka kolefnisspor venjulegar og vistvænni steypu 2.000.000
Mannvit hf. Hringrásarhagkerfi jarðefna styrkt með endurskoðun á nýtingu jarðefnis úr uppgreftri 2.000.000
Narfi Þorsteinsson Rúststeinar 2.000.000
Samtals 33.000.000

Eftirfarandi verkefni hlutu styrki í flokknum gæði og ólík form íbúðarhúsnæðis:

Umsækjandi Heiti verkefnis Styrkfjárhæð í kr.
Úrbanistan ehf. Húsnæðiskostur og híbýlaauður 7.500.000
Anna Sigríður Jóhannsdóttir Áhrif dagsbirtu í íbúðabyggð, allt frá skipulagi til innri íverurýma 3.000.000
Samtals 10.500.000

Eftirfarandi verkefni hlutu styrki í flokknum orkunýting og losun gróðurhúsalofttegunda:

Umsækjandi Heiti verkefnis Styrkfjárhæð í kr.
Gerosion ehf. AlSiment umhverfisvænt sementslaust steinlím 6.000.000
Miðstöð hönnunar og arkitektúrs ehf. Hringrás 6.000.000
Efla hf. Orkunýting: Samanburður á hönnunarforsendum og mældri notkun 3.000.000
Háskóli Íslands Achieving a net carbon negative built environment through carbon storing infrastructure 1.500.000
Háskóli Íslands Home and away: the impact of housing in Reykjavik on activity spaces and the resulting environmental impact 1.500.000
Samtals 18.000.000

Eftirfarandi verkefni hlutu styrki í flokknum raka- og mygluskemmdir:

Umsækjandi Heiti verkefnis Styrkfjárhæð í kr.
Veðurvaktin ehf. Rakaskemmdir og slagregn á höfuðborgarsvæðinu 8.000.000
Efla hf. Rakaástand bygginga, úttektir og mat á óhollustu, myglu og efnagjöf 4.000.000
Háskólinn í Reykjavík Umhverfisrannsókn á krosslímdum timbureiningum 1.500.000
Hvín ehf. Rakaöryggi bygginga - Námsgögn og kennsla í iðnnámi 1.000.000
Samtals 14.500.000

Eftirfarandi verkefni hlutu styrki í flokknum tækninýjungar:

Umsækjandi Heiti verkefnis Styrkfjárhæð í kr.
Fibra element ehf. Tilraunahús FIBRA 8.000.000
VSÓ ráðgjöf ehf. Hringrásarhús Ísland - Icelandic Circle House 7.000.000
Breather Ventilation ehf. Smíði og prófun á loftræstikerfum 3.000.000
Efla hf. Innivist í leikskólum 1.000.000
Samtals 19.000.000

Nánar um áherslur í hverjum flokki

  • Byggingarefni: Rannsóknir og þróun á byggingarefnum, á endingu þeirra og viðnámsþoli, á efnisvali og notkun í samræmi við lög um byggingarvörur. Einnig verkefni sem stuðla að minna kolefnisspori byggingarefna og draga úr notkun óumhverfisvænna byggingarefna t.d. með hönnun og eflingu hringrásarhagkerfisins.
  • Gæði og ólík form íbúðarhúsnæðis: Rannsóknir á gæðum íbúðahúsnæðis, hagkvæmni og hvers konar form íbúðarhúsnæðis þurfi að byggja m.a. með tilliti til þróunar á félagslegum, menningarlegum, tæknilegum og sjálfbærum þáttum.
  • Orkunýting og losun gróðurhúsalofttegunda: Verkefni sem varða orkunýtingu og/eða losun gróðurhúsalofttegunda á líftíma mannvirkja.
  • Raka- og mygluskemmdir: Verkefni sem stuðla að aukinni þekkingu á raka- og mygluskemmdum í íslenskum mannvirkjum, þróun aðferða við mælingar og mat á umfangi skemmda og hvernig megi bregðast við þeim með árangursríkum hætti.
  • Tækninýjungar í mannvirkjagerð: Þróun tæknilausna sem hafa það markmið að draga úr umhverfisáhrifum mannvirkja og auka verðmætasköpun, hagræðingu, skilvirkni, samskipti og/eða samræmingu meðal hagaðila í byggingariðnaði.

Nánar um fagráðið

Ráðherraskipað fagráð sá um að meta umsóknir í samræmi við áherslur á sviði nýsköpunar og atvinnulífs, veitti umsögn um styrkumsóknir og gerði tillögur til ráðherra um úthlutun styrkja. Í fagráðinu sátu eftirtaldir:

  • Olga Árnadóttir, fulltrúi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, formaður ráðsins
  • Björn Karlsson, fulltrúi innviðaráðuneytisins (áður félagsmálaráðuneytisins)
  • Guðríður Friðriksdóttir, fulltrúi háskóla- iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins (áður atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins)
  • Ólafur Pétur Pálsson, fulltrúi samstarfsnefndar háskólastigsins
  • Hjörtur Sigurðsson, fulltrúi Samtaka iðnaðarins 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum