Hoppa yfir valmynd

Frétt

25. apríl 2022 Utanríkisráðuneytið

Ráðherra undirritar nýjan samning við Hnattræna jafnréttissjóðinn

Þórdís Kolbrún og Uzra Zeya, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna sem ber ábyrgð á málefnum mannréttinda og lýðræðis. - mynd

Árlegt framlag Íslands til Hnattræna jafnréttissjóðsins (Global Equality Fund, GEF) verður tvöfaldað með nýjum samningi sem utanríkisráðherra undirritaði á föstudag. Sjóðurinn beinir stuðningi sínum að mannréttindum hinsegin fólks um allan heim. 

Undirritunin fór fram á fundi Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra með Uzra Zeya, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna sem ber ábyrgð á málefnum mannréttinda og lýðræðis, og Jessicu Stern, sérlegs ráðgjafa Bandaríkjaforseta í málefnum hinsegin fólks.

Ísland hefur styrkt Hnattræna jafnréttissjóðinn frá árinu 2020 og hafa árleg framlög verið hundrað þúsund Bandaríkjadalir. Nýi samningurinn gerir hins vegar ráð fyrir 200 þúsund dala framlagi til ársins 2025. 

„Það var mjög ánægjulegt að undirrita endurnýjaðan samning við Hnattræna jafnréttissjóðinn,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra. „Sjóðurinn gegnir lykilhlutverki í að efla réttindi hinsegin fólks, sem víða um heim stendur enn frammi fyrir kúgun, fangelsi og jafnvel dauðarefsingum. Ég notaði tækifærið og hrósaði forsvarskonum sjóðsins fyrir skjót viðbrögð við neyðarástandinu í Úkraínu og Afganistan þar sem sjóðurinn hefur styrkt borgaraleg félagasamtök á vettvangi. Í átökum sem þessum er nauðsynlegt að styðja sérstaklega við jaðarsetta og berskjaldaða hópa.“

Ísland hefur á undanförnum árum lagt sérstaka áherslu á réttindi hinsegin fólks á vettvangi alþjóðastofnana, sérstaklega á þeim vettvangi þar sem Ísland hefur átt sæti, til dæmis í framkvæmdastjórn UNESCO og mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna. Þá styður Ísland einnig við átaksverkefnið UN Free and Equal sem starfar innan skrifstofu mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna (OHCHR) og hefur að markmiði að berjast fyrir réttindum hinsegin fólks hvarvetna í heiminum.

  • Ráðherra undirritar nýjan samning við Hnattræna jafnréttissjóðinn - mynd úr myndasafni númer 1

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

16. Friður og réttlæti
17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum