Hoppa yfir valmynd

Frétt

2. maí 2022 Utanríkisráðuneytið

Ráðherra undirritar samstarfssamning við Mannréttindaskrifstofu Íslands

Þórdís Kolbrún og Margrét Pétursdóttir, formaður stjórnar Mannréttindaskrifstofu Íslands. - mynd

Á föstudag var undirritaður samstarfssamningur milli utanríkisráðuneytisins og Mannréttindaskrifstofu Íslands. Samningurinn er sá sjötti sem ráðuneytið gerir við skrifstofuna og kveður á um samtals tólf milljón króna framlag á samningstímabilinu 2022-2024.

Ráðuneytið og Mannréttindaskrifstofa hafa átt farsælt samstarf á sviði alþjóðlegra mannréttinda. Í samningnum, sem Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra og Margrét Pétursdóttir, formaður stjórnar Mannréttindaskrifstofu Íslands, undirrituðu er meðal annars kveðið á um samráð og samvinnu ráðuneytisins og skrifstofunnar, umfjöllun hennar um þátttöku og aðkomu Íslands að alþjóðlegu mannréttindastarfi og stuðning íslenskra stjórnvalda við innlenda starfsemi sem leggur til grundvallar Parísarviðmið Sameinuðu þjóðanna um mannréttindastofnanir. 

Íslensk stjórnvöld leggja ríka áherslu á lýðræði og mannréttindi. Í því felst að lögð er áhersla á að eiga gott samstarf við frjáls félagasamtök á Íslandi sem starfa að mannréttindamálum. 

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð árið 1994 og að henni standa mörg frjáls félagasamtök og stofnanir sem láta sig mannréttindi varða á einn eða annan hátt. Markmið hennar er að vinna að framgangi mannréttinda, meðal annars með öflun upplýsinga um mannréttindamál innanlands og veita almenningi upplýsingar, stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu og vitundarvakningu um mannréttindi á Íslandi. 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

16. Friður og réttlæti
17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum