Hoppa yfir valmynd

Frétt

24. júní 2022 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Stefna um notkun skýjalausna gefin út

Notkun skýjalausna er ætlað að auka öryggi við varðveislu gagna, bæta þjónustu og stuðla að aukinni nýsköpun. Þetta kemur fram í nýrri öryggis- og þjónustustefnu um hýsingarumhverfi – stefnu um notkun skýjalausna.

Tilgangur stefnunnar er að setja fram og ná samræmdum markmiðum í notkun skýjalausna og útfærslum þeirra hjá hinu opinbera. Skýjalausnir eru nú þegar í notkun hjá mörgum opinberum aðilum og því brýnt að unnið sé að samræmingu þessara verkefna til hagræðingar og aukins öryggis. Stefnan felur í sér þrjú markmið:

  • Aukið öryggi upplýsingakerfa og gagna
  •  Betri þjónusta sem er skilvirk og hröð
  •  Meiri nýsköpun opinberra aðila

Áherslur í stafrænni þjónustu og notendamiðaðri þjónustuhönnun hafa gert auknar kröfur til opinberra aðila um hraða og skilvirka þjónustu. Skýjalausnir stytta afhendingartíma upplýsingatækniþjónustu og stuðla að hraðari, hagkvæmari og öruggari þróun og stafrænni þjónustu. Skýjaþjónusta opnar einnig fyrir nýja notkunarmöguleika, m.a. á sviði gervigreindar og dýpri gagnagreininga, sem annars væri erfitt eða ómögulegt að hagnýta.

Drög að stefnu um notkun skýjalausna voru birt í samráðsgátt stjórnvalda í tvígang ásamt því að netöryggisráð hefur haft aðkomu að gerð hennar. Tækniumhverfið er í örri þróun og því verður stefnan í stöðugri endurskoðun.

Stefnan er leiðandi fyrir aðrar opinberar stefnur sem og stefnumarkandi ákvarðanir á þessu sviði. Hún byggist á aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar um eflingu stafrænnar þjónustu, sem samþykkt var í maí 2019 líkt og Stafræn stefna hins opinbera sem var birt í júlí 2021. Stefnan er þar að auki studd af fleiri þáttum, s.s. stafrænni framþróun ríkisaðila, kjarnaþjónustum verkefnastofu um stafrænt Ísland, innkaupaferli Ríkiskaupa á rekstrar- og hýsingarumhverfi í skýinu, öryggisflokkun gagna íslenska ríkisins, uppbyggingu miðlægs þjónustukjarna sem mun veita ráðgjöf og leiðbeiningar um innleiðingu skýjalausna, og síðast en ekki síst vilja ríkisaðila til að nýta sér skýjalausnir með aukið öryggi, hagræði og nýsköpun að leiðarljósi.

Í kjölfar birtingar stefnunnar verður sett fram aðgerðaáætlun sem styður við markmið hennar og vera opinberum aðilum leiðarljós í áframhaldandi samræmdri uppbyggingu og skipulagi notkunar á skýjalausnum hjá opinberum aðilum á Íslandi.

Framkvæmd stefnunnar og aðgerða er hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu í náinni samvinnu við stofnanir ríkisins, önnur ráðuneyti, sveitarfélög, almenning, félagasamtök og fyrirtæki. Samband íslenskra sveitarfélaga er aðili að stefnunni fyrir hönd sveitarfélaga.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum