Hoppa yfir valmynd

Frétt

29. júní 2022 Matvælaráðuneytið

Landbúnaðarháskólinn vinnur tillögur um kornrækt fyrir matvælaráðherra

Landbúnaðarháskóla Íslands hefur verið falið að vinna drög að aðgerðaáætlun til eflingar kornræktar. Áætlunin er unnin að beiðni Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra í kjölfar funda með sérfræðingum á sviði kornræktar við Landbúnaðarháskólann. Mikilvægi innlendrar kornræktar hefur aukist verulega í takti við aukið vægi fæðuöryggis síðustu misseri. Einnig kemur fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur að unnin verði aðgerðaáætlun um eflingu kornræktar á kjörtímabilinu.

Efling innlends kornmarkaðar er eitt stærsta viðfangsefni verkefnisins. Einnig verður skilgreind nauðsynleg uppbygging á sviði kynbóta, bútækni og aðlögun stuðningskerfa í takt við það sem þekkist erlendis. Fýsileiki innlends kornsamlags verður kannaður og skilgreindar þarfir á lágmarksbirgðum kornvöru í landinu.

Vinnuhópurinn samanstendur af sérfræðingum á sviði landbúnaðar, kornræktar, viðskipta og verkfræði. Hópurinn mun kynna sér starfsemi, kerfi og eignarhald kornsamlaga á Norðurlöndum. Að auki verður skoðuð starfsemi innlendra samlaga í innlendum landbúnaðargreinum.

Staðsetning væntanlegs samlags auk þurrkstöðva og korngeymslna er mikilvæg og því verður lögð áhersla á að finna sem hentugasta staðsetningu. Þar spilar inn í nálægð við framleiðendur, markaði, nýtingu jarðvarma o.fl. Kannað verður hvernig og hvort sé hægt að nýta fyrirliggjandi innviði sem best í þessu samhengi, s.s. þurrkstöðvar og minni geymslur sem eru nú þegar í rekstri.

Hópurinn mun leggja til aðgerðir til að bregðast við árum þar sem uppskera á korni er rýr með það að markmiði að vernda bæði bændur og kaupendur og lágmarka fjárhagslegt tjón.

Vinna hefst við verkefnið í ágúst árið 2022 og stefnt er að henni ljúki í mars 2023. Áætlað er að stöðuyfirlit verði veitt í desember 2022 og lokaskýrslu skilað í mars 2023.

Egill Gautason, Helgi E. Þorvaldsson, Hrannar S. Hilmarsson, og Ragnheiður I. Þórarinsdóttir rektor mynda starfshópinn af hálfu Landbúnaðarháskólans.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

8. Góð atvinna og hagvöxtur
9. Nýsköpun og uppbygging
11. Sjálfbærar borgir og samfélög
12. Ábyrð neysla og framleiðsla

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum