Hoppa yfir valmynd

Matarauður Íslands

Við njótum þeirrar gæfu að búa við matarauð sem byggir á dýrmætri frumkvöðulshefð sem gengið hefur kynslóða á milli. Tilgangur Matarauðs Íslands er að nýta matarauðinn okkar sem sóknarfæri til frekari verðmætasköpunar t.d. í tengslum við matarferðaþjónustu, vöruþróun og ímyndaruppbyggingu með sjálfbærni að leiðarljósi. Ætlunin er að draga Íslendinga og erlenda gesti að hlaðborði íslenskra krása, upplýsa um hollustu og heilnæmi þeirra og tefla fram sögu Íslendinga sem birtist í matarmenningu og hefðum. Matarhefðir, rétt eins og tungumál og trúarbrögð, spegla sérkenni hverrar þjóðar og eru samofin náttúru og tíðarfari. Þessi hefð í bland við aukna þekkingu og skapandi hugsun hefur leitt af sér úrval matar á heimsmælikvarða.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarvörur eru undirstaða Íslands sem matvælalands og gegna stóru hlutverki í sjálfbærri þróun. Án matar væri ekkert líf og eigum við bændum og sjómönnum mikið að þakka að brauðfæða þjóðina. Það er því áhyggjuefni að um litla nýliðun er að ræða innan bændastéttarinnar á Íslandi. Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) telur til að mynda að landbúnaðarframleiðslan verði að aukast um 60% á heimsvísu til að fæða jarðarbúa árið 2050. Störfum í sjávarútvegi og fiskvinnslu fækkar vegna aukinnar sjálfvirkni og dregur það úr atvinnutækifærum víða um land. Sem þjóð er mikilvægt að búa að fjölbreyttu mannlífi og byggð um land allt. Til að stuðla að atvinnuþróun vilja stjórnvöld vinna þvert á greinar tengdum matarauði okkar því að samvinna og þekkingaryfirfærsla eru drifkraftar nýsköpunar og framþróunar.

Matur er öflugt markaðsafl og mikilvægt að nýta aukinn áhuga á matarferðaþjónustu með því að setja meiri slagkraft í uppbyggingu og markaðssetningu þeirra matarsérstöðu sem hver landshluti býr yfir. Á þessu ári er gert ráð fyrir að rúmlega tvær milljónir erlendra ferðamanna sæki Ísland heim og ef hver ferðamaður dvelur að meðaltali í 7 daga og borðar tvisvar á dag má reikna með að daglega bætast 77.000 máltíðir við neyslu Íslendinga.

Gæði hráefnisins leggur grunn að ímynd Íslands sem upprunaland ferskra og heilnæmra matvæla. Íslendingar búa við þau skilyrði að geta framleitt gæðavörur í sátt við sjálfbæra þróun. Við höfum aðgang að hreinu vatni, sjó og lofti og notum endurnýjanlega orku þar sem Íslendingar eru brautryðjendur á heimsvísu. Það er minna um plöntu- og dýrasjúkdóma en víðast hvar annars staðar og notkun sýklalyfja í búvöruframleiðslu er lítil. Þá er notkun hormóna bönnuð eins og annars staðar í Evrópu. Íslendingar stunda sjálfbærar veiðar og innan alþjóðlegs samkeppnismarkaðar er það mikilvægt samkeppnisforskot.

Orðræðan um íslensk matvæli þarf að hverfast meira um stolt og þekkingu. Verð og gæði þurfa að haldast í hendur og bregðast þarf við aukinni gæða- og umhverfisvitund neytenda í matvörum. Aukin krafa er um lífræna ræktun, rekjanleika og upprunavottun og meiri ásókn er í svæðisbundin matvæli sem gefa af sér minna sótspor.

Matarauður Íslands heyrir undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og er ætlað að ljúka í desember 2021. Ráðstöfunarfé verkefnisins eru 400 m. kr. til 5 ára. Í verkefnastjórn sitja Páll Rafnar Þorsteinsson formaður og Baldvin Jónsson fyrir hönd atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, Hanna Dóra Hólm Másdóttir fyrir samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytið og Ásborg Ósk Arnþórsdóttir fyrir hönd umhverfis og auðlindaráðuneytisins. Verkefnastjóri er Brynja Laxdal sem sér um að kynna verkefnið innanlands, sinna verkstýringu, utanumhaldi og eftirfylgni á fjölbreyttum verkefnum í samstarfi við hlutaðeigandi hagsmunaaðila.

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira