Hoppa yfir valmynd
20. júlí 2017 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fjármálastöðugleikaráð - fundargerð frá 20. júní 2017

Ráðsmenn: Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, formaður, Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins.

Aðrir fundarmenn: Guðrún Þorleifsdóttir, skrifstofustjóri á skrifstofu efnahagsmála og fjármálamarkaðar í fjármála- og efnahagsráðuneyti, Harpa Jónsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálastöðugleika í Seðlabankanum, Jón Þór Sturluson, aðstoðarforstjóri Fjármálaeftirlitsins og Tinna Finnbogadóttir, ritari fjármálastöðugleikaráðs.

Fundur hefst 14:01

        1. Greinargerð kerfisáhættunefndar

Formaður kerfisáhættunefndar gerði grein fyrir helstu áhættum í fjármálakerfinu um þessar mundir. Fjallað var um spennu í þjóðarbúskapnum, gjaldeyrismarkað, sterka stöðu heimila og fyrirtækja, fasteignamarkað og ferðaþjónustu. Áhætta í fjármálakerfinu er á heildina litið fremur lítil. Áhætta hefur þó aukist á nokkrum sviðum frá síðasta fundi eins og búist var við, einkum á fasteignamarkaði. Fasteignaverð heldur áfram að hækka og farið er að bera á misvægi þess við hefðbundna skýriþætti. Lausafjár- og eiginfjárstaða bankanna er sterk og eignagæði halda áfram að batna. Merki eru um að uppsveifla skulda sé hafin, en útlánavöxtur er enn frekar hóflegur. Nokkuð virðist hafa slaknað á lánaskilyrðum, meðal annars vegna aukinnar samkeppni á lánamarkaði. Bankarnir hafa aflað sér fjármagns á mörkuðum erlendis og hafa nýtt það til að endurfjármagna eldri og óhagstæðari fjármögnun fremur en að stækka lánasöfn sín í erlendum myntum. Seðlabankinn hefur dregið úr gjaldeyriskaupum, m.a. með hliðsjón af stærð gjaldeyrisforðans.

Rætt um niðurstöður starfshóps, sem fjármála- og efnahagsráðherra skipaði, um erlendar fjárfestingar lífeyrissjóðanna. Hópurinn skilaði af sér skýrslu 12. apríl sl.

        2. Kynning Fjármálaeftirlitsins á reglum um hámarksveðsetningarhlutfall fasteignalána          og greiningu á áhrifum þeirra

Aðstoðarforstjóri Fjármálaeftirlitsins kynnti drög að reglum um hámarksveðsetningarhlutfall fasteignalána, sbr. heimild í 25. – 26. gr. laga nr. 118/2016, um fasteignalán til neytenda. Farið var yfir sviðsmyndagreiningu á áhrifum verðbólgu- og fasteignaverðsáfalls á veðsetningarhlutföll, miðað við mismunandi hámörk á veðsetningarhlutföll, til glöggvunar á mögulegri áhættumildun reglnanna og mat á áhrifum þeira á lánveitingar banka og lífeyrissjóða til íbúðakaupa.

Ráðið fjallaði um reglurnar og greiningar á líklegum áhrifum þeirra og veitti fjármálaeftirlitinu álit á þeim sem birtast mun með reglunum. 

        3. Ársfjórðungsleg ákvörðun um sveiflujöfnunarauka

Framkvæmdastjóri fjármálastöðugleikasviðs Seðlabanka Íslands fór yfir þróun vísa sem eru hluti af mati vegna sveiflujöfnunarauka. Tillaga kerfisáhættunefndar um óbreyttan sveiflujöfnunarauka frá fundi ráðsins 30. september 2016 samþykkt. Sveiflujöfnunaraukinn verður því áfram 1,25% fyrir öll fjármálafyrirtæki bæði hvert fyrir sig og á samstæðugrunni, nema þau sem undanskilin eru eiginfjáraukanum skv. 4. mgr. 86. gr. d. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.

         4. Önnur mál

 a. Undirbúningur og form tilmæla og álita fjármálastöðugleikaráðs.
Frá því að lög um fjármálastöðugleikaráð voru samþykkt sumarið 2014 hafa þrenn ný lög tekið gildi þar sem kveðið er á um hlutverk fjármálastöðugleikaráðs. Fyrst voru það breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki þar sem fjármálastöðugleikaráð fékk það hlutverk að senda tilmæli til Fjármálaeftirlitsins um að setja á eiginfjárauka vegna kerfisáhættu, sveiflujöfnunarauka og eiginfjárauka vegna kerfislega mikilvægra fjármálafyrirtækja. Á þessum fundi samþykkti fjármálastöðugleikaráð í fyrsta sinn álit sem það skal gefa á reglum um hámarksveðsetningarhlutfall fasteignalána skv. lögum nr. 118/2016, um fasteignalán til neytenda, sem tóku gildi 1. apríl sl. Ráðsmenn ræddu um hvort, og þá með hvaða hætti, form og undirbúningur ráðsins væri mismunandi eftir því hvort um væri að ræða álit eða tilmæli. 
b. Fréttatilkynning samþykkt með breytingum

Fundi slitið 15:32


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira