Hoppa yfir valmynd
18. nóvember 2022 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fundargerð fjármálastöðugleikaráðs 18. október 2022

Fundur fjármálastöðugleikaráðs 18. október 2022

Fundur haldinn í fjármála- og efnahagsráðuneyti.

Fundarmenn: Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika, Haukur C. Benediktsson, framkvæmdastjóri fjármálastöðugleika í Seðlabankanum, Guðrún Sóley Gunnarsdóttir, sérfræðingur á skrifstofu bankastjóra í Seðlabankanum, Guðrún Þorleifsdóttir, skrifstofustjóri á skrifstofu fjármálamarkaðar í fjármála- og efnahagsráðuneyti, Tómas Brynjólfsson, skrifstofustjóri á skrifstofu efnahagsmála í fjármála- og efnahagsráðuneyti og Gunnlaugur Helgason, sérfræðingur á skrifstofu fjármálamarkaðar í fjármála- og efnahagsráðuneyti.

Fundur hófst kl. 13:00

1. Þróun áhættu í fjármálakerfinu og hagkerfinu
Seðlabankinn fór yfir þróun helstu áhættuþátta í fjármála- og hagkerfinu. Fyrstu merki um kólnun á íbúðamarkaði eru farin að gera vart við sig, t.d. með samdrætti í veltu og minni verðhækkunum en síðustu misseri. Síðastliðna mánuði hefur íbúðaverð lækkað víða í heiminum en hefur nokkurn veginn staðið í stað hér á landi á sama tíma. Framboð íbúða til sölu, einkum á höfuðborgarsvæðinu, hefur aukist mjög á þessu ári. Fasteignaverð er áfram hátt en ekki eru merki um að hækkun þess hafi verið drifin áfram af skuldsetningu. Stór hluti fastvaxtalána heimila er með vaxtaendurskoðunarákvæði sem virkjast í síðari hluta árs 2024 og á árinu 2025.

Rætt var um góða eiginfjárstöðu bankanna og verulega lækkun kostnaðarhlutfalla hjá þeim. Það lausa fé sem bankarnir hafa haft umfram kröfur Seðlabankans hefur hins vegar verið að dragast saman, m.a. vegna arðgreiðslna. Staðan á fjármagnsmörkuðum erlendis hefur tekið að þrengjast og endurfjármögnunaráhætta bankanna í erlendum gjaldmiðlum fer vaxandi.
Viðvörun Evrópska kerfisáhætturáðsins um aukna áhættu í fjármálakerfi Evrópu sem gæti ógnað fjármálastöðugleika frá 22. september 2022 voru gerð skil og hver þýðing hennar er fyrir fjármálastöðugleika hér á landi. Í viðvöruninni kemur fram að versnandi efnahagshorfur og þrengri fjármögnunarskilyrði séu neikvæð fyrir efnahag heimila og fyrirtækja, arðsemi bankakerfisins og þróun útlánagæða. Hér a landi eru efnahagshorfur aftur á móti almennt jákvæðari en í Evrópu og staða íslensku bankanna er sterk. Þó skuli hafa í huga að hættan á skarpri lækkun eignaverðs á fjármálamörkuðum hefur aukist og neikvæð þróun erlendis myndi hafa áhrif hérlendis.

2. Innlend greiðslumiðlun og fjármálainnviðir
Seðlabankinn gerði grein fyrir framvindu verkefna í innlendri greiðslumiðlun og endurnýjunar fjármálainnviða. Vinna við innleiðingu greiðslulausnar sem styðst eingöngu við innlenda fjármálainnviði heldur áfram og nú eru tvær leiðir helst til skoðunar. Seðlabankinn lýsti einnig nokkrum vettvöngum sem bankinn heldur utan um og snerta fjármálainnviði með ýmsum hætti. Er þar um að ræða framtíðarvettvang, greiðsluráð og reglubókaráð.
Fram kom að tilkynningum um netárásir fjölgaði stöðugt og Seðlabankinn gerði grein fyrir nokkrum öryggisleiðum sem hann hefur skoðað, t.d. ef netaðgengi raskast.

3. Opinber stefna um fjármálastöðugleika
Rætt var um vinnu við endurskoðun opinberrar stefnu um fjármálastöðugleika en ráðið samþykkti að ráðast í hana fyrir rúmum tveimur árum síðan þegar hlutverk ráðsins breyttist með sameiningu Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins. Umræða skapaðist um undirbúning að samræmdum viðbrögðum við fjármálaáfalli og möguleika á að hrinda í framkvæmd áfallaæfingar meðal innlendra aðila á fjármálamarkaði.
Endurskoðuð opinber stefna um fjármálastöðugleika var samþykkt og ákveðið að birta hana á vef ráðsins.

4. Önnur mál
a. Ráðherra reifaði stöðu ÍL-sjóðs og væntanlega skýrslu um hann.
b. Drög að fréttatilkynningu voru lögð fyrir fundinn og þau samþykkt með breytingum.

Fundi slitið kl. 14:12.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum