Hoppa yfir valmynd

Opinber stefna um fjármálastöðugleika

Í lögum nr. 66/2014 um fjármálastöðugleikaráð er fjármálastöðugleiki skilgreindur með eftirfarandi hætti:

Fjármálastöðugleiki: Það ástand þegar ekki er rof eða veruleg truflun á starfsemi fjármálakerfisins og það býr yfir nægum viðnámsþrótti til að þola áföll og ójafnvægi án þess að veruleg neikvæð áhrif verði í miðlun fjármagns, miðlun greiðslna og dreifingu áhættu.

Fjármálastöðugleikaráði ber að móta opinbera stefnu um fjármálastöðugleika sbr. a-lið. 2. mgr. 4. gr.  laga um fjármálastöðugleikaráð. Eftirfarandi stefna er sett fram af ráðinu og aðildarstofnunum í þeim tilgangi að viðhalda fjármálastöðugleika á Íslandi. Kerfisáhættunefnd, sem starfar fyrir fjármálastöðugleikaráð, skal taka mið af opinberri stefnu um fjármálastöðugleika.

Tilgangur og markmið

Í framkvæmd er nauðsynlegt að skilgreina millimarkmið sem í heild sinni stuðla að fjármálastöðugleika. Þau byggja að hluta til á alþjóðlegum viðmiðum, þ.m.t. fjórum millimarkmiðum Kerfisáhætturáðs Evrópusambandsins, og hins vegar á íslenskum aðstæðum. Þau eru:

 1. að vinna gegn óhóflegum útlánavexti, skuldsetningu og ójafnvægi á eignamörkuðum.
 2. að vinna gegn óhóflegu gjalddagamisræmi og lausafjárskorti, sér í lagi í erlendum gjaldmiðlum.
 3. að vinna gegn beinni og óbeinni áhættu af skuldbindingum vegna samþjöppunar og krosseignatengsla.
 4. að vinna gegn áhrifum neikvæðra hvata og freistnivanda einkum stofnana sem teljast kerfislega mikilvægar.
 5. að vinna gegn óæskilegum áhrifum af óhóflegu fjármagnsflæði til og frá landinu sem getur magnað hagsveifluna.
 6. að vinna gegn smitáhættu og öðrum veikleikum í fjármálainnviðum.

Vísar um fjármálastöðugleika

Fyrir greiningu á kerfisáhættu skal fjármálastöðugleikaráð styðjast við a.m.k. einn mælikvarða, eða vísa, fyrir stöðu hvers millimarkmiðs. Vísana skal meðal annars byggja á niðurstöðum alþjóðlegra og innlendra rannsókna. Fjármálastöðugleikaráð upplýsir með reglubundnum hætti til hvaða vísa það horfir einkum við greiningu á kerfisáhættu.

Kerfislega mikilvægir eftirlitsskyldir aðilar, innviðir og markaðir

Fjármálastöðugleikaráð skal staðfesta, í kjölfar umfjöllunar kerfisáhættunefndar, hvaða eftirlitsskyldu aðilar, innviðir og markaðir teljast kerfislega mikilvægir. Viðmið sem litið er til við ákvörðun um hvaða aðilar, innviðir og markaðir teljast kerfislega mikilvægir skulu gerð opinber. 

Aðgerðir fjármálastöðugleikaráðs

Bendi greiningar fjármálastöðugleikaráðs til þess að fjármálastöðugleika sé ógnað skal ráðið gefa út tilmæli um viðeigandi aðgerðir til þar til bærra stjórnvalda.

Fjármálastöðugleikaráð skilgreinir aðgerðir sem grípa skal til í þessum tilgangi. Aðgerðir sem fjármálastöðugleikaráð getur skilgreint nánar eru til dæmis:

 • Eiginfjáraukar eins og sveiflujöfnunarauki, kerfisáhættuauki og eiginfjárauki á kerfislega mikilvægar stofnanir.
 • Reglur um útlán fjármálafyrirtækja, t.d. um veðhlutföll fasteignalána eða greiðslubyrði sem hlutfall af tekjum
 • Reglur um veðbandahlutfall, auknar lausafjárkvaðir og auknar kvaðir á stöðuga fjármögnun
 • Reglur um gjaldeyrisjöfnuð. Takmarkarnir á fjármögnun og útlánum fjármálastofnanna í erlendri mynt
 • Aðgerðir til þess að sporna við óhóflegum sveiflum í flæði fjármagns til og frá landinu sem magna hagsveifluna
 • Kröfur á einstakar atvinnugreinar eða lágmark áhættuvoga fyrir tiltekna eignaflokka banka sem nota innri áhættumatsaðferðir
 • Aðgerðir er varða fjármálainnviði í þeim tilgangi að styrkja fjármálastöðugleika. 

 

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira