Hoppa yfir valmynd

Spurt og svarað

Hvað er samráðsvettvangur um aukna hagsæld á Íslandi?

Samráðsvettvangurinn er þverpólitískur og víðtækur umræðuvettvangur um leiðir til að tryggja hagsæld Íslendinga til lengri tíma litið. Á vettvanginum  sitja formenn allra stjórnmálaflokka sem eiga sæti á Alþingi, helstu hagsmunasamtök launþega og atvinnurekenda, fulltrúar háskólasamfélagsins, stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og stjórnendur fyrirtækja úr ýmsum atvinnugreinum. Formaður samráðsvettvangsins er Ragna Árnadóttir og varaformaður er Katrín Olga Jóhannesdóttir. Verkefnið heyrir undir forsætisráðuneytið en er stýrt af ofangreindum aðilum.

Hver er tilurð samráðsvettvangsins?

Tilurð samráðsvettvangsins má rekja til óformlegra viðræðna stjórnmálaleiðtoga að frumkvæði forsætisráðuneytisins um hvernig best mætti koma slíkum umræðuvettvangi á fót m.a. á grundvelli skýrslu sem alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækið McKinsey & Company gaf út síðastliðið haust um möguleika Íslands til eflingar langtímahagvaxtar undir nafninu Charting a Growth Path for Iceland. Skýrslan hefur stuðlað að uppbyggilegri umræðu og hafa margir hagsmunaaðilar tekið undir mikilvægi þess að móta heildstæða hagvaxtarstefnu fyrir Ísland til að tryggja áframhaldandi góð lífskjör í landinu. Í því samhengi var talið mikilvægt að málefnaleg umræða ætti sér stað á meðal helstu ráða- og áhrifamanna samfélagsins um viðfangsefnið. Í kjölfar viðræðna stjórnmálaleiðtoga og fjölmargra hagsmunaaðila setti skrifstofa forsætisráðuneytisins formlega upp vettvanginn.

Hver eru markmið samráðsvettvangsins?

Samráðsvettvanginum er ætlað að stuðla að heildstæðri og uppbyggilegri umræðu um leiðir til að tryggja hagsæld Íslendinga til lengri tíma litið. Í því felst að:

  • Skapa þverpólitískan umræðuvettvang fyrir framsýna og málefnadrifna umræðu um viðfangsefnið.
  • Móta heildstætt og óháð yfirlit yfir aðgerðir sem geta stuðlað að langtímahagvexti og efnahagslegum stöðugleika.
  • Fjalla um þau skilyrði og ákvarðanir sem þörf er á til að hægt sé að hrinda viðkomandi aðgerðum í framkvæmd.

Hver verður endanleg afurð vinnu samráðsvettvangsins?

Endanlegt markmið vettvangsins er að leggja fram heildstæðar og óháðar tillögur um aðgerðir til að stuðla að langtímahagvexti og efnahagslegum stöðugleika. Auk þess verður fjallað um þau skilyrði og ákvarðanir sem þörf er á til að hægt sé að hrinda viðkomandi aðgerðum í framkvæmd. Þessu til viðbótar er vonast til þess  að ferlið sjálft, þar sem stjórnmálaleiðtogar og helstu hagsmunaaðilar ræða langtímamálefni á uppbyggilegan og lausnamiðaðan máta, skili sér í aukinni samstöðu um mikilvæg langtímamarkmið fyrir íslenskt samfélag.

Verða fulltrúar samráðsvettvangsins að vera sammála um niðurstöðurnar?

Meðlimir vettvangsins eru ekki skuldbundnir til þess að samþykkja allar tillögur. Hins vegar er gert ráð fyrir að meðlimir styðji við ferlið og vinni að markmiðum þessum með uppbyggilegum hætti. Í vinnunni er auk þess mælst til þess að afstaða meðlima byggist  á hagsmunum íslensku þjóðarinnar í heild, en ekki sértækum hagsmunum.

Af hverju eru fundir samráðsvettvangsins ekki opnir almenningi eða fjölmiðlum?

Til að tryggja virkar og hreinskiptar umræður þátttakenda eru fundir samráðsvettvangsins ekki opnir almenningi eða fjölmiðlum. Engin leynd hvílir þó yfir starfi samráðsvettvangsins eða sjálfstæðrar verkefnisstjórnar. Vefur hefur verið settur á laggirnar þar sem allar kynningar og niðurstöður funda vettvangsins eru birtar.

Fá meðlimir samráðsvettvangsins eða verkefnisstjórnar greitt fyrir vinnu sína?

Meðlimir samráðsvettvangsins fá ekki greitt fyrir vinnu sína. Sá tími sem þeir verja í vinnuna er sjálfboðavinna. Starfskraftar frá ráðuneytum og stofnunum hafa lagt fram vinnu í verkefnisstjórn án þess að hafa fengið greitt aukalega fyrir umfram sín laun. Auk þess hafa einkaaðilar útvegað starfskrafta á eigin kostnað sem hafa stutt við efnislega vinnu verkefnisstjórnar. Þeir meðlimir verkefnisstjórnar sem ekki eru studdir með neinum hætti hafa fengið greiðslur til að bæta þeim tekjumissi í öðrum störfum.

Hvernig eru útgjöld vegna samráðsvettvangsins fjármögnuð?

Forsætisráðuneytið ber kostnað af starfsemi Samráðsvettvangsins.

Hvert er hlutverk forsætisráðuneytisins og ríkisstjórnarinnar í Samráðsvettvangnum?

Samráðsvettvangurinn og verkefnisstjórnin eru óháð stjórnvöldum en formenn stjórnmálaflokka ,sem geta eftir atvikum jafnframt verið ráðherrar á hverjum tíma, eigi sæti á vettvanginum auk þess sem ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytisins er fulltrúi á samráðsvettvanginum. Forsætisráðuneytið tryggir umbúnað vettvangsinsog hefur sinnt mikilvægu hlutverki við mótun ferlisins og átt frumkvæði að því að verkefninu var ýtt úr vörForsætisráðuneytið sér einnig til þess að samskipti og samvinna við opinbera aðila og stofnanir gangi með sem bestum hætti.

Hvert er hlutverk McKinsey & Company í vinnu samráðsvettvangsins?

Haustið 2012 gaf McKinsey & Company út sjálfstæða skýrslu um tækifæri til hagvaxtar, Charting a Growth Path for Iceland. Þessi skýrsla myndar mikilvægan útgangspunkt fyrir vinnu samráðsvettvangsins. Því til viðbótar veitti fyrirtækið verkefnisstjórn stuðning við skipulagningu og efnisvinnu. Niðurstöður verkefnisstjórnar byggja á efnislegu starfi vinnuhópa og eru því ekki útgáfa McKinsey & Company líkt og áðurnefnd skýrsla. Ákvörðun um þær tillögur sem lagðar eru fram er í höndum sjálfstæðrar verkefnisstjórnar.

Hver valdi fulltrúa samráðsvettvangsins, þar á meðal formann og varaformann?

Formaður og varaformaður voru valdir að að tillögu forsætisráðuneytisins og að höfðu samráði við fjölda hagsmunaaðila. Einstakir aðilar voru útnefndir af formanni og varaformanni sem nýttu sér breiðan hóp fólks til álitsgjafar.

Hver valdi fulltrúa sjálfstæðrar verkefnisstjórnar, þar á meðal formann?

Formaður sjálfstæðrar verkefnisstjórnar var valinn að höfðu samráði við fjölda hagsmunaaðila. Einstakir aðilar voru útnefndir af formanni verkefnisstjórnar sem nýtti sér breiðan hóp fólks til álitsgjafar.

Hvers vegna er hagvöxtur þungamiðjan í vinnu samráðsvettvangsins?

Samráðsvettvangurinn telur að hagvöxtur sé grundvöllur góðra lífskjara á Íslands. Þrátt fyrir að endanleg markmið geti jafnframt verið önnur, t.a.m. hátt menntunarstig, góð heilbrigðisþjónusta og öflugt velferðarkerfi og skilvirkt húsnæðiskerfi þá myndar hagvöxtur mikilvægan grunn til að tryggja þá þætti.

Hversu marga fundi mun samráðsvettvangurinn halda?

Hér á vefnum má sjá upplýsingar um þá fundi sem samráðsvettvangurinn hefur nú þegar haldið. Fyrirliggjandi er að Samráðsvettvangurinn muni hittast oftar en dagskrá funda verður birt jafnóðum á hér á vefnum.

Mun efni samráðsvettvangsins verða gert opinbert?

Já, endanlegar tillögur og allt efni frá fundum er gefið út hér á vefnum.

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira