Hoppa yfir valmynd

Grunnskýrsla kynjaðrar fjárlagagerðar

Grunnskýrsla um kynjaða fjárlagagerð var gefin út í fyrsta sinn í mars 2019 samræmi við fimm ára áætlun um kynjaða fjárlagagerð 2019-2023.

Í skýrslunni má finna greiningu á stöðu kynjanna á flestum þeim málefnasviðum sem fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar tekur til. Skýrslunni er þannig ætlað að varpa ljósi á þær áskoranir sem til staðar eru í jafnréttismálum og ávarpa má með markmiðssetningu í fjármálaáætlun og fjárlagafrumvarpi. Niðurstöður eru tengdar við áherslur í stjórnarsáttmála þar em það á við. Skýrslan verður uppfærð árlega og greiningar samhliða gerðar ítarlegri.

Sjá uppfærða stöðuskýrslu frá 2021

Grunnskýrsla kynjaðrar fjárlagagerðar

Hér fyrir neðan má síðan sjá helstu niðurstöður grunnskýrslunnar frá 2019.

 

Utanríkismál

Utanríkismál og stjórnsýsla utanríkismála (4.1)

Norðurslóðir: Fyrirliggjandi gögn sýna fram á atgervisflótta kvenna af jaðarsvæðum og háa tíðni sjálfsvíga meðal karla á sömu svæðum. Skortur er á atvinnutækifærum fyrir menntafólk og skortur á tækifærum til menntunar. Þar af leiðandi er algengt að fólk sæki sér menntun annars staðar og snúi ekki aftur á heimaslóðir þar sem atvinnutækifæri eru gjarnan einsleit og karllæg.

Framþróunar samfélaga er árangursríkust þar sem konur fá tækifæri til valdeflingar og þátttöku.

Stjórnarsáttmáli
Í stjórnarsáttamála ríkisstjórnarinnar kveður á um að sérstök áhersla verði lögð á jafnrétti kynjanna í samræmi við samþykkta norðurslóðastefnu Íslands. Það væri áhugavert í þessu samhengi að líta til sértæks jafnréttismarkmiðs þess efnis í fjármálaáætlun.

 

Utanríkisviðskipti (4.2)

Helstu atvinnuvegir tengdir viðskiptasamningum eru sjávarútvegur, landbúnaður og orkumál. Það eru allt frekar karllægar atvinnugreinar. Mikilvægt er að Íslandsstofa sinni því verkefni vel að sjónarmið beggja kynja komi fram í markaðsherferðum, á sýningum erlendis og í viðskiptaþjónustu. 

Þar sem að helstu atvinnugreinunum sem viðskiptasamningar ná til í dag er stjórnað af körlum, er þörf á sértækum aðgerðum í þeim tilgangi að ná til fyrirtækja í eigu kvenna svo að tækifæri á erlendum mörkuðum opnist fyrirtækjum í eigu þeirra.

Stjórnarsáttmáli
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á jöfn tækifæri fyrir alla. Það er því mikilvægt að tryggja jöfn tækifæri kvenna og karla þegar kemur að markaðssókn erlendis og viðskiptasamningum.

 

Þróunarsamvinna (4.4)

Frá árinu 2011 hefur Ísland notað aðferðafræði Þróunarsamvinnunefndar Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD/DAC), það er að segja svokallaða kynjajafnréttisstiku (e. Gender EqualityPolicy Marker) sem er tölfræðilegt tæki til að greina þróunarverkefni með tilliti til þess hvort framlög og verkefni hafi það að markmiði að stuðla að kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna. Kynjajafnréttisstikan hefur reynst mikilvæg varðandi umsjón með framlögum til þróunarsamvinnu og er stikan eina verkfærið sem veitir yfirsýn og greinir framlög Íslands til verkefna sem hafa kynjajafnrétti að markmiði. Ef kynjahalli er innan málaflokka er gripið til sértækra aðgerða í þágu kynjajafnréttis. 

Í nýrri þróunarsamvinnustefnu Íslands fá jafnréttismál áfram mikið vægi, bæði sem þverlægt málefni og í formi sértækra aðgerða.

 

Skattamál 

Skattar og innheimta (5.1)

Rekstur samfélagsins er einkum fjármagnaður með sköttum en einnig þjónustugjöldum. Skattkerfið gegnir mikilvægu hlutverki varðandi mótun á tekjuskiptingu samfélagsins og hefur jafnframt mikil áhrif á stöðu kynjanna.

Fyrirkomulag virðisaukaskatts hefur kynjaáhrif af því að konur og karlar eru ólíkir neytendur. Í þeim greiningum sem gerðar hafa verið hefur komið í ljós að undanþágur frá virðisaukaskatti eru oftar körlum í vil en konum. Tollar hafa kynjaáhrif og til eru dæmi um undanþágur sem karlar njóta frekar góðs af en konur.

Millifæranleiki persónuafsláttar er dæmi um greiðslur sem geta runnið til heimiliseiningar og tölur sýna að hann letur frekar konur en karla til atvinnuþátttöku og eykur þar með  kynjamisrétti. Þann 19. febrúar sl. tilkynnti ríkisstjórnin um áformaðar breytingar á skattkerfinu þar sem samnýting skattþrepa er afnumin. Sá hluti samnýtingar var áður fólginn í því að einstaklingar í samsköttun gátu samnýtt skattþrep ef að annar aðilinn var með tekjuskattstofn umfram hæstu tekjumörk og hinn aðilinn með tekjuskattstofn undir lægstu tekjumörkum. Hluti af þeirri upphæð sem ellegar myndi reiknast í hæstu skattprósentu tekjuskattkerfisins reiknaðist þess í stað í næsthæstu skattprósentunni. Þessi tegund samnýtingar var aðallega nýtt af einstaklingum á aldrinum 40-55 ára með háar tekjur. Samnýtingin kostaði ríkissjóð um 3,3 milljarða króna árið 2018, þar af fór 93% af ívilnuninni til karla og 7% til kvenna. Ívilnunin hækkaði frekar ráðstöfunartekjur karla en kvenna og dró úr hvata maka með lægri laun til að fara út á vinnumarkaðinn.  Það má því segja að með þessari breytingu hafi verið stigið skref í jafnréttisátt.

Flest bendir til þess að skattkerfið hafi bein áhrif á stöðu kynjanna og með breytingum á því séu tækifæri til að stuðla að jafnrétti.

Stjórnarsáttmáli
Í stjórnarsáttmála er fjallað um áformaðar breytingar á skattkerfinu og gefst þar tækifæri til þess að líta sérstaklega til kynjasjónarmiða.

 

Nýsköpun

Vísindi og samkeppnissjóðir í rannsóknum (7.1)

Í heildina má segja að styrkjakerfið þjóni vel markmiði sínu að byggja á gæðum umsókna og hefur kyn engin áhrif á hversu líklegt er að einstaklingur hljóti styrk. Hins vegar eru færri konur sem sækja um, enda eru færri konur sem vinna við rannsóknarstörf en karlar, og munurinn mismikill eftir sviðum. Mikilvægt er að gætt verði að kynja- og jafnréttissjónarmiðum við úthlutanir á fjármagni úr sjóðum þar sem  upplýsingar verði kyngreindar og sundurliðaðar. Í umsóknum komi fram gögn um kynjasamsetningu í stjórnum og stofnunum.

 

Nýsköpun, samkeppni og þekkingargreinar (7.2)

Kyngreind gögn yfir umsækjendur og styrkþega úr styrktarsjóðum sýna að konur sækja síður um í sjóðina en eru ekki ólíklegri til að fá úthlutað úr þeim sæki þær um.

Lögð er áhersla á að umsækjendur um styrki geri grein fyrir áætluðum áhrifum verkefnisins á kynin. Fara þarf í heildarskoðun á þessum niðurstöðum og bera umsóknir og úthlutanir saman eftir sjóðum. Leita skýring á hvers vegna konur sækja síður um og hvaða aðgerða er þörf til að jafna eftirspurn eftir fjármagni.   

Stjórnarsáttmáli
Í ljósi áherslu á nýsköpun og rannsóknir í stjórnarsáttmála væri vert að skoða hvort setja eigi sérstakt kynjamarkmið á þessu málefnasviði.

 

Byggðamál

Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands búa fleiri karlar utan höfuðborgarsvæðisins en konur. Hlutfallslega býr lægst hlutfall kvenna á barneignaraldri á landsbyggðinni (21 til 40 ára) miðað við karla, en á þessu aldursbili eru karlar 54% íbúa en konur eru 8% færri eða 46%.

 

Byggðamál (8.2)

Kynjasjónarmið eru mikilvæg í byggðamálum og staða kynjanna ólík í ýmsu tilliti. Rannsóknir hafa sýnt að konur ráða frekar búsetu fjölskyldunnar og búsetuóskir kvenna tengjast í ríkara mæli þáttum á borð við menntun barna, fjölskyldutengslum, gæðum velferðarkerfis, fjölskylduvænum vinnustöðum og framsæknum jafnréttisviðhorfum. Rannsóknir á litlum sjávarþorpum hafa einnig sýnt að eiginkonur eru mun líklegri en eiginmenn til að vera aðfluttar. Jafnframt hafa konur verið taldar líklegri til að velja sér menntun og starfsvettvang í samræmi við búsetu fjölskyldunnar og þarfir samfélagsins fremur en eigin áhugasviðs. Síðast en ekki síst þá sýna rannsóknir að brottflutningur kvenna er eitt sterkasta einkenni dreifbýlla samfélaga í vanda og utan höfuðborgarsvæðisins eru konur víðast hvar færri en karlar.   

Áhugavert er að skoða kyngreindar upplýsingar um störf á vegum ríkisins. Samkvæmt upplýsingum frá 31.12.2016 eru konur 63% starfsfólks og hlutfallið er hærra á landsbyggðinni. Það að fjölga eða fækka opinberum störfum á landsbyggðinni getur því haft talsverð áhrif á byggðaþróun. 

Stjórnarsáttmáli
Í samræmi við það sem fram kemur í stjórnarsáttamála um jöfn atvinnutækifæri landsmanna og það sem fram kemur í byggðaáætlun um að 10% allra auglýstra starfa í ráðuneytum og stofnunum verði auglýst án staðsetningar árið 2024 væri áhugavert að setja kynjamarkmið þessu tengt í fjármálaáætlun.

 

Öryggi

Löggæsla (9.1)

Ef rýnt er í gögn um kynjaskiptingu meðal lögreglunnar kemur skýrt fram að þegar ofar dregur í starfsstigum á meðal lögreglunnar lækkar hlutfall kvenna. Hlutfall kvenna er hæst meðal almennra lögreglumanna og lægst er það meðal yfirlögregluþjóna en engin kona gegnir stöðu yfirlögregluþjóns miðað við stöðu mála 1. feb. 2017. Enn á eftir að vinna úr gögnum fyrir 2018 en fyrstu niðurstöður benda til þess að breytingin sé ekki mikil frá árinu áður. Þess má þó geta að tiltölulega jafnt kynjahlutfall hefur verið í starfsnámi Mennta- og starfsþróunarsetri lögreglu (MSL) undanfarin tvö ár, en starfsnámið er forsenda þess að vera skipaður lögreglumaður.

 

Þjónusta lögreglunnar hefur áhrif á karla og konur, stúlkur og drengi og er mikilvægt að starfsemin taki mið af því og endurspegli samsetningu samfélagsins. Það skiptir jafnframt máli að hafa það í huga að blandaðir vinnustaðir gera það að verkum að konur og karlar geta þroskað hæfileika sína án þess að vera talin fulltrúar ákveðins kyns.

Ljóst er að jafnrétti í lögreglunni er ábótavant. Konur hafa verið á bilinu 17-33% brautskráðra nemenda frá árinu 1999 en þrátt fyrir það eru konur aðeins 12,6% lögreglumanna. Hluta af brotthvarfinu má rekja til neikvæðrar vinnumenningar innan lögreglunnar sem er körlum hliðhollari en konum. Þrátt fyrir að konur sækist eftir aukinni ábyrgð til jafns við karla er nær engin kona í efstu starfsstigum lögreglunnar. Þess ber þó að geta að samræming fjölskyldu- og atvinnulífs virðist ekki há konum eins mikið og körlum. Einelti og kynferðisleg áreitni er til staðar og lögreglumenn sem hafa upplifað einelti og kynferðislega áreitni benda á að yfirmenn og samstarfsmenn séu gerendur.

Lögreglan hefur brugðist við þeim niðurstöðum sem í birtust í skýrslunni með margvíslegum aðgerðum.

Málaflokkurinn löggæsla er talinn hafa mikil kynja- og jafnréttisáhrif ekki síst vegna þess að starfsmannahópurinn innan ákveðinna starfa er mjög kynskiptur bæði meðal annarra starfsmanna og lögreglumanna en þó einkum meðal lögreglumanna. Mikilvægt er að jafna kynjahlutföllin innan allra hópa og safna enn ítarlegri gögnum með skipulegum hætti til að unnt sé að leggja mat á stöðuna í málaflokknum.  Einnig er mikilvægt að jafnréttisfulltrúar embætta og jafnréttisfulltrúar í jafnréttisnefnd hafi svigrúm og tíma til að sinna hlutverki sínu.

Ný framkvæmda- og jafnréttisáætlun lögreglunnar fyrir árin 2019-2022 var undirrituð þann 18. desember 2018. Samkvæmt 4. gr. áætlunarinnar bera lögreglustjórar og héraðssaksóknari ábyrgð á framgangi jafnréttismála innan síns embættis. Það er aðkallandi að jafna kynjahlutföllin meðal lögreglumanna innan allra starfsstiga og ekki síst í efri starfsstigum þar sem kynjahlutföllin eru enn ójafnari. 

Stjórnarsáttmáli
Í stjórnarsáttmála er kveðið á um framfylgd nýrrar aðgerðaáætlunar um úrbætur í meðferð kynferðisbrota. Mikilvægt er að taka tillit til þess að brotaþolar í viðkvæmri stöðu kjósa stundum fremur að ræða við lögregluþjóna af ákveðnu kyni. Það er því mikilvægt að tryggja það að lögreglan geti mætt þessum viðkvæma hópi með blönduðum hópi starfsfólks.

 

Samgöngur 

Samgöngur (11.1)

Yfirfarin gögn og niðurstöður rannsókna benda til þess að kynjamunur sé á ferðavenjum karla og kvenna en gerð er grein fyrir þeim niðurstöðum í áfangaskýrslu um Samgöngur og jafnrétti.  Þannig er mælanlegur munur á vali á ferðamáta, tilgangi og tíðni ferða, svo og þeirri vegalengd sem farin er. Þessi munur er talinn stafa um margt af ólíku félagslegu og efnahagslegu hlutverki kynjanna, til að mynda varðandi ábyrgð á heimilisstörfum og barnauppeldi, búsetu, stéttarstöðu og launamun.

Þau kynjasjónarmið sem taka þarf mið af við samgöngumál eru margvísleg. Konur bera enn meiri ábyrgð á ólaunuðum heimilisstörfum og barnauppeldi og er kynjamunurinn meiri í dreifbýli en þéttari byggðum. Þetta hefur áhrif á atvinnusókn, stéttarstöðu og ýtir undir launamun kynjanna þó að fleiri þættir hafi þar líka áhrif. Þessi ólíka staða endurspeglast sömuleiðis í ferðavenjum kvenna og karla. Hefðbundnar samgönguáætlanir, skipulag og umferðarlíkön taka almennt ekki tillit til mismunandi ferðamynsturs karla og kvenna.

Stjórnarsáttmáli
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að við forgangsröðun í vegamálum verði sérstaklega litið til ólíkrar stöðu svæða, ferðaþjónustu og öryggissjónarmiða. Þar segir enn fremur að auka þurfi möguleika gangandi og hjólandi vegfarenda í þéttbýli.

Við forgagnsröðun í samgöngumálum er mikilvægt að taka tillit til þarfa allra notenda og væri vert að hafa kynjasjónarmið til hliðsjónar þegar forgagnsröðun er ákveðin m.a. í fjármálaáætlun.

 

Fjarskipti, netöryggi og póstþjónusta (11.2)

Leiða má líkur að því að betri fjarskiptatækni gæti aukið möguleika á fjölbreyttari störfum óháð staðsetningu og aukið möguleika fólks á sveigjanleika í vinnu. Konur eru líklegri til þess að flytjast úr dreifbýli, m.a. vegna skorts á atvinnutækifærum. Þá má gera ráð fyrir að með bættri fjarskiptatækni aukist tækifæri til fjölbreyttari atvinnutækifæra óháð staðsetningu. Með landsátakinu Ísland ljóstengt og stefnu stjórnvalda um að leggja áherslu á sem mest jafnræði landsmanna hvað varðar aðgang að fjarskiptainnviðum má álykta að málaflokkurinn styðji að einhverju leyti við markmið um jafnrétti þó að fleiri þættir þurfi að liggja þar til grundvallar.

Stjórnarsáttmáli
Stjórnarsáttmálinn leggur áherslu á innviðauppbygginu í fjarskiptamálum og að fjölga þar með tækifærum landsmanna til að skapa atvinnu.

 

Atvinnuvegir

Stjórnun landbúnaðar og Rannsóknir, þróun og nýsköpun í landbúnaði (12.1 og 12.2)

Stuðningsgreiðslur til bænda renna frekar til karla en kvenna. Árið 2012 var ákvæðum búvörulaga breytt á þann veg að nú er hægt að skrá tvo aðila fyrir búi (áður var það einungis einn og í langflestum tilvikum karl) og þar með talið einnig tvo handhafa slíkra greiðslna. Enn fara beingreiðslur frekar til karla en munurinn hefur þó minnkað í kjölfar fyrrnefndrar breytingar.  Með því að gefa kost á því að skrá tvo aðila er líklegra að sambúðaraðilar verði báðir skráðir fyrir búi í framtíðinni við nýskráningu.

Stjórnarsáttmáli
Í ljósi áherslu stjórnarsáttmála á jöfn tækifæri væri vert að skoða að setja jafnréttismarkmið sem snýr að því að auka hlut kvenna í landbúnaði sérstaklega hvað varðar rannsóknir, þróun og nýsköpun.

 

Sjávarútvegur og fiskeldi (13)

Sjávarútvegur hefur alla tíð verið karllæg atvinnugrein þar sem hlutur kvenna hefur einkum verið við vinnslu sjávarafurða í frystihúsum.

Stjórnarsáttmáli
Í ljós áherslu ríkisstjórnarinnar á jöfn tækifæri fyrir alla væri áhugavert að líta til að jafna stöðu kynjanna, til að mynda þegar kemur að konum í stjórnunarstöðum, eigendum fyrirtækja, kynskiptum störfum, rannsóknum, þróun og nýsköpun í sjávarútvegi með sérstöku markmiði í fjármálaáætlun. Varpa mætti ljósi á það hvort að kynbundinn launa- og aðstöðumunur sé til staðar á milli karla og kvenna eftir því hvort þau verka fisk á sjó eða á landi og sömuleiðis eftir því hvaða frystihúsastörf þau vinna. Kynjavíddina mætti brjóta niður á konur og karla af erlendum uppruna.

 

Ferðaþjónusta (14)

Mikilvægt er að huga að kynja- og jafnréttissjónarmiðum þegar ákvarðanir eru teknar í málefnum ferðaþjónustunnar. Kynjasjónarmið innan greinarinnar hafa lítið verið rannsökuð hér á landi en mikið er til af greinum og upplýsingum erlendis frá sem geta bæði nýst sem viðmið og eða til upplýsinga.

Að mörgu er að hyggja eins og t.d. hverjir fara með ákvarðanatöku og völd innan greinarinnar, hverjir vinna við hvaða störf og hvernig þau eru metin. Það skiptir máli að greina hvert fjármagnið leitar og hverjir bera mest úr býtum í þessari atvinnugrein.

Stjórnarsáttmáli
Í ljósi áherslu ríkisstjórnarinnar á jöfn tækifæri fyrir alla væri áhugavert að líta til að jafna stöðu kynjanna, til að mynda þegar kemur að konum í stjórnunarstöðum, eigendum fyrirtækja, kynskiptum störfum, og nýsköpun í ferðaþjónustu með sérstöku markmiði í fjármálaáætlun. Kynjavíddina mætti brjóta niður á konur og karla af erlendum uppruna.

 

Stjórnun og þróun orkumála (15.1) 

Í orkumálum eru ýmsar áskoranir og tækifæri til úrbóta þegar kemur að kynja- og jafnréttissjónarmiðum. Mikið hefur þó áunnist á undanförnum árum í þeim efnum og má þar til dæmis nefna að jöfn kynjahlutföll eru í stjórnum stærstu orkufyrirtækja landsins og á stjórnendastigi. Á hinn bóginn má nefna að úthlutanir úr Orkusjóði fara að mestu leyti til verkefna sem eru frá karlmönnum, í sama hlutfalli og umsóknir. Samhliða áformum um eflingu Orkusjóðs er rétt að taka starfsemi sjóðsins til skoðunar í þessu ljósi.

Stjórnarsáttmáli
Í ljósi áherslu ríkisstjórnarinnar á jöfn tækifæri fyrir alla væri áhugavert að líta til að jafna stöðu kynjanna, til að mynda þegar kemur að kynskiptum störfum, rannsóknum, þróun og nýsköpun í orkumálum með sérstöku markmiði í fjármálaáætlun.

 

Umhverfi

Náttúruvernd, skógrækt og landgræðsla (17.1)

Þau kyngreindu tölfræðigögn sem fyrir liggja og varða málaflokkinn gefa til kynna að kynjahalli sé fyrir hendi. Fé til framkvæmda við innviðauppbyggingu í málaflokknum rennur á framkvæmdatíma aðallega til karla og eru skýringar á því m.a. kynskiptur vinnumarkaður.

Hluti af fjármagni til skógræktar og landgræðslu fer til verktaka þar sem liggja fyrir kyngreind vinnumarkaðsgögn. Í greiningu sem birtist í lokaskýrslu verkefnisins: Loftslagsmál og kynjaáhrif þeirra er tiltekið að kynjahalli sé til staðar á rétthöfum skógræktarsamninga um ræktun nytjaskóga. Samningarnir sjálfir stuðla ekki að kynjahalla en það gerir hins vegar fjárhagslegt utanumhald og endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna samninganna. Sú endurgreiðsla er að einhverju leyti vegna laga og reglna um virðisaukaskatt. Þarna er um að ræða kerfislæga hindrun í skattkerfinu sem er á forræði fjármála- og efnahagsráðuneytisins og gera þarf breytingar á.

Málaflokkurinn stuðlar fyrst og fremst að skilgreindum markmiðum sem eru í öllum tilfellum náttúru- eða vistkerfavernd. Það form sem er á kerfislægri veitingu fjármagns stuðlar að því að konur fá síður greidda styrki og þar af leiðandi öðlast þær ekki greiðslutengd réttindi.

Stjórnarsáttmáli
Stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar kveður á um að útrýma eigi kynbundnum launaum með markvissum skrefum og að tryggt verði að sambærileg störf séu metin með sambærilegum hætti. Í tilfelli skógræktarsamninga er einungis mögulegt fyrir einn aðila að fá endurgreiðslu virðisaukaskatts og hallar á konur í því samhengi þar sem karlinn er oftar skráður fyrir rekstri og fær því frekar endurgreiðslur þegar um hjón er að ræða. Vert væri að skoða sérstakt markmið eða aðgerð sem tekur á þessu.

 

Menning

Safnamál og Menningarstofnanir (18.1 og 18.2)

Kannanir á menningarneyslu benda til þess að konur séu verulegur meirihluti safngesta, bæði menningarminja- og listasafna. Konur eru sömuleiðis meirihluti starfsfólks á menningarstofnunum, bæði stjórnsýslustofnunum og miðlunarstofnunum. Við framboð á menningar- og listviðburðum þarf að skoða hvort efni sem er í boði höfði til beggja kynja og vekja fólk til vitundar um mikilvægi kynjasjónarmiða í safnastarfi.

Stjórnarsáttmáli
Í stjórnarsáttmála er lögð áhersla á mikilvægi þess að allir landsmenn geti notið lista og menningar og tekið þátt í menningarstarfi. Hlutverk stjórnvalda er að skapa skilyrði fyrir fjölbreytni, sköpun og frumkvæði á sviði lista og menningararfs. Kanna þarf nánar hvað veldur því að karlar sæki síður söfn og starfi síður á menningarstofnunum.

 

Menningarsjóðir (18.3)

Í greiningum undanfarinna ára hefur hallað frekar á konur en karla í úthlutunum en það hefur þó verið að breytast. Kynjahlutfall úthlutaðra listamannalauna var t.d. jafnt árið 2017 miðað við fjölda úthlutana en sundurliðaðar upplýsingar um úthlutaðar fjárhæðir vantar.

Árangurshlutfall af umsóknum kvenna og karla í kvikmyndasjóð hefur verið hið sama á síðustu árum. Hins vegar eru yfirleitt færri konur sem sækja um, þurfa þær því hvatningar við og skoða verður sérstaklega hvernig fjármagn skiptist á milli kynja. Almennt þarf að greina kynjahlutfall úthlutana, skilgreina árangursvísa og vekja úthlutunaraðila til vitundar um mikilvægi kynja- og jafnréttissjónarmiða við úthlutun styrkja úr samkeppnissjóðum.

Stjórnarsáttmáli 

Hlutverk stjórnvalda er að skapa skilyrði fyrir fjölbreytni, sköpun og frumkvæði á sviði lista og menningararfs. Kanna þarf nánar hvað veldur því að konur sæki síður um í menningarsjóði en karlar þrátt fyrir að þær sæki frekar söfn og menningarstofnanir og starfi þar frekar en karlar. Einnig er þörf á að skoða sérstaklega hvernig fjármagn skiptist á milli kynja. Vert væri að skoða markmiðssetningu þessu tengt í fjármálaáætlun.

 

Íþrótta og æskulýðsmál (18.4)

Aðgerðum stjórnvalda á sviði íþrótta- og æskulýðsmála er ætlað að miða að því að gera umhverfi til iðkunar og þátttöku í almennu íþrótta- og æskulýðsstarfi og afreksíþróttastarfi jafn aðgengilegt fyrir alla. Umgjörð afreksíþrótta má hvorki mismuna konum né körlum, stúlkum né drengjum. Taka þarf mið af tillögum starfshóps sem ráðherra skipaði vegna #ég-líka yfirlýsingar íþróttakvenna og stuðla að öryggi allra iðkenda í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi. Vísbendingar eru um að huga þurfi sérstaklega að þátttöku barna af erlendum uppruna og er þá mikilvægt að huga að kynjasjónarmiðum.

Stjórnarsáttmáli
Íþróttir og æskulýðsstarf gegna veigamiklu hlutverki í farsælu og heilbrigðu samfélagi. Ríkisstjórnin hyggst vinna áfram með félagasamtökum á þessu sviði að uppbyggingu á grasrótar og afreksstarfi. Mikilvægt er að allir fá jöfn tækifæri til að iðka íþróttir og að þar sé gætt að jafnrétti og öryggi iðkenda. Í því ljósi er vert að skoða markmiðssetningu þessu tengt í fjármálaáætlun.

 

Fjölmiðlun (19) 

Þegar kemur að fjölmiðlun þá skiptir jafn aðgangur kynja að lýðræðislegri umræðu máli. Stuðla þarf að framboði efnis sem höfðar til allra. Áherslur í fréttum og íþróttum þurfa að vera fjölbreyttar og eyða þarf kynjamismun sem og annarri mismunun. 

Þar sem fjölmiðlar eru áhrifavaldar og geta haft áhrif á staðalímyndir er mikilvægt að stuðla að því að jafnrétti kynja ríki við dagskrárgerð, þáttastjórnun, pistlaskrif, fréttir og íþróttaumfjöllun.

 

Menntun

Framhaldsskólar (20.1)

Á framhaldsskólastiginu er námsval ólíkt á milli kynja. Almennt eru fleiri drengir en stúlkur í starfsnámi og stúlkur í meirihluta í námi til stúdentsprófs. Strákar eru almennt í meirihluta þegar kemur að brotthvarfi úr námi í framhaldsskóla. Með nýju greiningarkerfi er stefnt að því að nemendum sem taldir eru í sérstakri brotthvarfshættu verði veittur aukinn stuðningur.

Stjórnarsáttmáli
Ríkisstjórnin leggur sérstakra áherslu á listnám og aukna tækniþekkingu sem gera mun íslenskt samfélag samkeppnishæfara á alþjóðavísu. Iðnnám og verk- og starfsnám verður einnig eflt í þágu fjölbreytni og öflugra samfélags. Þar sem niðurstöður sýna að stúlkur eru í meirihluta í námi til stúdentsprófs og drengir í starfsnámi væri vert að skoða markmiðssetningu þess efnis að jafna aðsókn kynjanna að námsvali á framhaldsskólastigi.

 

Háskólar (21.1)

Karlar virðast síður sækja sér háskólamenntun en konur og greina má kynbundið mynstur í námsvali. Þetta er sérstaklega áberandi í verk- og raunvísindum þar sem karlar eru í meirihluta og hins vegar í kennara- og hjúkrunarfræðinámi, þar sem konur eru í miklum meirihluta. Opinberir háskólar hafa verið að vinna að endurmati á matskerfi háskólanna og komið hefur í ljós að þar er að finna kynbundna slagsíðu körlum í vil.

Við gerð árangursmælikvarða fyrir háskóla og á sviði vísinda almennt verður þess gætt að þeir taki mið af kynjasjónarmiðum. Unnið er að gerð aðgerða um jafnrétti í háskólastarfi í samstarfi við háskóla. Fjölga þarf konum meðal prófessora og körlum í kennslu á öðrum skólastigum.

 

Rannsóknarstarfsemi á háskólastigi (21.2)

Unnið er að því að finna leiðir við mat á vísindafólki sem taka  tillit til kynjasjónarmiða. Opinberir háskólar hafa verið að vinna að endurmati á matskerfi háskólanna og komið hefur í ljós að þar er að finna kynbundna slagsíðu körlum í vil.

 

Stuðningur við námsmenn (21.3)

Fleiri konur en karlar stunda nám í háskóla. Staða kvenna og karla getur verið um margt ólík og ástæður þess að þau fara í nám geta sömuleiðis verið af ólíkum toga. Félagslegur bakgrunnur og fjölskylduaðstæður stýra oft námsframvindu og er því þörf á að skoða misjöfn áhrif þeirra á kynin.

Stjórnarsáttmáli
Í ljósi áherslna í stjórnarsáttmála um jöfn tækifærir fyrir alla og eflingu menntunar er lagt til að skoðað verði að setja kynjamarkmið á málefnasviðinu háskólar þar sem til dæmis yrði litið til kynbundins mynsturs í námsvali sem leiðir síðan til kynbundins vinnumarkaðar. Einnig væri vert að skoða markmiðssetningu þar sem matskerfi vísindafólks eru endurskoðuð og áhrif þess mæld.

 

Leikskóla- og grunnskólastig (22.1)

Starfsfólk og stjórnendur í leik- og grunnskólum eru mestmegnis konur og hafa ýmsar leiðir verið skoðaðar til að fjölga körlum í þessum störfum. Meðal annars hefur Ísland tekið þátt í alþjóðlegri rannsókn um starfsumhverfi starfsmanna leik- og grunnskóla sem hægt er að nota til að greina hvort eitthvað í umhverfinu halli á annað kynið.

 

Framhaldsfræðsla og menntun óflokkuð á skólastig (22.2)

Konur, bæði innlendar og erlendar, eru í meirihluta þeirra sem sækja sér framhaldsfræðslu. Kortleggja þarf nánar hvaða hópar sækja framahaldsfræðslu og skoða sérstaklega aðgengi kvenna og karla af erlendum uppruna.

Stjórnarsáttmáli
Í stjórnarsáttmála er kveðið á um endurskoðun löggjafar um framhaldsfræðslu. Gögn benda til þess að konur séu í meirihluta þeirra sem sæki sér þessa fræðslu. Vert er að skoða nánar hvaða hópar sækja sér framhaldsfræðslu og af hverju mögulegur kynjamunur stafar.

 

Heilbrigðisþjónusta

Sérhæfð sjúkrahúsþjónusta (23.1)

Sjónum er sérstaklega beint að biðtíma eftir aðgerð á Landspítala fyrir árin 2017 og 2018. Aðgerðarflokkarnir liðskipti á hné, liðskipti á mjöðm og hjartaþræðingar voru rýndir. Árið 2017 biðu konur 10% lengur en karlar eftir liðskiptaaðgerð á hné en karlar biðu 5% lengur en konur eftir liðskiptum á mjöðm. Konur eru um 20% fleiri á biðlista eftir bæklunaraðgerð.  Árið 2018 biðu konur 7% lengur en karlar eftir liðskiptum á hné. Árið 2018 var óverulegur munur á biðtíma karla og kvenna eftir liðskiptaaðgerð á mjöðm.

Hvað hjartaþræðingar varðar er óverulegur munur á biðtíma karla og kvenna. Karlar eru þó 84% fleiri á biðlista eftir þjónustu hjartaþræðingardeildar.

Til samanburðar er vert að rýna í greiningu velferðarráðuneytis og Landspítala frá því í febrúar 2012 en þar voru biðlistar vegna kransæðaþrengingar og liðskiptaaðgerða á mjöðm og hné kyngreindir. Þar kemur fram að biðtími karla var 21-34% lengri en meðalbiðtími kvenna varðandi liðskiptaaðgerð á mjöðm. Biðtími kvenna var 12% lengri varðandi liðskiptaaðgerð á hné. Konur biðu svo 24% lengur eftir kransæðaþræðingu en karlar.

Niðurstöður kynjagreiningar á biðlistaaðgerðum á Landspítala sýnir að þeim greinilega mun sem birtust í niðurstöðu rannsóknar velferðarráðuneytis og Landspítala árið 2012 hefur að stórum hluta verið eytt.

 

Heilsugæsla (24.1)

Konur eru tæplega 60% þeirra sem komu á heilsugæslu árið 2017 og karlar rúmlega 40%. Lítill sem enginn munur er á strákum og stúlkum til 15 ára aldurs.

Samkvæmt upplýsingum úr skýrslu um heilsufar kvenna sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin sendi frá sér árið 2016 er talið að staðalmyndir kynja og kynhlutverk ýti undir heilsufarsvanda kvenna frá unga aldri. Hjá unglingstúlkum og ungum konum birtist það m.a. sem áhrif á geðheilsu með þunglyndi og kvíða. Einnig er talið að ein af hverjum þremur konum verði fyrir kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og afleiðingar þess hafa áhrif á heilsufar. Bendir stofnunin á að umfang kynbundins ofbeldis sé svo mikið að þjóðir heims þurfi að grípa til aðgerða til að skilgreina vandann sem lýðheilsuvanda. Félagsleg staða kvenna hefur áhrif á heilsufar og þar liggja áhrifaþættir til grundvallar, s.s. menntun, félagslegt net og starfsskilyrði. Heilsufarsvandamál kvenna breytast yfir lífsskeiðið. Andleg vandmál, eins og  þunglyndi og kvíði eru algengari heilsufarsvandi hjá yngri konum. Stoðkerfisvandi, bakverkir, hjartasjúkdómar og krabbamein eru hins vegar algengari hjá eldri konum. Þrátt fyrir að hjarta- og kransæðasjúkdómar séu algengasta dánarorsök kvenna og karla eru þeir sjúkdómar frekar álitnir vera heilsufarsvandi karla. 

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin vakti nýverið athygli á sértækum heilbrigðisvandamálum karla með birtingu skýrslu (2018) sem tekur til Evrópulanda. Þekkt er að karlar lifa skemur en konur og er munurinn umtalsverður víða um álfuna. Hér á landi er munurinn 3,4 ár sem er minni en í flestum öðrum löndum og hefur heldur dregið saman með kynjunum. Margir mælikvarðar á heilsufari eru verri hjá körlum en konum og tíðni margra sjúkdóma er hærri hjá þeim, en að baki liggja margar orsakir. Almennt séð reykja karlar meira, neyta meira áfengis, borða óhollari mat, sýna meiri ofbeldishegðun, eru líklegri til að fremja sjálfsvíg og verða oftar fyrir slysum. Þá búa þeir við meiri tilfinningalega einangrun og geðræn vandamál þeirra greinast síður. Karlar leita síður eftir heilbrigðisþjónustu en konur og á það einnig við um sálfélagslegan stuðning. Auk þess hafa þeir sérstök vandamál er tengjast kyn- og þvagfærum sem oft eru flókin viðureignar.

Það er áhugavert rannsóknarefni að skoða hvers vegna um svo mikinn kynjamun er að ræða. Eðlilegt er að konur hafi hærri komutíðni en karlar á barneignaraldri. Raunin er hins vegar sú að komutíðni kvenna er einnig meiri eftir barneignaaldur. Embætti landlæknis hefur bent á mikilvægi þess að huga að heilsu karla. Þeir lifi skemur en konur og ýmsir mælikvarðar sem lagðir eru á heilsu komi verr út hjá körlum en konum. Það er því mikilvægt að rannsaka betur af hverju karlar leiti síður til heilsugæslunnar og bregðast við því með aðgerðum.

Nýverið fól velferðarráðuneytið Þróunarmiðstöð heilsugæslunnar að útfæra tilraunaverkefni um móttöku fyrir konur þar sem þær geta sótt ráðgjöf og ýmsa þjónustu vegna sérstakra heilsufarsvandamála sem bundin eru við konur. Samtímis mætti skoða hvort tilefni væri til þess að þróa samsvarandi þjónustu fyrir karla.

Stjórnarsáttmáli
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að heilbrigðisstefna fyrir Ísland eigi að hafa til hliðsjónar þarfir allra landsmanna og stuðla eigi að heilbrigði. Jafnframt á að efla heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað notenda. Í ljósi þess sem fjallað er um að framan gæti væri ráð að setja fram markmið varðandi þjónustu við karla þar sem þeir sækja þjónustu heilsugæslunnar marktækt minna en konur.

 

Hjúkrunar- og dvalarrými (25.1)

Samkvæmt spá Hagstofu Íslands voru aldraðir um 12% þjóðarinnar árið 2018 og gera spár ráð fyrir að þeir verði rúm 23% árið 2060.

Margvísleg kynjasjónarmið tengjast málaflokknum sem þarf að styðjast við þegar unnið er að stefnumótun fyrir málaflokkinn. Þörf karla fyrir dvöl á hjúkrunarheimili er metin meiri og konur bíða lengur eftir hjúkrunarrými. Hlutfallslega fleiri karlar með færni- og heilsumat létust áður en þeir fengu úthlutað hjúkrunarrými.  Konur (64%) eru hlutfallslega fleiri en karlar (36%) í hjúkrunarrýmum á hjúkrunarheimilum og eru fleiri á biðlista.  Hærra hlutfall karla flytur inn á hjúkrunarheimili fyrir 70 ára aldur en flestir af báðum kynjum flytja inn á hjúkrunarheimili á aldursbilinu 80–89 ára. Munur er á kynjunum í vali á tómstundum á hjúkrunarheimilum. Mun fleiri konur voru skráðar sem nánasti aðstandandi heimilismanns eða 1.064 á móti 729 körlum. Konur eru oftar skráðar aðalumönnunaraðilar en karlar og einnig annast þær oftar aðstandendur sína.  Konur eru í meirihluta þeirra sem starfa við umönnun á hjúkrunarheimilum og eru um 90% starfsfólks en karlar eru hlutfallslega fleiri í stjórnunarstöðum. Af starfsfólki þá eru fleiri konur faglærðar en karlar. Karlar eru aftur á móti hlutfallslega fleiri í tekjuhæsta hópi starfsfólks.

Stjórnarsáttmáli
Stjórnarsáttmálinn kveður á um uppbyggingu hjúkrunarrýma sem og áherslu á aðra þjónustuþætti, svo sem heimahjúkrun, dagþjálfun og endurhæfingu. Við uppbyggingu og mat á þörf fyrir þessi úrræði er mikilvægt að líta til ríkjandi kynjasjónarmiða þar sem innbyggt virðist í kerfin að konur, hvort sem um er að ræða maka eða afkomanda, taki að sér aukin umönnunarbyrði aðstandenda frekar en karlar. Þetta hefur leitt til þess að karlar eru veikari þegar þeir komast inn á hjúkrunarheimili sem er afleiðing þess að gert er ráð fyrir að aðstandendur, sem reynslan sýnir að eru yfirleitt kvenkyns, beri þyngri umönnunarbyrði en karlar.

 

Lyf og lækningatæki (26)

Þrátt fyrir að Ísland hafi sérstöðu hvað varðar mikla notkun geð- og verkjalyfja þá er aðeins einn flokkur lyfja þar sem notkunin er tvöfalt meiri en annarsstaðar á Norðurlöndum,  en það er notkun Íslendinga á methylfenidati (ADHD lyf).

Methylfenidati (ADHD lyf)
Notkun methylfenidats hefur aukist umtalsvert á undanförnum sex árum. Árið 2017 var 82% meiri notkun en árið 2012. Karlar/drengir eru í meirihluta þeirra sem fá lyfið ávísað og notkunin er meiri hjá börnum en fullorðnum. Svipað mynstur má einnig greina hjá fullorðnum, þ.e. karlar fá meira ávísað en konur, en kynjamunurinn er ekki jafn áberandi og hjá börnum.

Verkjalyf  
Verkjalyf í flokki ópíóíða (ATC kóði N02A) eru mikið notuð á Íslandi og er notkun þeirra meiri hér á landi en á hinum Norðurlöndunum, að Danmörku undanskildu. Á tímabilinu 2012-2017 notuðu konur ópíóíða í meiri mæli en karlar, eða því sem nemur 46%.

Geðlyf
Í flokki geðlyfja er Ísland í sérstöðu varðandi mikla notkun á lyfjum í flokki róandi og kvíðastillandi lyfja, svefnlyfja og slævandi lyfja auk þunglyndislyfja, þar sem notkun Íslendinga á lyfjum úr þessum flokkum er allt að tvisvar sinnum meiri en annars staðar á Norðurlöndum. 

Þegar notkun róandi og kvíðastillandi lyfja er greind eftir kyni á tímabilinu 2012-2017 má sjá að konur eru í meirihluta þeirra sem fá ávísað róandi og kvíðastillandi lyfjum og er munurinn u.þ.b. 10 dagskammtar/1000 íbúa.

Þegar notkun lyfja í flokki svefnlyfja og slævandi lyfja er skoðuð kemur í ljós að heildarnotkun hefur farið minnkandi síðastliðin sex ár (2012-2017), eða úr 70 í 64 dagsskammta á hverja 1000 íbúa á dag. Þegar notkunin er greind eftir kyni kemur aftur í ljós mikill munur eftir kynjum þar sem konur nota mun meira af svefnlyfjum og slævandi lyfjum en karlar.  

Notkun þunglyndislyfja hefur aukist talsvert mikið síðastliðin ár og nú er svo komið að notkun Íslendinga á þunglyndislyfjum er upp undir tvisvar sinnum meiri hérlendis en á hinum Norðurlöndunum.  Síðan árið 2012 hefur heildarnotkunin aukist um 31%, 26% á meðal karla og 35% á meðal kvenna. Umtalsverður munur er á milli kynjanna og nota konur u.þ.b. tvisvar sinnum meira af þunglyndislyfjum en karlar.

Í heildina litið virðist notkun ofangreindra lyfja töluvert meiri hjá konum en körlum að ADHD- lyfjum undanskildum.

Stjórnarsáttmáli
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um framkvæmd geðheilbrigðisáætlunar og eflingu geðheilbrigðisþjónustu um land allt fyrir alla aldurshópa. Jafnframt er lögð sérstök áhersla á forvarnir og lýðheilsu.

 

Velferðarmál

Bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar, örorkulífeyrir og Bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, örorka (27.1 og 27.2)

Kyngreind gögn um stöðu þeirra sem falla undir málaflokkana liggja fyrir og leiða í ljós að konur eru í meira mæli með örorokumat vegna stoðkerfissjúkdóma, sérstaklega um og eftir miðjan aldur. Hjá körlum er aukning örorkumats meiri á meðal yngri aldurshópa, einkum vegna geðrænna vandamála.

Konur eru um 60% þeirra sem eru með 75% örorkumat en karlar um 40%. Öryrkjum með 75% mat hefur fjölgað að meðaltali um 2,4% á ári frá 2010, körlum um 2,3% að meðaltali og konum um 2,5%.  Síðustu þrjú árin hefur fjölgunin verið meiri eða um 3,3% að meðaltali, 3,1% í hópi karla og 3,4% í hópi kvenna. Öryrkjum hefur fjölgað sem hlutfalli af mannfjölda í öllum aldursflokkum nema 45-49 ára og 65-66 ára. Mesta fjölgunin er í yngri aldursflokkum; 30-34 ára, 35-39 ára og 18-19 ára.

Starfsendurhæfing: Með því að máta stöðu kynjanna við tölfræðiupplýsingar er ljóst að áhersla á starfsendurhæfingu mun koma báðum kynjum til góða. Með aukinni starfsendurhæfingu má auka möguleika fólks til áframhaldandi þátttöku á vinnumarkaði. Hlutfallslega fleiri konur á vinnumarkaði sinna störfum (t.d umönnunarstörfum) þar sem laun eru lág og hættan á að falla út af vinnumarkaði virðist meiri en hjá körlum. Því felast tækifæri fyrir þann hóp til að skipta um starfsvettvang í starfsendurhæfingu. Sama gildir um karla í yngri hópum, sérstaklega þá sem glíma við geðraskanir, en starfsendurhæfing og/eða endurmenntun eykur möguleika þeirra á að fá störf við hæfi og koma þannig í veg fyrir að einstaklingar hverfi varanlega af vinnumarkaði.

Einföldun bótakerfis almannatrygginga: Einfaldara og sveigjanlegra bótakerfi þar sem dregið er úr tekjutengingum mun mæta betur mismunandi þörfum einstaklinga með skerta starfsgetu. Fleiri konur en karlar fá örorkugreiðslur frá almannatryggingum en aðgerðir til einföldunar koma að sjálfsögðu báðum kynjum til góða. Enn fremur er gert ráð fyrir að svokölluð framfærsluuppbót verði lögð niður og bótaflokkar sameinaðir. Með því styrkist réttarstaða öryrkja sem fá greiðslur frá almannatryggingum sem eru í meirihluta konur.

Ólík staða karla og kvenna í þjóðfélaginu endurspeglast í mismunandi greiðslum til þeirra frá almannatryggingum. Breytingum á bótakerfi er ætlað að stuðla að meiri jöfnuði sem nýtist konum betur vegna þess að þær eru almennt með lægri aðrar tekjur en tekjur frá almannatryggingum.

Stjórnarsáttmáli
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um breytingar á bótakerfinu með það að markmiði að skapa sátt um að einfalda kerfið, tryggja framfærslu örorkulífeyrisþegar og efla þá til þátttöku í samfélaginu. Fyrsta skref af hálfu stjórnvalda verði að skipuleggja framboð hlutastarfa hjá hinu opinbera fyrir fólk með skerta starfsgetu sem atvinnulífið yrði síðan þátttakandi að. Vert væri að skoða hvort hægt væri að setja fram markmið þessa efnis í fjármálaáætlun og þá út frá mismunandi stöðu kynjanna, setja inn kyngreinda mælikvarða og fylgjast með framgangi. Það gæti veitt innsýn inn mismunandi áhrif aðgerða á kynin.

 

Fæðingarorlof (29.2)

Markmið laga um fæðingar- og foreldraorlof er tvíþætt, annars vegar að tryggja barni samvistir við foreldra sína og hins vegar að gera bæði konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Reynslan hefur sýnt að einn af lykilþáttum til þess að unnt sé að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf er að foreldrar eigi jafnan rétt til fæðingarorlofs. Lenging fæðingarorlofs miðar einkum að því að barn geti notið samvista með foreldrum sínum sem lengst. Breytingar á hámarksfjárhæðum úr Fæðingarorlofssjóði miða á hinn bóginn að því að draga úr röskun á tekjum heimila þegar foreldrar fara í fæðingarorlof.

Helsta áskorun innan fæðingarorlofskerfisins er að tryggja að röskun á tekjum foreldra verði sem minnst þegar þeir þurfa að leggja niður störf vegna fjölgunar í fjölskyldunni, enda má ætla að tekjur fjölskyldunnar eigi stóran þátt í ákvarðanatöku foreldra í tengslum við nýtingu þeirra á rétti til fæðingarorlofs. Við endurreisn fæðingarorlofskerfisins hafa stjórnvöld lagt áherslu á að hækka hámarksgreiðslur til foreldra sem nýta rétt sinn til fæðingarorlofs í því skyni að auka líkur á að foreldrar, ekki síst feður, sjái hag í að fullnýta rétt sinn til orlofs.

Tölulegar upplýsingar frá Vinnumálastofnun benda til þess að frá árinu 2009 hafi feðrum sem nýtt hafa rétt sinn til fæðingarorlofs fækkað jafnt og þétt til ársins 2014 þegar þeim fór að fjölga lítillega að nýju. Frá árinu 2016 virðist sem feðrum sem hafa nýtt rétt sinn til fæðingarorlofs hafi fjölgað enn frekar en seint á því ári voru hámarksgreiðslur í fæðingarorlofi hækkaðar. Árið 2008 voru umsóknir feðra um greiðslur í fæðingarorlofi um 90% af umsóknum mæðra en árið 2016 voru umsóknir feðra rúmlega 82% af umsóknum mæðra. Í febrúar 2019 voru umsóknir feðra um greiðslur í fæðingarorlofi komnar í rúmlega 84% af umsóknum mæðra vegna ársins 2017 og 74% vegna ársins 2018. Svipuð þróun virðist vera að eiga sér stað hvað varðar nýtingu feðra á dögum í fæðingarorlofi. Árið 2009 nýttu 19% feðra minna en þrjá mánuði af sjálfstæðum rétti til fæðingarorlofs og fór hlutfallið hækkandi til ársins 2014 þegar það tók að lækka að nýju. Árið 2016 var hlutfall feðra sem nýtti sér minna en þrjá mánuði af sjálfstæðum rétti til fæðingarorlofs 32%. Í febrúar 2019 var hlutfall feðra sem nýtti sér minna en þrjá mánuði af sjálfstæðum rétti til fæðingarorlofs orðið rúmlega 37% vegna ársins 2017 og 53% vegna ársins 2018. Þess ber að geta að endanlegar tölur fyrir árið 2017 liggja ekki fyrir fyrr en í árslok 2019 og endanlegar tölur fyrir árið 2018 liggja ekki fyrir fyrr en í árslok 2020 þar sem foreldrar eiga rétt á að nýta rétt sinn til fæðingarorlofs í 24 mánuði frá þeim tíma er stofnast til réttarins.

Enn fremur er það áskorun innan fæðingarorlofskerfisins að brúa það bil sem myndast þegar foreldrar hafa fullnýtt rétt sinn innan kerfisins og þangað til barn fær dvöl á leikskóla, ekki síst til að tryggja báðum foreldrum möguleika á að annast barn sitt án þess að það hafi í för með sér verulega röskun hvað varðar þátttöku hvors um sig á vinnumarkaði.

Stjórnarsáttmáli
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um samtal stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um lengingu fæðingarorlofs og hækkun orlofsgreiðslna í fæðingarorlofi. Ríkisstjórnin hefur nú þegar hækkað greiðslur og er rætt um lengingu í viðræðum stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins.

 

Húsnæðisstuðningur (31)

Málaflokknum er ætlað að stuðla að því að fólk hafi raunverulegt val um búsetuform og búi við öryggi í húsnæðismálum í samræmi við þarfir hvers og eins. Markmið laga um húsnæðisbætur er að lækka húsnæðiskostnað efnaminni leigjenda. Samkvæmt upplýsingum um leigjendur í Félagsvísum Hagstofu Íslands árið 2015 var algengara að heimili með börn ættu erfitt með að ná endum saman en heimili án barna. Af heimilum með börn var hlutfall einstæðra foreldra sem áttu erfitt með að ná endum saman 71,2%. Þá var algengara að heimili með börn byggju við þunga byrði af húsnæðiskostnaði en heimili án barna.

Árið 2013 bjuggu 6,7% Íslendinga við skort á efnislegum lífsgæðum. Það ár var algengara að konur skorti efnisleg lífsgæði en karla, 7,5% kvenna skorti efnisleg lífsgæði samanborið við 5,9% karla. Sé litið til heimilisgerða var algengast að heimili einstæðra foreldra með börn skorti efnisleg lífsgæði (25,2%) en næst á eftir komu heimili einstæðra og barnlausra einstaklinga (11%). Hlutfallið var lægra á meðal þeirra sem tilheyrðu öðrum heimilisgerðum.

Í skýrslu Hagstofu Íslands um sára fátækt kemur fram að sára fátækt mælist ögn tíðari hjá konum en körlum eða níu af þeim tólf árum sem til skoðunar voru (2004-2015). Bent er á að skortur á efnislegum gæðum sé heimilismæling, þ.e. hún hafi sama gildi fyrir allt heimilisfólk tiltekins heimilis, en á flestum heimilum búi bæði karlar og konur. Aftur á móti sé allnokkur fjöldi heimila einstæðra foreldra sem að stærstum hluta eru heimili einstæðra mæðra. Að mati Hagstofunnar er ekki fráleitt að ætla að örlítill munur sé á aðstæðum karla og kvenna en sá munur sé að mestu tilkominn vegna bágrar stöðu einstæðra mæðra.

Þá kemur fram í Félagsvísum Hagstofu Íslands frá 2016 að einhleypir karlar hafi verið líklegri en einhleypar konur til að fá fjárhagsaðstoð frá sveitarfélagi. Af þeim heimilum sem fengu fjárhagsaðstoð í sex mánuði eða lengur á ári voru einhleypir karlar jafnframt fjölmennari en einhleypar konur. Þá má nefna að hlutfall karla sem bjuggu við skort á efnislegum gæðum var hærra en hlutfall kvenna eða sjö af ellefu árum á tímabilinu 2005-2015 en munur á milli kynjanna var á bilinu 1,6-5,6% eða að meðaltali 3,24%. 

Í hópi einstæðra foreldra þá er konur í miklum meirihluta viðtakenda húsnæðisbóta eða 87,4% á móti 12,6% karla. Það er í takti við þá stöðu sem þær búa við, sér í lagi vegna ábyrgðar á börnum. Þegar litið er til heimilisgerða þar sem einn fullorðinn er á heimili, án barna, eru kynjahlutföllin nokkuð jöfn en þó er aðeins algengara að konur séu viðtakendur húsnæðisbóta en karlar. Þrátt fyrir að hlutfall einhleypra karla sem búi við skort á efnislegum gæðum hafi oftar verið hærra en kvenna á undanförnum árum verður einnig til þess að líta að konur eru líklegri til að vera á leigumarkaði. Þá liggur fyrir að hlutfall einstæðra foreldra sem eiga erfitt með að ná endum saman og búa við þunga byrði húsnæðiskostnaðar er hátt.

Stjórnarsáttmáli
Stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar leggur áherslu á öruggt húsnæði, óháð efnahag og búsetu, sem og barnvænt samfélag. Þar er einnig kveðið á um aðgerðir sem lækka þröskuld ungs fólks og tekjulágra inn á húsnæðismarkaðinn. Í því augnamiði verði stuðningskerfi hins opinbera endurskoðuð þannig að stuðningurinn nýtist fyrst og fremst þessum hópum. Meðal annars verði skoðaðir möguleikar á því að hægt verði að nýta lífeyrissparnað til þessa.

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira