Hoppa yfir valmynd

Fjármálaáætlun 2020-2024

Samþykkt fjármálaáætlun fyrir 2020-2024

Fjármálaáætlun fyrir árin 2020-2024 endurspeglar sterka stöðu og festu í stjórn opinberra fjármála í hægari takti hagkerfisins. Áætlunin vegur þungt í því mikilvæga verkefni opinberra fjármála, peningastefnunnar og vinnumarkaðarins að viðhalda efnahagslegum stöðugleika og þeirri hagsæld sem landsmenn búa við um þessar mundir.

Í fjármálaáætlun er tryggð áframhaldandi jákvæð afkoma opinberra fjármála. Skattlagning á heimili og fyrirtæki lækkar og skuldastaða ríkissjóðs og vaxtabyrði af hennar völdum heldur áfram að lækka jafnt og þétt. Komið verður á fót Þjóðarsjóði til þess að mæta hugsanlegum fjárhagsáföllum. Á sama tíma verða umtalsverðir fjármunir lagðir í að stuðla að samkomulagi um kjarasamninga á vinnumarkaði og myndarlega aukið við fjárfestingar hins opinbera, þegar fyrirséð er að atvinnuvegafjárfesting gefur eftir.

Skuldir ríkissjóðs vegna endurfjármögnunar fjármálakerfisins hafa verið greiddar upp að fullu og aðrar skuldir vegna hallareksturs umliðinna ára hafa einnig verið lækkaðar mikið. Við það hefur vaxtabyrðin lést til muna. Tollar og vörugjöld af iðnaðarvörum hafa auk þess verið felld niður undanfarin ár. Fá lönd í heiminum eru nú jafnopin fyrir viðskiptum og Ísland.

4 milljarða viðbótaraukning til samgönguframkvæmda

 

 
 
 

Áherslur ríkisstjórnarinnar í fjármálaáætluninni byggjast á grunni síðustu áætlunar og stefnuyfirlýsingu stjórnarflokkanna. Í megindráttum eru útgjöld málefnasviðanna með svipuðu sniði og kom fram í fjármálaáætlun fyrir árin 2019–2023. Með sérstökum ráðstöfunum, almennu aðhaldi og viðbótararðgreiðslum hefur skapast svigrúm til þess að auka framlög til nokkurra málaflokka í þessari áætlun.

Að frátöldum breytingum vegna ýmissa tæknilegra leiðréttinga nema breytingar á rammasettum útgjöldum frá gildandi fjármálaáætlun um 2,6 ma.kr. til lækkunar á árinu 2019. Munar þar mest um hliðrun verkefna tengdum byggingu nýja Landspítalans auk hliðrun ýmissa vegaframkvæmda.

Árið 2020 nema breytingar á rammasettum útgjöldum milli áætlana um 13,3 ma.kr., um 20,2 ma.kr. árið 2021, 27,8 ma.kr. á árinu 2022 og fyrir árið 2023 nema þessar breytingar um 24,3 ma.kr.

Helstu breytingar eru eftirfarandi:

  • Lenging fæðingarorlofs í 12 mánuði á árunum 2020 og 2021 en kostnaður af þeirri aðgerð nemur 900 m.kr. 2020, 2,7 ma.kr. 2021 og 3,8 ma.kr. frá og með árinu 2022. (kjarasamningsmál).
  • Hækkun stofnframlaga til almennra íbúða um 2,1 ma.kr. frá og með árinu 2020 til ársins 2022 (kjarasamningsmál).
  • Alls 4 ma.kr. viðbótaraukning til samgönguframkvæmda frá og með 2020. 
  • Veruleg aukning framlaga til nýsköpunarverkefna. Þar munar mest um 1,1 ma.kr. hækkun frá og með 2020 vegna rammaáætlana ESB um menntun, rannsóknir og tækniþróun, aukin framlög vegna endurgreiðslu kostnaðar til fyrirtækja við rannsóknir og þróun en í fjárlögum 2019 hækkuðu framlögin um 1 ma.kr. og munu þau hækka um 250 m.kr. árlega frá og með árinu 2021. Þessu til viðbótar er gert ráð fyrir að hækka styrki til nýsköpunar um 500 m.kr. 2020, 1,5 ma.kr. árið 2021 og 2 ma.kr. árin 2022–2024.
  • Áframhald á fjárfestingu í sjúkrahúsþjónustu þar sem framkvæmdir við nýjan Landspítala vegur þyngst en stefnt er að því að ljúka við byggingu spítalans 2025. Alls nemur fjárfesting í sjúkrahúsþjónustu ríflega 74 ma.kr. á tímabilinu.
  • Aukin framlög til byggingar nýrra hjúkrunarrýma, þ.e. 500 m.kr. 2020, 1,5 ma.kr. 2021 og 2 ma.kr. árin 2022 og 2023.
  • Breytt útfærsla skattaaðgerða frá forsendum gildandi fjármálaáætlunar. Þar er um að ræða 1,6 ma.kr. vegna barnabóta, 400 m.kr. vegna stuðnings við bókaútgáfu og 400 m.kr. vegna aðgerða til að bæta starfsumhverfi einkarekinna fjölmiðla.
  • Aukin framlög til umhverfismála, sérstaklega í tengslum við loftslagsáætlun stjórnvalda
  • Breytingar á námslánakerfinu með námsstyrkjakerfi
  • Stofnstyrkir til kaupa eða byggingar almennra íbúða vaxa umtalsvert á árunum 2020–2022 og verða framlög vegna þeirra 3,8 ma.kr. á ári.
  • Nýtt hafrannsóknarskip verður smíðað á áætlunartímabilinu.

Tillögur sem styðja við gerð ábyrgra kjarasamninga

Launahækkanir sem orðið hafa á hagvaxtartímabilinu sem nú hefur varað samfellt frá árinu 2011 hafa skilað heimilum meiri kjarabótum en nokkru sinni fyrr. Þær hafa á hinn bóginn leitt til hækkunar launakostnaðar langt umfram það sem raunin hefur verið í helstu viðskiptalöndum Íslands og þar með skert verulega samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja.

Allt bendir til að frekari almennar launahækkanir muni við þessar aðstæður leiða til verðbólgu og aukins atvinnuleysis. Stjórnvöld hafa lagt fram ýmsar tillögur sem ætlað er að styðja við gerð ábyrgra kjarasamninga. Stefnt er að auknum stuðningi við byggingu húsnæðis fyrir lágtekjufólk og við fyrstu kaupendur á húsnæðismarkaði í ljósi þess að húsnæðis- og leiguverð hefur hækkað talsvert umfram laun síðastliðin ár. Einnig felast lífskjarabætur í hækkun fæðingarorlofsgreiðslna og lengingu fæðingarorlofs sem ríkisstjórnin stefnir á að taki gildi á kjörtímabilinu.

Ráðstöfunartekjur heimila hækkaðar verulega

Á undanförnum árum hafa stjórnvöld markvisst beitt bóta- og skattkerfunum til að bæta hag þeirra sem þurfa á mestri aðstoð að halda og einnig til að auðvelda atvinnulífinu að standa undir því háa launahlutfalli sem einkennir íslenskan fyrirtækjarekstur.

Árið 2014 hófust skattalækkanir á einstaklinga og hefur tekjuskattur á millitekjur verið lækkaður um rúmlega 3 prósentustig í þremur skrefum, 2014, 2015 og 2017. Framundan eru frekari breytingar á tekjuskatti einstaklinga, sem beinast að því að auka verulega ráðstöfunartekjur heimila, einkum þeirra tekjulægstu. Fyrsti áfangi þessara ráðstafana tók gildi um síðustu áramót þegar persónuafsláttur hækkaði um eitt prósentustig til viðbótar við lögbundna verðlagshækkun og 3,7% hækkun þrepamarkanna. Áhrif þessa fyrsta áfanga eru hagstæðari tekjulægri hópum en þeim tekjuhærri.

Í febrúar 2019 kynnti fjármála- og efnahagsráðherra fyrirætlanir um veigamiklar breytingar til lækkunar á tekjuskatti einstaklinga. Meðal þeirra er innleiðing á nýju lægsta þrepi og breytingar á viðmiði þrepamarka og persónuafsláttar. Markmiðið er að koma sérstaklega til móts við tekjulægstu hópana á vinnumarkaði.

Í áætluninni er gert ráð fyrir að seinni hluti 0,5% lækkunar tryggingagjalds komi til framkvæmda á árinu 2020, en gjaldið var lækkað um 0,25% í upphafi árs 2019. Lækkuninni er ætlað að styrkja rekstrarforsendur og samkeppnishæfni fyrirtækja í ljósi mikilla undan-genginna kostnaðarhækkana og gefa þeim þannig aukið svigrúm í rekstri, m.a. til að koma til móts við launakröfur.

Skatthlutfall fjármagnstekjuskatts var hækkað úr 20% í 22% í janúar 2018. Samhliða því var frítekjumark vaxtatekna hækkað og ráðgert að endurskoða stofn skattsins. Áfram er gert ráð fyrir að áhrif þessa komi fram í tekjuáætlun á síðari hluta kjörtímabilsins. Loks er í áætluninni gert ráð fyrir að bankaskattur verði lækkaður í fjórum áföngum yfir tímabilið 2020–2023, úr 0,376% í 0,145%. Gert er ráð fyrir að áhrifin af lækkuninni veiti bönkunum svigrúm til að lækka útlánavexti. Það myndi bæta afkomu heimila og rekstrarumhverfi fyrirtækja, en lögð er áhersla á það í hvítbók um fjármálakerfið að hagræðing í fjármálakerfinu skili sér til neytenda í minni vaxtamun.

Aukinn viðnámsþróttur með lækkun skulda

Í kjölfar samfellds hagvaxtarskeiðs undanfarinna ára er fjárhagsleg staða ríkissjóðs sterk. Hefur ríkissjóður verið rekinn með afgangi undanfarin ár og er gert ráð fyrir áframhaldandi afgangi af rekstri ríkissjóðs á árunum 2020–2024 um 0,8-1% af VLF á hverju ári.

Mikill árangur í lækkun skulda hins opinbera og einkageirans, auk efnahagslegra breytinga, hefur gefið þjóðarbúinu aukinn viðnámsþrótt komi til ytri áfalla. Heildarskuldir ríkissjóðs hafa lækkað hratt á undanförnum árum, frá því þær náðu hámarki í 1.501 ma.kr. árið 2012, en reiknað er með að þær nemi rúmlega 830 ma.kr. í lok árs 2019.

Meginmarkmið ríkisfjármálastefnunnar verður áfram að treysta stöðu ríkissjóðs eins og kostur er samhliða því að opinber umsvif, og þá sérstaklega auknar fjárfestingar, vega upp á móti slaka í hagkerfinu.

Kynning fjármála- og efnahagsráðherra á blaðamannafundi 23.3.2019

Fjármálaáætlun fyrir 2020-2024 (pdf)

Töfluviðaukar úr fjármálaáætlun 2020-2024 (Excel)

Rekstraryfirlit fyrir hið opinbera

Rekstraryfirlit fyrir ríkissjóð 

Tekjur ríkissjóðs 

Útgjöld ríkissjóðs (hagrænt)

Útgjaldarammar ríkissjóðs eftir málefnasviðum

Áætluð rekstrar- og tilfærsluútgjöld í útgjaldarömmum málefnasviða

Áætluð framlög til fjárfestinga í útgjaldarömmum málefnasviða

Eignir og skuldir ríkissjóðs 

Rekstraryfirlit - sveitarfélög

Þjóðhagsspá 2019-2024

 

Sjá einnig:

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum