Hoppa yfir valmynd

Umbætur í starfsemi hins opinbera

Árlega er fjallað um umbótamál í starfsemi hins opinbera í fjármálaáætlun. Hér á síðunni má lesa um helstu umbótamál sem eru til umfjöllunar í fjármálaáætlun 2021-2025.

Umbætur eru forsenda framfara. Hvort sem um er að ræða almenna starfsemi, rekstur eða þjónustu hins opinbera þurfa stjórnvöld, jafnt stjórnendur sem aðrir starfsmenn, stöðugt að leita leiða til að tryggja sem mestan og bestan árangur af starfseminni með tilliti til þeirra markmiða sem henni er ætlað að þjóna. Þær áskoranir sem opinber starfsemi stendur frammi fyrir á hverjum tíma verða ekki leystar nægilega vel af hendi nema unnið sé stöðugt að því að hámarka nýtingu þeirra aðfanga sem í reksturinn fara og eru grundvöllur öflugrar þjónustu. Virk og viðvarandi viðleitni til umbóta er nauðsynleg til þess að leiða verkefni samtímans til farsælla lykta, bæta þjónustu við almenning og búa í haginn til þess að takast á við framtíðaráskoranir.

Umbóta- og nýsköpunarstarf fær aukið vægi í tengslum við uppbyggingar- og fjárfestingaráform stjórnvalda til að vega á móti afleiðingum heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Brýnt er að tryggja að þeirri stefnu stjórnvalda að viðhalda útgjaldastigi opinberra fjármála verði fylgt eftir með því að tryggja aukna skilvirkni og betri nýtingu fjármuna. Til að styðja við slíka þróun þarf að forgangsraða verkefnum og tryggja rétt þjónustustig með umbótum, sveigjanlegum rekstri og markvissri stjórnun mannauðs.

Þau umbótaverkefni sem fjallað er um hér á síðunni miða að þessum markmiðum. Þau ná þvert yfir stjórnkerfið með aðkomu fjölmargra opinberra aðila en að þeim er unnið undir stjórn fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem hefur með höndum almennar umbætur í ríkisrekstrinum. Þá er unnið að ýmsum verkefnum í samstarfi ríkis og sveitarfélaga á grundvelli samkomulags þeirra um fjármálaáætlun ár hvert.

Á síðustu mánuðum hafa verið tekin stór umbótaskref í að bæta skilvirkni opinberrar þjónustu og aðgengi almennings að henni í gegnum þær hröðu umbreytingar sem opinber þjónusta þurfti að ganga í gegnum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, verkefni sem kröfðust nýsköpunargetu opinberra aðila og samstarfs við almenning og fyrirtæki í landinu. Þá hafa ákvarðanir stjórnvalda miðað að því að treysta undirstöður samfélagsins og innviði sem hafa sýnt sig að skipta öllu máli til þess að halda þjónustustigi óbreyttu og hjólum atvinnulífsins gangandi, á sama tíma og tryggt er að jafnrétti sé haft að leiðarljósi við ákvarðanatöku. Með samstilltu átaki þeirra sem koma að ríkisrekstrinum er hægt að tryggja áframhaldandi framgang umbótaverkefna með því að byggja ofan á þær jákvæðu breytingar sem hafa orðið á síðastliðnum mánuðum og tryggja þannig aukna viðbragðsgetu og sveigjanleika í rekstri sem er forsenda þess að geta tekist á við framtíðaráskoranir.

Markmið stjórnvalda er að á næstu fimm árum komist Íslandi í hóp allra fremstu þjóða í heimi í stafrænni þjónustu við almenning. Stafræn þjónusta leiðir ekki aðeins til aukinnar skilvirkni við veitingu þjónustunnar heldur er forysta í stafrænni umbreytingu ein af mikilvægustu forsendum fyrir samkeppnishæfni samfélagsins og undirstaða fyrir jöfnun búsetuskilyrða fólks alls staðar á landinu. Með aukinni stafrænni þjónustu skapast tækifæri til hagvaxtar til framtíðar með því að draga úr kostnaði við opinbera þjónustu og umhverfisáhrifum þjónustunnar. 

Verkefnastofa um stafrænt Ísland

Verkefnastofa um stafrænt Ísland, sem starfar á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins, hefur það hlutverk að tryggja að markmið ríkisstjórnarinnar í þessum málaflokki nái fram að ganga í þeim tilgangi að einfalda líf fólks í landinu með því að bæta stafræna opinbera þjónustu á grunni þarfa og óska notenda. Á Ísland.is má lesa nánar um helstu verkefni verkefnastofunnar.

Verkefnastofan vinnur með ráðuneytum, stofnunum og öðrum opinberum aðilum að því að stórefla stafræna þjónustu og tryggja þannig skýr, einföld og hraðvirk samskipti. Helstu áherslusvið árin 2020–2021 eru fjögur:

 • Stafræn samskipti við almenning: Setja í loftið nýjan vef Ísland.is og stórefla stafræna þjónustu með nýrri ásýnd og framúrskarandi þjónustuupplifun.
 • Sjálfsafgreiðsla: Sem flestir ferlar í samskiptum fólks við hið opinbera verði aðgengilegir í gegnum miðlæga þjónustugátt Ísland.is og þar af 1.200 stafræn ferli í sjálfsafgreiðslu.
 • Stafrænir innviðir: Innleiðing og virkjun gagnaþjónustulagsins Straumsins (X-Road) til að samræma vefþjónustur og gagnaflutningslag hins opinbera.
 • Hagræðing í rekstri vefkerfa og stafrænnar þjónustu: Samþætta vefsíður, vefkerfi og fjölmargar „mínar síður“ hins opinbera. Auka þannig hagræðingu með sameiginlegum innkaupum hugbúnaðarlausna og notkun opins hugbúnaðar. Með opnum hugbúnaði skapast aukin tækifæri til samstarfs og nýsköpunar í atvinnulífinu.

 

Til að minnka biðraðir hjá sýslumönnum og bæta þjónustuna voru tugir eyðublaða stafvæddir og settir á Ísland.is í apríl 2020. Umhverfisáhrif af þeirri breytingu hafa verið metin og frá apríl hefur þessi aðgerð skilað ýmsum jákvæðum áhrifum og tímasparnaði fyrir almenning:

 

Innviðauppbygging

Niðurstöður úr fyrstu samræmdu þjónustukönnun ríkisins sem gerð var í janúar og maí síðastliðnum gefa mjög jákvæða mynd af þjónustu hins opinbera en einnig að það felast umbótatækifæri í því að auka hraða þjónustunnar. Á þeim sviðum hins opinbera þar sem framboð stafrænnar þjónustu er gott er hún notuð af miklum meirihluta notenda. Margar stofnanir hafa aukið stafræna þjónustu sína töluvert til að bregðast við samkomutakmörkunum vegna sóttvarna. Má segja að sú röskun sem orðið hefur í samfélaginu síðustu mánuði af þessum sökum hafi á hinn bóginn skilað framþróun í framboði og notkun stafrænnar þjónustu sem annars hefði að öllum líkindum tekið langan tíma.

 

Auknum fjármunum hefur verið varið í uppbyggingu tæknilegra innviða á árinu 2020 og munu stjórnvöld halda því áfram eins og gert er ráð fyrir í sérstöku fjárfestingaátaki næstu árin. Umbótaverkefni næstu missera þurfa að snúa að því að hrinda í framkvæmd lausnum sem styrkja framtíðartækni og -þjónustu fremur en að endurnýja í lítt breyttri mynd eldri kerfi sem styðja við núverandi verklag. Markmið fjárfestinga í slíkum innviðum er einnig að auka samkeppnishæfni Íslands með nýsköpun og verðmætum störfum í þekkingariðnaði en ekki síður að viðhalda sterkri stöðu Íslands á sviði umhverfismála. Haldið verður áfram að fjárfesta í stafrænum innviðum á borð við Strauminn (e. X-Road), sem tryggir að stofnanir geta sent gögn á staðlaðan og öruggan hátt á milli sín en það er forsenda fyrir því að auka skilvirkni og hagræðingu opinberrar þjónustu.

Áhersluverkefni næstu missera verða þrenns konar:

 1. Brýnar fjárfestingar til að minnka rekstraráhættu og mæta kröfum sem gerðar eru til grunnþjónustu stofnana.
 2. Efling tækniinnviða sem stuðla að aukinni hagkvæmni í rekstri, auka öryggi, sveigjanleika eða rýmd.
 3. Skilgreining á sóknarfærum sem stuðla að aukinni framþróun og hagnýtingu nýrrar tækni til bættrar þjónustu, aukins öryggis og hagkvæmni. Slík verkefni tengjast m.a. öflugu samstarfi við Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin, í samræmi við samstarfsyfirlýsingu um „Stafrænt norður“ (Digital North). Nýverið kynnti ESB einnig verkefnisáætlunina „Evrópa reiðubúin fyrir stafræna öld“ (Europe Fit for the Digital Age) sem ætlað er að byggja markvisst upp stafræna innviði og auðvelda almenna útbreiðslu á stafrænni tækni fyrir stjórnsýslu, borgara og fyrirtæki.

Stafræn umskipti á grunni sterkra innviða

Kortlagning á því hve langt stofnanir ríkisins eru komnar varðandi stafræn umskipti er mjög mikilvægt skref í hinni stafrænu vegferð. Með stafrænum umskiptum er átt við tæknilegar, stjórnunarlegar og félagslegar breytingar sem stafvæðing hefur í för með sér. Stafræn umskipti snúa enn fremur að getu stofnana til að bregðast við og hagnýta nýjustu tækni, bæði í innri ferlum og við veitingu þjónustu. Samkvæmt niðurstöðum úr könnun sem fjármála- og efnahagsráðuneytið lét gera meðal stjórnenda hjá ríkinu eru stofnanir vel meðvitaðar um mikilvægi stafrænna umskipta og telja að þau muni hafa jákvæð áhrif á starfsemi þeirra til framtíðar. Niðurstöður sýna hins vegar að þekkingu og hæfni starfsfólks til að takast á við stafræn umskipti er að ýmsu leyti ábótavant. Kjara- og mannauðssýsla ríkisins er með í undirbúningi átaksverkefni fyrir opinbera starfsmenn til að efla getu stofnana í stafrænum umskiptum í tengslum við aðgerðaáætlun stjórnvalda um fjórðu iðnbyltinguna. 

 
 

Áherslur stjórnvalda á sviði umbóta í ríkisstarfsemi beinast í auknum mæli að nýsköpun og eflingu stafrænnar þjónustu til að ná fram skilvirkni sem er í takt við þarfir samfélagsins og skapar skilyrði fyrir hagvexti og velsæld í samfélaginu. Á vef um opinbera nýsköpun er hægt að skoða margskonar nýsköpunarverkefni í opinberri starfsemi.

Viðbrögðin við heimsfaraldri kórónuveiru og afleiðingum hans á líf, heilsu og efnahag heimsins sýna fram á verulegan sveigjanleika og umbótagetu opinberra stofnana. Síðustu mánuðir hafa leitt í ljós styrkleika í opinberri starfsemi á sviðum þar sem miklar breytingar gerðust hratt og óvænt. Jafnframt hefur orðið skýrara hvar frekari tækifæri til þess að gera betur liggja. Samvinna hefur verið lykill að góðum árangri síðustu mánaða þar sem opinberir aðilar hafa unnið sín á milli og jafnframt komið á samvinnu við einkafyrirtæki í landinu til þess að ná fram brýnum breytingum og nýjungum, einkum í tengslum við heilbrigðisþjónustu og sóttvarnir. Þannig hefur stafræn tækni verið nýtt til að bregðast við nýjum þörfum. Má þar til dæmis nefna eflingu heilsuveru, smitrakningarapp og stafræna umsóknar- og afgreiðsluferla úrræða til stuðnings atvinnulífinu. Starfsemi hins opinbera á sviði heilbrigðis-, félags- og menntamála hefur verið gjörbreytt til að tryggja þjónustu þrátt fyrir þær takmarkanir sem leiða af smitvörnum. Mikilvægt er að nýta reynsluna og tækifærin sem felast í þeirri röskun sem orðið hefur og læra af því sem betur má fara. Unnið er að því að auka nýsköpunargetu opinberra aðila með tilstyrk aðgerðaáætlunar um opinbera nýsköpun, sem gefin var út í upphafi árs 2020 á grundvelli nýsköpunarstefnu fyrir Ísland

Aðgerðaáætlun um opinbera nýsköpun

Markmið aðgerðaáætlunar um opinbera nýsköpun er að opinberar stofnanir nýti nýsköpun til þess að mæta áskorunum nútíðar og búa sig undir framtíðina. Opinberir aðilar stundi nýsköpun til að bæta opinbera þjónustu og gera hana skilvirkari, í takt við þarfir notenda. Nýsköpun fer fram í samvinnu við aðra opinbera aðila sem og einkaaðila. Aðgerðirnar miða að því að því að bæta þekkingu á möguleikum nýsköpunar, auka samvinnu innan hins opinbera og við einkamarkað, og auka notkun opinna gagna hins opinbera og fela í sér í alls 12 aðgerðir.

 1. Samstarfshópar þvert á stjórnsýsluna. Þekkingarmiðlun á milli starfsstétta er nauðsynleg til að efla samstarf ríkisstofnana og hvetja til nýsköpunar. Nokkrar starfs-stéttir eru nú þegar með mótaðan vettvang t.d. sviði mannauðsstjóra ríkisins. Hér er tækifæri til að deila verkefnum og reynslu, bæta vinnulag og þjónustu. Hvatt verður til og stutt við mótun fleiri slíkra hópa.
 2. Nýsköpun í opinberum innkaupum. Mikilvægt er að kynna hvaða leiðir eru í boði í opinberum innkaupum til að vinna að nýsköpun. Lagaumgjörðin veitir skýra mögu-leika sem lítil þekking er á bæði hjá opinberum starfsmönnum og einkaaðilum. Staðið verður að aukinni fræðslu um málefnið.
 3. Nýsköpunarmót fest í sessi. Fyrsta Nýsköpunarmót hins opinbera var haldið í október 2019 (sjá nánar HÉR). Mótið þótti takast mjög vel og hefur verið rík eftirfylgni í kjölfar mótsins. Næsta mót er fyrirhugað í október 2020.
 4. Fréttabréf um opinbera nýsköpun. Á vefnum opinbernyskopun.island.is geta opinberir aðilar deilt nýsköpunar-verkefnum sín á milli og þar má finna fréttir og fræðslu um málefnið. Með fréttabréfi eru þessi mál færð nær opinberum starfs-mönnum og fræðsla og þekkingarmiðlun aukin.
 5. Fjármögnunarmöguleikar opinberrar nýsköpunar. Ein af áskorunum stofnana við innleiðingu nýsköpunarverkefna er fjármögnun þeirra. Settur verður af stað hópur til þess að skoða hvaða möguleikar eru fyrir hendi nú og hvað væri hægt að gera til að bæta aðgengi að fjármagni
 6.  Stefna um stafræna þjónustu. Stefna ríkisstjórnarinnar um stafræna opinbera þjónustu er skýr, Ísland verði meðal þeirra fremstu í heiminum að veita stafræna opinbera þjónustu. Stefnan verður formlega gefin út á árinu 2020.
 7.  Nýsköpunarvogin. Nýsköpunarvogin verður framkvæmd til þess að meta stöðu nýsköpunar innan hins opinbera og auka þekkingu. Könnunin er norrænt verkefni sem fer fram í annað sinn hér á landi haustið 2020. Niðurstöður fyrri könnunar má sjá HÉR.
 8.  Hagnýting opinberra gagna. Til þess að vekja athygli á opnum gögnum hins opinbera verður haldið Gagnaþon haustið 2020. Áherslan að þessu sinni verður að tengja saman gagnasett mismunandi stofnana til þess að bæta umhverfisvitund. Er von til þess að verkefnið hvetji til hagnýtingar þeirra opinberu gagna sem nú þegar er aðgengi að og hvetji stofnanir til að veita aðgengi að frekari gögnum. Þá er verkefnið til þess fallið að auka samvinnu á milli opinberra aðila og einkaaðila og hvetja til nýsköpunar.
 9.  Bætt aðgengi að opinberum gögnum. Með innleiðingu á Strauminum (e. X-Road) verður lögð áhersla á að tengja opin gögn í vörslu opinberra aðila með almenningi. Með Straumnum verður deiling gagna auðveldari fyrir stofnanir um leið og tímanleiki gagna batnar.
 10.  Mælaborð fyrir stjórnendur. Gífurlegir möguleikar felast í samanburði fyrir ríkisaðila á rekstrar- og mannauðs-gögnum á milli stofnana. Slíkt mælaborð byði upp á mikla möguleika til umbóta og nýsköpunar í starfsemi stofnana. Hafin verður vinna við mótun slíks mælaborð með þarfir stjórnenda að leiðarljósi.
 11.  Notkun, tækifæri og áskoranir gervigreindar hjá hinu opinbera. Mikilvægt er að styðja við vegferð opinberra stofnana þegar kemur að notkun gervi-greindar að því leyti að til sé aðgengilegt efni um möguleika gervigreindar, hvernig hún nýtist best og hvað þurfi að hafa í huga við notkun tækninnar. Í spurningakönnun sem send verður öllum ríkisaðilum verður skoðað að hve miklu leyti opinberir aðilar nýta sér gervigreind og hvernig. Í kjölfarið verða áskoranir og tækifæri gervigreindar fyrir hið opinbera greind.
 12. Mótuð verði umgjörð um aðgengi að opinberum gögnum. Mótaðar verði skýrar leikreglur fyrir opinbera aðila um hvaða gögn skuli deila með almenningi og hvernig að því skuli staðið.

Hagnýting gagna til ákvarðanatöku og verðmætasköpunar

Þá getur verið til mikils að vinna með auknu gagnsæi og hagnýtingu ópersónugreinan¬legra gagna hins opinbera. Gögn eru auðlind sem enn er að stórum hluta vannýtt á Íslandi og víða um heim sem efniviður til sköpunar nýrra verðmæta fyrir samfélagið. Í nýafstöðnu „Gagnaþoni fyrir umhverfið“ komu fram fjölbreyttar lausnir á umhverfisvandamálum með nýtingu á ópersónugreinanlegum opnum gagnaröðum sem fjölmargar stofnanir lögðu til keppninnar. Afurðirnar voru fjölmargar, m.a. snjallforrit til að auðvelda endurvinnslu, hugbúnaður sem nýtir gervigreind og veðurstofugögn til að minnka matarsóun veitingastaða og snjallforrit sem heldur utan um sparað kolefnisspor og hvetur til hjólreiða. Greining sem European Data Portal gekkst fyrir á efnahagslegum áhrifum opinna gagna í Evrópu bendir til að viðskiptavirði þeirra sé 184 milljarðar evra og geti orðið allt að 334 milljarðar 2025. Einnig að þau muni skapa tugi þúsunda starfa. Í alþjóðlegum samanburði er Ísland aftarlega hvað varðar framboð á opnum gögnum.Þó má benda á að engar lagalegar hindranir eru til staðar á Íslandi til að birta opin gögn, sem er ein af grunnforsendum fyrir nýtingu þeirra. Þá má vænta þess að með innleiðingu gagnaflutningslagsins Straumsins (X-Road) og innleiðingu aðgerða úr aðgerðaáætlun um opinbera nýsköpun verði gögn aðgengilegri hérlendis og hagnýting þeirra í kjölfarið meiri.

Ákjósanlegt getur verið að skoða gögn þvert á opinbera starfsemi til þess að hægt sé að koma auga á tækifæri til umbóta í rekstri, bæta nýtingu fjármuna, auka aðhald og bæta greiningarhæfni. Þá gerir markvisst utanumhald og birting gagna það mögulegt að sýna fram á árangur í starfsemi hins opinbera svo hægt sé að meta samfélagslegan ávinning af ráðstöfun fjármagns. Með birtingu upplýsinganna á notendavænu viðmóti eykst einnig gagnsæi gagnvart almenningi og Alþingi, sem hefur m.a. í för með sér að upplýsingagjöf verður skilvirkari og forsendur gætu skapast fyrir bættri ákvarðanatöku og auknu trausti á stjórnsýslu og stjórnvöld. Að þessu sögðu er ljóst að mikilvægt er að móta umgjörð og skýra stefnu um birtingu upplýsinga, form þeirra og nýtingu innan ríkisrekstrarins. Þetta er líka brýnt svo samnýta megi mælaborð og forðast tvíverknað við þróun þeirra með tilheyrandi kostnaði og óskilvirkni. Skilgreining þeirra afurða sem þjónustan á að skila er forsenda fyrir mælingum og árangursmati.

Kostir við birtingu upplýsingaLykilatriði við birtingu upplýsinga
 • Betri greiningarmöguleikar
 • Betri möguleikar til að sýna fram á árangur
 • Aukinn agi í skráningum
 • Aukið gagnsæi
 • Skilvirkari upplýsingagjöf
 • Aukið traust
 • Áreiðanleiki í skráningum
 • Styðjast við viðurkennda mælikvarða
 • Tryggja tímanleika gagna með reglulegri gagnaöflun
 • Huga að bakgrunnsbreytum líkt og kyni
 • Birta aðeins ópersónugreinanleg gögn

 

Greiningargeta stjórnvalda og hins opinbera er nauðsynlegur þáttur í því að auka gagnsæi í útgjöldum og færni stjórnkerfisins til að geta brugðist hratt við breytingum og áskorunum. Á sama tíma eru greiningar mikilvægar til að skapa betri forsendur fyrir stefnumörkun í mikilvægum málum og bæta nýtingu fjármuna. Þannig má treysta betur samhengi ákvarðana til skemmri tíma við markmiðssetningu og horfur til lengri tíma. 

Forgangsröðun og endurmat útgjalda

Núverandi hallarekstri ríkisins er ætlað að verja þjónustu og atvinnustig en er ekki sjálfbær stefna til langs tíma litið. Mótvægisaðgerðir og fjárfestingar í kjölfar veiru¬faraldursins þurfa að skila arðsemi og aukinni skilvirkni. Jafnframt þarf að tryggja bættan árangur í opinberum rekstri. Markvisst endurmat útgjalda gerir stjórnvöldum kleift að forgangsraða takmörkuðum fjármunum og stuðlar samtímis að hagræðingu og betri þjónustu.

Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) hefur skilgreint endurmat útgjalda sem ferli við að þróa og innleiða betri nýtingu fjármuna með kerfisbundinni greiningu fjárveitinga til einstakra verkefna og málaflokka. Ferlið er mikilvægur hluti af áætlanagerð margra OECD-ríkja og er ætlað að tryggja að upplýsingum um ráðstöfun fjármuna sé fylgt eftir með samanburði á árangri og tilkostnaði. Markmiðið er að auka gagnsæi, hagkvæmni og eftir atvikum skapa svigrúm svo hægt sé að veita fjármuni til verkefna sem eru í forgangi án þess að auka skattbyrði almennings. Samkvæmt nýlegri úttekt OECD nota u.þ.b. 30 lönd endurmat útgjalda í tengslum við árlega áætlanagerð stjórnvalda.

Fyrirkomulag við endurmat útgjalda hefur tekið á sig mismunandi myndir og sýnir reynslan að mikilvægt er að hvert land aðlagi framkvæmdina að aðstæðum og vinni stöðugt að því að gera ferlið skilvirkara til að auka yfirsýn yfir rekstur ríkisins. Helstu áskoranir annarra landa við innleiðingu á þessu verklagi lúta að aðgengi og gæðum upplýsinga um árangur. Reynsla annarra sýnir einnig að ferlinu þarf að fylgja skýr pólitískur stuðningur, enda snýr forgangsröðun og ráðstöfun fjármuna á grundvelli útgjaldaendurmats að pólitískum ákvörðunum. Hérlendis er og verður áfram byggt á því sem vel hefur reynst hjá öðrum þjóðum.

 

Stýrihópur vinnur nú að endurmati útgjalda ríkisins, annars vegar að einstökum matsverkefnum og hins vegar að innleiðingu reglubundins endurmats í samræmi við lög um opinber fjármál. Öflun þekkingar og reynslu af hagnýtum verkefnum er ætlað að stuðla að samræmdri umgjörð og samhæfðu verklagi. Almenna innleiðingin lýtur á hinn bóginn að aðlögun aðferðafræðinnar að íslenskum aðstæðum, hvort sem litið er til uppbyggingar og verkaskiptingar innan stjórnsýslunnar eða stöðu ríkisfjármálanna. Á næstu árum er stefnt að því að aukið frumkvæði og ábyrgð færist frá fjármála- og efnahagsráðuneyti til annarra ráðuneyta. Lykilatriðið er almennur skilningur á aðferðafræðinni og þýðingu hennar fyrir gagnsæja stjórnsýslu, hagræðingu í ríkisrekstri og skilvirka forgangsröðun takmarkaðra fjármuna.
Sjálft útgjaldaendurmatið felst í samanburði ávinnings og tilkostnaðar, sem aftur byggist
á þremur meginstoðum:

 1.  Fjárhagslegu mati á árangrinum sem stjórnvöld stefna að.
 2. Kortlagningu mögulegra stjórntækja eða aðgerða til árangurs.
 3. Mati á skilvirkni og fýsileika helstu stjórntækja eða aðgerða.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið áformar að ljúka á næsta ári a.m.k. fjórum endurmats¬verkefnum í ólíkum málaflokkum í samstarfi við önnur ráðuneyti. Í framhaldinu verði tekin pólitísk ákvörðun um næstu skref, þ.e. hvort hrinda eigi aðgerðunum í framkvæmd, hvenær og hvert umfang þeirra eigi að vera. Einnig er stefnt að því að á árinu 2021 verði lokið við að kostnaðarmeta áætlaðan árangur í fjármálaáætlun fyrir tíu málaflokka og að árið 2025 verði málaflokkarnir sem hafa verið kostnaðarmetnir með þessum hætti orðnir 50 talsins. Ætlunin er að þetta verði fyrsti áfangi að heildstæðu útgjaldaendurmati sem geri einstaka ríkisaðila betur í stakk búna til upplýstari ákvarðanatöku á grundvelli gagna og til að leiða forgangsröðun og endurmat útgjalda vegna málaflokka eða viðfangsefna sem þeir bera ábyrgð á.

Víða eru tækifæri til stærri og smærri umbótaverkefna sem saman geta skipt miklu máli til þess að auka framleiðni og hvetja til nýsköpunar. Jafnframt þurfa stjórnendur og starfsfólk stofnana ávallt að vera móttækileg fyrir breytingum. Áhersla á umhverfi stöðugra umbóta er hvatinn að umbótasamtölum sem munu hefjast haustið 2020 hjá öllum stofnunum ríkisins. Samtölin eru lykilatriði í kjarasamningum sem náðust við bandalög og stéttarfélög ríkisstarfsmanna veturinn 2019–2020. Í samningunum er heimild til að gera breytingar á vinnutíma starfsfólks í kjölfar breytts vinnulags og umbóta í starfsemi stofnana. Markmið samtalanna er að stjórnendur og starfsfólk leiti í sameiningu leiða til að gera starfsemi stofnana skilvirkari og bæta starfsumhverfi og vinnustaða¬menningu. Ávinningurinn er sameiginlegur starfsfólki og stjórnendum. Hann felst annars vegar í betri og skilvirkari þjónustu stofnana og hins vegar í sveigjanlegri eða styttri vinnutíma starfsfólks. Til lengri tíma litið eru væntingar um að umbótasamtölin verði hvati til þess að vinnustaðamenning ríkisins einkennist af stöðugum umbótum og framþróun, í stóru sem smáu.

Sveigjanlegt vinnuumhverfi

Vinnuumhverfi hins opinbera skiptir miklu máli fyrir þær umbætur sem stefnt er að í ríkisrekstri, hvort sem litið er til bættrar stjórnendafærni, stafrænna innviða, eflingar nýsköpunar eða betri nýtingar fjármuna. Með eflingu stafrænnar opinberrar þjónustu mun þörf fyrir húsnæði sem sniðið er að móttöku og afgreiðslu viðskiptavina minnka. Stafrænar lausnir skapa enn fremur aukin tækifæri til samreksturs og samnýtingar á innviðum ríkisaðila, sem er til þess fallið að efla gæði og fjölbreytni starfsumhverfis um leið og dregið er úr rekstrarkostnaði. Á þessum grundvelli er gert ráð fyrir að húsnæði fyrir ríkisstofnanir verði umbreytt og aðlagað til að styðja við sveigjanlegra vinnufyrirkomulag. Jafnframt mun stafræn þróun skapa tækifæri til sveigjanlegrar staðsetningar starfa og verkefna. Microsoft-samningur ríkisins auðveldaði fjarvinnu starfsmanna og öll samskipti í samkomu-takmörkunum sem var lykilatriði í því að viðhalda þjónustu og starfsemi hins opinbera. Kjara- og mannauðssýsla ríkisins vinnur nú að leiðbeiningum til ríkisstofnana um fjarvinnu starfsmanna. Þær takmarkanir sem samfélaginu hafa verið settar vegna kórónuveirunnar síðustu mánuði hafa leitt í ljós hversu fljótt stofnanir og fyrirtæki gátu nýtt tæknina til þess að halda uppi þjónustu við almenning.

Hagkvæm vistvæn innkaup – nýsköpun og samvinna

Til mikils er að vinna að ríkisaðilar nýti innkaup og samvinnu við einkamarkaðinn til þess að hagræða í rekstri, tileinka sér nýjar lausnir og ná fram skilvirkni og minna vistspori í þjónustuveitingu. Markviss vörustjórnun og stefnumarkandi innkaup geta haft veruleg áhrif á möguleika ríkisins til að fjármagna verkefni og getur betri árangur í aðfangakaupum skilað umtalsverðum sparnaði inn í ríkissjóð sem eykur þá getu til brýnna verkefna.

Ríkið ráðstafar á hverju ári yfir 200 ma.kr. í opinber innkaup, sem eru vörur, þjónusta margs konar og verklegar framkvæmdir. Sameiginleg innkaup á rafmagni, tölvum og öðrum vörum hefur þegar skilað miklum árangri en ennþá eru ónýtt mikil tækifæri í samrekstrar¬verkefnum, þjónustukaupum og sértækum þjónustusamningum ríkisins. Rík áhersla er á að ná frekari árangri með markvissari þjónustukaupum, vistvænni valkostum og aukinni nýsköpun. Í ljósi umfangs opinberra innkaupa getur ríkið sem kaupandi haft veruleg áhrif á eftirspurn eftir vistvænni valkostum með lægri líftímakostnað og áhrif á þróun slíkra kosta. Í stefnumörkun opinberra innkaupa verður lögð áhersla á að tryggja að innkaup ríkisins séu framsækin og sjálfbær, þau séu framkvæmd á gagnsæjan hátt og stuðli að hagkvæmni, samkeppni og nýsköpun.

 

Kynja- og jafnréttissjónarmið í stefnumótun og ákvarðanatöku

Vægi kynja- og jafnréttissjónarmiða við stefnumótun og ákvarðanatöku hefur aukist á undan¬förnum árum og er kynjuð fjárlagagerð leið til að huga að áhrifum sem öflun og ráðstöfun opinberra fjármuna getur haft á stöðu kynjanna og jafnrétti. Þannig er stuðlað að upplýstari og gagnsærri ákvarðanatöku með betri nýtingu opinbers fjár, efnahagslegt jafn¬ræði, sanngirni og almenna velferð að leiðarljósi.

Á undanförnum árum hefur áhersla verið lögð á að greina og miðla upplýsingum um stöðu kynjanna eftir málefnasviðum og málaflokkum. Afrakstur þessarar vinnu birtist m.a. í grunnskýrslu kynjaðrar fjárlagagerðar og varpa niðurstöðurnar ljósi á þær áskoranir sem til staðar eru í jafnréttismálum og hvernig bregðast má við þeim. Með útgangspunkt í grunn¬skýrslunni eru í greinargerðum um málefnasvið í fjármálaáætlun dregnar fram helstu áskoranir og tækifæri til úrbóta sem snúa að stöðu kynjanna og jafnréttismálum.

Þessar upplýsingar um stöðu kynjanna reyndust mjög gagnlegar við mótun aðgerða stjórnvalda vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og mat á áhrifum þeirra á jafnrétti kynjanna. Þannig var til að mynda fljótt gripið til aðgerða gegn heimilisofbeldi og félagslegur stuðningur aukinn. Kynjasjónarmið voru höfð í huga við útfærslu á ýmsum úrræðum, t.d. var við mótun skilyrða fyrir lokunarstyrki gætt að því að útiloka ekki sjálfstætt starfandi í hlutastarfi en konur eru mun líklegri en karlar til að vera í hlutastarfi. Einnig er áhersla lögð á að fylgjast með nýtingu úrræðanna og að upplýsingar séu brotnar niður eftir kyni þegar það á við. Þannig má auka líkur á að úrræðin skili tilætluðum árangri og stuðli að jafnrétti kynjanna.

Ítrekað hefur verið bent á skort á kyngreindum gögnum en án þeirra er erfitt að leggja hlutlægt mat á stöðu kynjanna eða meta áhrif ákvarðana stjórnvalda á jafnrétti. Í samræmi við fimm ára áætlun um kynjaða fjárlagagerð 2019–2023 og framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum 2020–2023 er unnið að því að bæta yfirsýn yfir kyngreind tölfræðigögn og að söfnun og notkun þeirra hjá opinberum aðilum verði gerð með sambærilegum hætti. Þá er stefnt að því að í fjármálaáætlun verði sem flestir mælikvarðar málaflokka brotnir niður eftir kyni eftir því sem við á og mögulegt er. Þannig má draga fram upplýsingar um ólíka stöðu kynjanna sem annars kynni að vera hulin og bregðast við með markvissum aðgerðum.

Áfram er unnið að samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða við alla fjárlaga- og áætlanagerð ríkisins. Næstu skref felast m.a. í þróun markvissara vinnulags við mat á áhrifum fjárlagatillagna á jafnrétti kynjanna og verður byggt á þeirri þekkingu sem þegar hefur verið aflað með jafnréttismati málefnasviða og málaflokka. Heildstætt mat á áhrifum helstu ráðstafana, sem lagðar eru til í frumvarpi til fjárlaga 2021 á jafnrétti kynjanna má nú finna í greinargerð með frumvarpinu.

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira