Hoppa yfir valmynd
Félagsmálaráðuneytið

Verkefnisstjórn NPA fundargerð 8. janúar 2013

  • 55. fundur – fundargerð
  • Fundarstaður: Fundarsalur á 3. hæð í velferðarráðuneytinu.
  • Fundartími: Þriðjudagurinn 8. janúar kl. 10.00 – 11.30.
  • Mætt: Guðmundur Steingrímsson (GSt), Hrefna Óskarsdóttir (HÓ) , Áslaug Friðriksdóttir (ÁF), Bryndís Snæbjörnsdóttir (BS), Gyða Hjartardóttir (GH) og Þór Garðar Þórarinsson (ÞGÞ).
  • Forföll: Guðjóns Sigurðsson (GS) og Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir (GSG). Embla Ágústsdóttir (EÁ) fulltrúi NPA miðstöðvarinnar mætti á fundinn sem áheyrnarfulltrúi.

1. Fundargerð síðasta fundar

Fundargerð síðasta fundar var samþykkt með áorðnum breytingum.

2. Umræða um framvindu NPA vinnunnar

ÞGÞ upplýsti um stöðu umsókna um NPA. Fram kom að til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga hafa borist umsóknir frá Reykjavík , Hafnarfirði, Borgarbyggð, Norðurlandi vestra og Suðurlandi. Vænst er umsókna frá a.m.k. Akureyri, Mosfellsbæ, Kópavogi, Garðabæ. Áætlaður fjöldi umsókna gæti því orðið milli 60 og 70. Nákvæmari tölur munu liggja fyrir undir lok vikunnar og verða þær sendar fulltrúum í verkefnisstjórn NPA.

GSt. áréttaði að ekki væri gert ráð fyrir því að auglýst yrði eftir fleiri umsóknum á meðan á tilraunatímabilinu stæði.

Verkefnisstjórn varð sammála um að óska eftir því að frestur til að skila umsóknum yrði framlengdur um 14 daga þannig að þeim sveitarfélögum sem hefðu hug á að senda inn umsóknir gæfist svigrúm til þess. Beiðni þessa efnis verður send Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.

Vinnuhópur verkefnisstjórnar sem ætlað er að yfirfara umsóknir verður boðaður til fundar í viku 4. Í hópnum eru GSt, GH og ÞGÞ.

Í þessu sambandi var einnig rætt um hvernig það fjármagn sem ætlað er í tilraunaverkefnið nýttist sem best. Gert er ráð fyrir því að það fjármagn sem ekki er nýtt í fyrstu umferð miðað við fyrri starfsreglur sé hægt að endurúthluta til þeirra sveitarfélaga sem sent hafa inn umsóknir og skortir fjármagn til þess að ganga frá NPA samningum.

3. Úttekt á árangri tilraunaverkefnisins um NPA

ÞGÞ gerði grein fyrir samskiptum sínum við Félagsvísindastofnunar þar sem farið hafði verið yfir hugsanlega aðkomu Félagsvísindastofnunar að því að meta tilraunaverkefnið. Félagsvísindastofnun lýsir yfir vilja sínum til þess að framkvæma úttekt af þessu tagi í samvinnu við fleiri stofnanir á vegum HÍ. Vilji er til þess að reyna að meta kostnað og ábata af verkefninu og með það í huga að NPA yrði ein af stoðum þjónustunnar við fatlað fólk til framtíðar litið. Ákveðið var að óska eftir því við Félagsvísindastofnun að móta hugmyndina betur og var ÞGÞ falið að koma með hugmyndir um það fyrir næsta fund.

4. Umræða um starfsleyfi

ÞGÞ gerði grein fyrir þeirri vinnu sem unnin hefur verið í velferðarráðuneytinu í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga um starfsleyfi. Fyrir liggja drög sem hafa verið send hagsmunaaðilum til umsagnar. Ekki er gert ráð fyrir því að umsýsluaðilar þurfi að fullnægja frekari skilyrðum en þeim sem fram koma í lögum um málefni fatlaðs fólks og lýst er í samstarfssamningi fyrir umsýsluaðila. Eftir að tilraunatímabili lýkur er gert ráð fyrir frekari samþættingu reglna um starfsleyfi vegna NPA við almennar reglur um starfsleyfi.

5. Gátlisti vinnueftirlitsins

Ákveðið að ÞGÞ færi yfir gátlistann eins og hann er nú og gerði breytingar og kynnti þær á næsta fundi.

6. Upplýsingar frá sveitarfélögum um umsóknir vegna NPA

BS bar fram þá tillögu að verkefnisstjórnin myndi óska eftir upplýsingum um umsækjendur um NPA hjá öllum sveitarfélögum. Ekki væri þá bara verið að fá upplýsingar um NPA sem sveitarfélögin hefðu samþykkt heldur einnig hina sem hefðu fengið höfnun.

Þessi tillaga var samþykkt.

7. Önnur mál

EÁ vakti athygli á því að það sniðmát (NPA samstarfssamningur) sem verkefnisstjórn vegna NPA lét gera virðist vera að taka á sig mismunandi myndir á milli sveitarfélag. Rökin fyrir gerð sniðmátsins voru rifjuð upp en þau voru þau að mikilvægt væri fyrir sveitarfélög og umsýsluaðila og síst notendur að starfsumgjörð þeirra sem væru að veita þjónustuna væri samræmd og að í samstarfssamningum væru öll þau atriði tilgreind sem þyrfti til í slíkum samningum. EÁ ætlaði að koma með sniðmát til skoðunar á næsta fund verkefnisstjórnar.

Næsti fundur boðaður 22. janúar.

Fleira var ekki gert.

ÞGÞ skrifaði fundargerð.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira