Hoppa yfir valmynd

Notendastýrð persónuleg aðstoð - NPA

NPA þýðir notendastýrð persónuleg aðstoð. NPA er fyrir fatlað fólk sem þarf aðstoð í daglegu lífi. Þegar talað er um notendastýrða aðstoð þýðir það að notandinn stjórnar ferðinni. Notandi er sá sem fær aðstoðina.

Notandinn ræður sjálfur:

  • Hvar hann fær aðstoðina
  • Hvenær hann fær aðstoð
  • Hvernig aðstoðin er veitt
  • Hver aðstoðar hann.

Þegar notandinn stýrir aðstoðinni sjálfur er hann sjálfstæðari í lífi sínu og aðstoðin sem hann fær er sveigjanlegri. Aðstoðin á að hjálpa notandanum að vera sjálfstæðari og virkur í samfélaginu. Það þýðir að hann hafi meiri möguleika á að gera það sem hann þarf að gera og hann langar til að gera.

Notandinn skipuleggur aðstoðina sjálfur. Ef hann á erfitt með það á hann rétt á að fá aðstoð við að skipuleggja hana. 

Í samningi um NPA sem notandi gerir við sveitarfélagið þar sem hann býr er ákveðið hversu mikla aðstoð hann þarf. Svo má notandinn ráða því sjálfur hvenær hann fær aðstoðina. En hann þarf að passa að tímarnir sem hann notar í aðstoðina verði ekki fleiri en stendur í samningnum.

Notandinn getur til dæmis notað fáa tíma einn mánuð og geymt tíma þar til síðar. Þetta getur verið gott ef notandi hefur til dæmis ákveðið að gera eitthvað sérstakt seinna og veit að hann þarf meiri aðstoð þá. Til dæmis að fara í sumarfrí.

Hver getur sótt um NPA?

Eins og áður hefur komið fram geta notendur sem gert hafa samkomulag við sveitarfélag um NPA valið að fá aðstoðina skipulagða sem slíka. Grundvöllur samkomulagsins er þó að notendur uppfylli viðmið 1. gr. laga nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, og önnur þau skilyrði sem fram koma í 11. gr. laga þeirra laga. Einnig gilda ákvæði reglugerðar nr. 1250/2018 um notendastýrða persónulega aðstoð, ásamt reglum sveitarfélags um NPA. 

Rétturinn til NPA nær til einstaklinga sem þurfa sértæka aðstoð umfram 15 klst. á viku. Þeir sem náð hafa 67 ára aldri eiga rétt á að njóta hennar áfram nema verulegar breytingar verði á stuðn­ingsþörfum. Verði einstaklingur fyrir skerðingu eftir 67 ára aldur, sem jafna má til fötl­unar, skulu aðstæður hans metnar sérstaklega og m.a. litið til þess hvort fötlunin sé til kom­in vegna aldurstengdra ástæðna.

Þeim sem uppfylla ekki skilyrði fyrir samningi um NPA gæti hins vegar hentað að fá aðstoð á grundvelli notendasamnings (sjá 10. gr.  laga nr. 38/2918 um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir). (Sjá nánar í kafla 1.5. í handbók um NPA).

Hvernig er sótt um NPA?

Einstaklingur, eða persónulegur talsmaður hans, sækir um NPA hjá sveitarfélagi þar sem hann á lögheimili. Sveitarfélagið aflar grunnupplýsinga hjá umsækjanda og/eða þeim sem þekkja best til hans um andlega, líkamlega og félagslega stöðu og virkni og framkvæmir þannig heildstætt mat.

Á grundvelli þeirra upplýsinga er mat lagt á stuðningsþörf umsækjanda. Matið er því greining á stöðu hans og aðstæðum og hvaða stuðnings er þörf til þess að hann geti lifað eins sjálfstæðu lífi og kostur er.

Á grundvelli þessa grunnmats fer tengiliður innan félagsþjónustunnar yfir það með umsækjanda eða talsmanni hans hvaða kostir kunni að koma til greina og gerir tillögu þar að lútandi, þ.e. um NPA eða aðra kosti. Brýnt er að farið sé ítarlega yfir það á þessu stigi hvaða kostir kunni að standa umsækjanda til boða, hverjir komi ekki til greina og þá hvers vegna.

Sé niðurstaða grunnmatsins sú að þörf fyrir þjónustu eða stuðning sé önnur eða víðtækari en veitt er samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga og að sveitarfélagið telji að þjónusta á formi NPA komi til álita skal það tilkynnt umsækjanda. 

Fræðsla

HandbókRáðuneytið gaf út handbók með upplýsingum um hvað í því felst að njóta aðstoðar sem skipulögð er undir heitinu notendastýrð persónuleg aðstoð (NPA). Handbók um NPA (PDF-skjal)

Ráðuneytið heldur úti fræðslugátt sem hefur það markmið að bjóða upp á aðgengi að þekkingu og fræðslu á málasviðum þess, meðal annars varðandi NPA. Sjá nánar á Fræðslugátt.

Ábending?

Ráðuneytið leggur ríka áherslu á að hlusta eftir skoðunum notenda, aðstoðarmanna, umsýsluaðila, starfsmanna sveitarfélaga og almennings á NPA. Ábendingu má senda á [email protected].

Sjá einnig:

Síðast uppfært: 8.12.2022
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum