Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu

Áætlað er að ný gæða- og eftirlitsstofnun sem í byrjun mun sinna stjórnsýsluverkefnum og eftirliti á sviði félagsþjónustu auk afmörkuðu eftirliti á sviði barnaverndar taki til starfa í janúar 2018. Til að byrja með mun stofnunin fyrst og fremst annast stjórnsýslu og eftirlit með félagsþjónustu sem veitt er af hálfu sveitarfélaga, opinberra stofnana eða á grundvelli samninga. Undir félagsþjónustu sveitarfélaga heyrir meðal annars ýmis þjónusta sem snýr að börnum, fjölskyldum, fötluðu fólki, öldruðum og innflytjendum.

Ákvörðun um að fela þessi verkefni sérstakri stofnun byggist á tillögum nefndar sem ráðherra félagsmála skipaði árið 2014 með það að markmiði að styrkja undirstöður heildstæðrar þjónustu ríkis og sveitarfélaga og skilja með skýrum hætti á milli stjórnunar- og eftirlitshlutans annars vegar og veitingu þjónustunnar hins vegar. Í þeim tillögum sem byggt er á varðandi hlutverk og verkefni nýrrar stofnunar er gert ráð fyrir að stjórnsýsla og eftirlit á sviði barnaverndar séu þar á meðal. Undirbúningur að flutningi þessara verkefna frá Barnaverndarstofu til hinnar nýju stofnunar stendur yfir í ráðuneytinu en sú ráðstöfun krefst meðal annars endurskoðunar á tilteknum greinum barnaverndarlaga.

Hlutverk stofnunarinnar á sviði stjórnsýslu verður meðal annars að sjá um þróun og útgáfu kröfulýsinga, gæðaviðmiða og árangursmælikvarða fyrir þjónustu á þeim málasviðum sem undir hana heyra. Auk þess mun stofnunin annast samskipti við sveitarfélög vegna endurgreiðslna fjárhagsaðstoðar við erlenda ríkisborgara hér á landi og utanríkisráðuneytið vegna aðstoðar við íslenska ríkisborgara í neyð erlendis. Þá mun stofnunin veita faglegar leiðbeiningar um framkvæmd þjónustu og miðla dæmum um fyrirmyndarverkefni á sviði félagsþjónustu.

Í eftirlitinu felst meðal annars að safna upplýsingum, gera úttektir á þjónustunni, fylgja þeim eftir og bregðast við athugasemdum og ábendingum sem snúa að þjónustunni. Eftirlit með þjónustu meðferðarheimila á vegum Barnaverndarstofu sem nú er sinnt á skrifstofu félagsþjónustu í velferðarráðuneytinu mun flytjast yfir til hinnar nýju stofnunar. Áætlað er að önnur verkefni á sviði barnaverndar bætist við á síðari stigum en um nýja stofnun er að ræða og mun starfsemi hennar taka mið af endurskoðun laga á þeim málasviðum sem undir hana heyra.

Réttindagæslumenn fatlaðs fólks munu starfa innan ráðuneytisstofnunarinnar og sömuleiðis sérfræðiteymi um ráðgjöf til að draga úr nauðung í þjónustu við fatlað fólk.

Gert er ráð fyrir að starfsmenn stofnunarinnar verði allt að sjö í upphafi, þar af fjórir sem nú starfa á skrifstofu félagsþjónustu í velferðarráðuneytinu.

Áætlað er að stofnunin verði til húsa í afmörkuðum hluta húsnæðis velferðarráðuneytisins, að Skógarhlíð 6.

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn